Untitled

Þegar ég byrjaði að skrifa Hans Blævi hafði ég fyrst og fremst áhuga á aðlögunarhæfni öfgahægrisins og því hvernig fasistar umfaðma mótsagnir sínar – einsog þegar fólk af afrískum uppruna gengur til liðs við Le Front National í Frakklandi; eða konur, oft sterkar og ákveðna konur, gerast sjálfviljugar talsmenn þess að konur séu fyrst og fremst eldabuskur og mellur.

En svo verða bækur alltaf að einhverju öðru á ferðalaginu – þær spyrja sinna eigin spurninga og Hans Blær er miklu ólíkari fyrirmyndum sínum en ég hélt að hán yrði. Sem er auðvitað gott, það er það sem maður sækist eftir sem höfundur, þá hefur eitthvað tekist vel. Hans Blær er sín eigin persóna og verður ekki einfaldlega smættað niður í myndlíkingu fyrir eitt eða annað – þótt bókin um hána varpi vonandi einhverju ljósi á samfélagið sem við lifum í. Hán er í sann miklu sárari, reiðari og sterkari – aðdáunarverðari og fyrirlitlegri í senn – og meira kaos. Fasistar eru yfirleitt alveg hnausþykkir fábjánar – en Hans Blær er vel gefið, vel lesið og snarpt.

Síðustu ár og áratugi höfum við skoðað sjálfsmyndir okkar í kjölinn – og allar bækur mínar fjalla í raun um það hver við séum, hver við fáum að vera, og hvernig við komum sjálfum okkur og öðrum fyrir sjónir – og þessari rannsókn, sem er stundum naflaskoðun og stundum valdagreining, fylgir sú meinloka að afstaða okkar til lífsins stýrist einfaldlega af „stöðu okkar í samfélaginu“ eða ídentíteti – einsog við værum hverjir aðrir taflmenn. En svo er það auðvitað ekki. Þeir sem tilheyra einum minnihlutahópi standa til dæmis ekki ósjálfrátt með öllum sem tilheyra öðrum minnihlutahópum.

Þegar við smættum pólitíkina svona niður í spurninguna um ídentítet breytum við ídentítetinu í vopn sem getur síðan hæglega snúist í höndunum á okkur. Marine Le Pen er kona, Kent Ekeroth er gyðingur af innflytjendaættum, Toni Iwobi er svartur innflytjandi, Blaire White er transkona, Milo Yiannapoulus er hommi af gyðingaættum og giftur svörtum manni – hvernig getur nokkuð af þessu fólki verið málsmetandi fasistar eða mótfallið mannréttindum minnihlutahópa? Fá þau afslátt á skoðunum sínum – kunnum við að hantera þetta, á tímum sem leggja minna upp úr því sem sagt er, en því hver segir það? Hvenær er afstaða Blaire White til réttinda transfólks rétthærri en mín – í öllum mínum hvíta sísheteróljóma – og hvenær er hún það ekki?

Hans Blær beitir ekki bara kyni sínu – eða kynjum, réttara sagt – heldur verður hánum öll viðkvæmni samfélagsins að vopni, öll hysterían. Hán veit að á þessu brjálaða tempói, þessum knee-jerk viðbragðsflýti og sjálfvirku hneykslun á öllum vígstöðvum, skiptir ekkert máli nema það hvar fókusinn liggur það og það augnablikið. Þá er þetta ekki lengur spurning hver hlær síðast, heldur hver sagði síðast eitthvað spennandi, fyndið, æsilegt, eitthvað sem maður bara verður að smella á – því það er engin samfella eftir í lífinu hvort eð er heldur hefur það breyst í hrauk af nánast ótengdum augnablikum.

Við byrjum hvern einasta dag svona, skrollum okkur í gegnum Facebook og finnum til samlíðunar, gleði, hryllings, reiði – við tárumst yfir vinum sem létust, fögnum nýfæddum börnum, skrifum undir undirskriftalista gegn flóttamannastefnunni, hlæjum að einhverri fyndni, hneykslumst að einhverri heimsku, lækum allt á ólíkum forsendum, afvinum gamla vini og vinum nýja – og allt þetta áður en við einu sinni kveikjum á kaffivélinni. Og á meðan hún er að laga kaffið gerum við þetta aftur. Aftur í strætó á leiðinni í vinnuna. Af og til allan vinnudaginn. Á leiðinni heim. Svo meðan pizzan er í ofninum. Þegar við förum á klósettið. Áður en við sofnum. Og aldrei dveljum við lengur en örfáar sekúndur í hverri hugsun eða tilfinningunni sem hún vekur. Það er ekkert skrítið þótt afstaða okkar til veruleikans sé skitsó eða að mörg okkar eigi við alvarleg kvíðavandamál að stríða – það er engin ráðgáta.

Þessum veruleika hefur Hans Blær lært að beita til þess að meiða samfélag sem hefur löngum meitt hána. Og sennilega er það það sem vakir fyrir hánum fyrst og fremst – miklu frekar en einhver afturhaldspólitík eða ídentítetspólitík, eitthvað hægri eða eitthvað vinstri. Hán vill bara skilja eftir sig sviðna jörð í heimi sem hefur komið fram við hána einsog skít.

3 views0 comments

Recent Posts

See All

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri en

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordina

Einlægur Önd_edited.png