Untitled

Getgátur um þann sáttmála sem stjórnmálaflokkarnir fjórir reyna að berja saman í sumarbústað Sigurðar Inga (eða eru þau annars staðar í dag?) eru merkilegt sport. Píratar þurfa að fórna öllu, þetta verður dýrkeypt fyrir Samfylkingu, Vinstri Græn verða látin virkja og Framsóknarflokkurinn svíkja bændur. Samt veit enginn hvað fólk er að tala um, nema bara grófu línurnar – að allir þurfi að miðla málum, sem segir sig sjálft, líka í tveggjaflokkastjórnum.

***

Það er líka áhugavert að heyra fulltrúa flokkanna tala um að nú verði að vinna að stóru málunum en láta hin sitja á hakanum. „Hin“ eru – sennilega, út á það ganga a.m.k. getgáturnar – stóru málin í flokkunum sjálfum, hjartaspurningarnar heitir það á sænsku. ESB og það allt saman. Það sem fólki utan flokksins finnst oft bara vera meinlokur. Beint lýðræði pírata. Ég átta mig reyndar ekki á því hvað það væri í VG – kannski að einkarekstur væri meira tabú en hann er, allavega vinstra megin, og grænumegin að virkjanir yrðu stöðvaðar. Hvað vilja Framsóknarmenn, innst inni, veit það einhver? Hvað er inni í Framsóknarmanni?

***

En þessar getgátur sem sagt, kannski mínar líka, eru sennilega mest hugsaðar til þess að skapa óró í grasrótinni – sem bíður einsog allir aðrir eftir svörum. Að fólk fari að hringja í Þórhildi Sunnu og öskra reitt að ef það fái ekki stjórnarskrá muni það hér eftir klippa krossgátur föður hennar úr blöðunum og henda þeim í ruslið óleystum.

***

Þetta er harður bransi.

***

Við Nadja fórum út að borða í gær. Og svo í drykki hjá Geira og Leu – hlustuðum á Kraftwerk, AC/DC og Massive Attack. Og reyktum sígarettur á svölunum (aðallega ég samt, eða bara ég, Geiri gasaði sig). Fjöllin voru fögur. Nú ætla ég út í snjóinn að hlaupa af mér sígaretturnar. Hlaupa uppi lífið og heilsuna. Og hér er sem sagt allt á kafi í snjó, best að setja á sig mannbroddanna, engar á ég snjóþrúgur. Og hlýju peysuna, síðu nærbuxurnar. Ekki seinna vænna, stefnir víst í storm.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png