Untitled

Menningardagbók, rituð að morgni föstudags en birt sólarhring síðar. Af því ég er að fara að tala um þessa hluti í Lestarklefanum á eftir og það væri asnalegt að vera búinn að birta allt sem ég ætla að segja á blogginu mínu. Ég þarf líka að geta tekið út allt sem ég segi hér sem stemmir ekki við það sem ég segi síðan í útvarpinu, því ég skipti áreiðanlega um skoðun.

Skattsvik Development Group er sýning sem ég sá á tölvuskjá en er ætluð sem leiksýning. Hugmyndin – hópur listamanna leitar allra leiða til að koma tekjum sínum af sýningunni í skattaskjól – er frábær og það er alveg einhver innsýn þarna í áhugaverða mekanisma. Mig langaði hálfvegis að horfa á þetta með Björgólfi Thor og sjá hvað hann kannaðist við, hvað væri bara vitleysa, hvað væri klaufaskapur eða misskilningur. Þeim mistekst auðvitað að skjóta peningunum undan – kannski væri sýningin betri ef þeim hefði þó tekist að koma peningunum í var. Það vantar allavega eitthvað í hana fyrir mig. Kannski hefðu þeir einfaldlega þurft meiri tíma – og hærri laun – til að kafa dýpra. Sýna manni eitthvað sem maður vissi ekki fyrir. Þeir eru svolítið mikið að gaufa á yfirborðinu – og gaufið er í sjálfu sér skemmtilegt en það er líka einsog það taki athyglina frá því sem maður ímyndar sér að eigi að vera fókus sýningarinnar – einhver svona átök litla mannsins við fjármálaheiminn. Og auðvitað er sögnin – þessi sýsífosarleikur – góð en tíminn eiginlega rennur frá manni áður en þetta er orðið nógu fáránlegt. Ris fáránleikans er rétt að hefjast þegar þeir þurfa að fara að henda þessu á svið.

En að því sögðu er líka ofsalega mikill brilljans í þessu og bút fyrir bút er þetta mjög gott – risið er flott, flækjan er góð, lævís húmorinn jafnt sem fíflagangurinn. Hugsanlega hefði þetta bara átt að vera fyrsti þáttur af tólf.

Skemmtilegasta atriði sýningarinnar er þegar þeir eru að reyna að koma bréfi í póst til Írlands. Þar verður þessi vonleysisins súrrealismi bæði fyndnastur og táknrænastur – að maður geti ekki einu sinni komið bréfi í póst.

Ég skildi ekkert í þessum dansatriðum. Finnst algengara og algengara að fólk hendi í dansatriði bara til að hafa dansatriði. Dansinn dansins vegna.

***

Bombshell. Væntingar mínar voru algerlega í lágmarki. Ég sá bara að þetta væri mynd um hvað karlar sem stjórna Fox væru vondir – sem er vægast sagt málstaður sem ég held að margir hafi samúð með – og að hún næði samt ekki sjöu á IMDB. Í sjálfu sér gleymdi ég að reikna með því að einhverjir foxarar myndu gefa henni hauskúpur. En hvað um það. Sem klassískt hollívúddréttlætisdrama er hún bara bærilega heppnuð. Og þarf kannski ekki annað en sæmilega pródúksjón, góðan málstað og frábæran leik. Og hún hefur það allt. Charlize Theron er frábær. John Lithgow er frábær. Restin skilar sínu frá vel til mjög vel. Maður situr yfir henni og finnur til með öllum þessum konum sem hafa mátt þola Roger Ailes og Bill O’Reilly og alla hina. Eitthvað hvarflar að manni gömul (eða ekki) kynjaskipting þar sem karlar ná sínu fram með gravitas og/eða frekju en konur ná sínu fram með kynþokka og/eða siðavendni. Og hér er þá sögð sagan af því þegar konurnar hafna því að nota kynþokka sinn til að komast áfram og hafna þar með líka frekju karlanna – bylta kerfinu.

Það sem truflaði mig var kannski mest bara að það væri verið að fá mig til að empatísera með fólki sem ég held að sé upp til hópa sósíópatar. Þetta er svona repúblikanskur stórfyrirtækjafemínismi. Við fengum að sjá aðeins glytta í að Megyn Kelly hafi „óþægilegar skoðanir“ (einsog að Jesús Kristur hafi verið „hvítur“) en annars birtist hún og kynsystur hennar hjá Fox okkur meira sem einhvers konar líberal faksjón innan fyrirtækisins. Ég efast ekki um það í eina sekúndu að þetta séu útkalkúleraðar framakonur – ég veit ekki hvort þær svífast alveg jafn lítils og Bill O’Reilly en ég held ekki heldur að þær séu nein Erin Brockovich eða Greta Thunberg. Það hefði verið áhugavert að sjá líkin sem þær dröslast með í sínum eigin í farangri – en það hefði truflað bæði hetjusöguna í myndinni sjálfri og stórsöguna sem við erum að segja pólitískt í samfélaginu þessi misserin.

***

Eilífðarnón Ástu Fanneyjar. Ég hef nefnt hana hérna áður og kallað instant-klassíker og er auðvitað sjálfskipaður formaður í aðdáendaklúbbi Ástu. Ég veit samt ekkert hvaða orð ég á beinlínis að hafa um þessa ljóðlist. Ljóð Ástu eru óáþreifanleg, þannig lagað, man ekki hvort útgefandinn talar um ferð milli draums og vöku – fyrst og fremst eru þetta ferðir um tungumálið og þar vélar Ásta einfaldlega betur en aðrir, við hin erum í einhverri annarri deild. Ásta er Jónas Hallgrímsson en við erum bara einhverjir random Fjölnismenn. Það væri hægt að setjast niður og greina þetta allt saman en sennilega er besta leiðin bara að lesa þetta upphátt – leyfa sér að heyra þetta mál, hvernig það þræðist sundur og saman, leysist upp og glitrar. „við rætur / augnháranna / er rök mold / og mánanunnur“. og „ég kom ekki hingað til að tannbursta úlfa“. Og svo framvegis. Ég leik allur á iði þegar ég les þetta, einsog þegar ég les Gertrude eða Elsu von. Dúa í stólnum af gleði. Og samt er þetta ekki bara gleðibók – hún er líka sorgleg. Þessi tónn þarna er gamansamur en með þungum aukatónum. Gamansamur í moll.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png