Uncle Doghouse ásamt gestum á Bankiren í Västerås – og tvífari vikunnar!

Í gærkvöldi lék hljómsveitin Uncle Doghouse á knæpunni Bankiren í Västerås. Gestur var gítarleikarinn og söngvarinn Thomas Hultman og upphitun var í höndum ungs deltablúsleikara sem kallar sig Preachin\’ Lips. Í salnum var meðal annars hinn frægi Kjell Höglund – handhafi Cornelisverðlaunanna – það var klappað sérstaklega fyrir honum en hann var ekki þarna til að skemmta heldur til að láta skemmta sér. Gaman að segja frá því. Gestaþak var 45 manns vegna kórónaveirunnar, allir sátu við sitt borð, miðaverð var 100 SEK (1600 kall – sem er umtalsvert lægra en maður á að venjast), það var matur í boði og þjónað til borðs (ég fékk mér hamborgara, hann var ljúffengur). Hljómsveitin lék tvö sett í gær – hið fyrra var auglýst 17.00 en hið síðara 21.00. Þegar ég keypti miðana, sem ég gerði snemma vegna þess hve fáir voru í boði, var sagt að okkur væri hollast að mæta hálf-fimm til að geta pantað mat og svona. Það reyndist allt fullkominn óþarfi. Tónleikarnir byrjuðu ekki fyrren rúmlega 18.00 og þá vorum við búin að borða. Best hefði verið að mæta bara þá. 

Bankiren er áhugaverður staður. „Sunkig“ er orðið sem ég notaði til að lýsa honum fyrir Nödju (eftir að ég fór til að kaupa miðana, sem maður þurfti að gera í eigin persónu, og helst í reiðufé). Sjabbí, heitir það sennilega á góðri íslensku, en ég meina það í bestu merkingu – staðurinn er líka gamalgróinn. Þetta er í einhverjum skilningi klassísk úthverfaknæpa – svona í áttina að Catalinu í Kópavogi. En hún stendur alveg í hjarta miðbæjarins þar sem er annars ekkert að finna nema hipsterakeðjur og gleraugnaverslanir og H&M og þvíumlíkt. Mér leið strax frekar vel þar inni þegar ég kom að kaupa miðana. Þá voru fáir gestir og flóamarkaður á sviðinu en það var fullt á tónleikunum. Gestir voru sennilega flestir milli fimmtugs og sextugs, góðglatt fólk, sumir svolítið rauðnefja, áreiðanlega fáir úr efri lögum samfélagsins. Ég hugsa að eini maðurinn þarna inni sem var yngri en við Nadja hafi verið Preachin Lips. 

Hann mætti upp á svið með gítarinn í tösku – national resonator – snyrtilega greiddur, klæddur í svartar buxur, blankskó, hvíta flibbalausa skyrtu og gamaldags axlabönd. Og svo lék hann deltablús. Og gerði það ágætlega en aldrei þannig að maður yrði agndofa. Kannski truflaði það mig að það var einsog hann vildi gera þetta átentískt – fara í períóðuleikinn, cosplayið – en þá vantaði bara ýmislegt upp á. Þegar mér fannst passa að melódían nyti sín – einsog í upphafinu á Walkin\’ Blues – spilaði hann sloppí; og þegar mér fannst að sloppí væri fínt og bítið mæti njóta sín, einsog í Pony Blues, var hann of mikið að eltast við óþarfa krúsídúllur. Hugsanlega hefði hann líka mátt hafa míkrafón við fótinn á sér – maður þarf eiginlega að heyra stappið. En ég vil ekki vera of neikvæður – þetta var mjög skemmtilegt og sannarlega ekki á hverjum degi sem maður fær að heyra deltablús leikinn live. 

Svo komu Uncle Doghouse. Þeir byrjuðu á að taka eitt sett með gítarleikaranum og söngvaranum Thomas Hultman, sem virðist vera af Stevie Ray skólanum – spilar blús með sándi sem sker í gegnum allt (sennilega eitthvað svona tube screamer með miðtíðnina í botni dæmi) og syngur alltaf neðan úr þindinni. Þeir léku fimm lög saman – byrjuðu á Sweet Home Chicago í Chicago-blús útsetningu en með gamla textanum hans Roberts Johnson („to the land of California“) og sungu auðvitað um Västerås frekar en Chicago. Svo Riding With The King eftir John Hiatt í útgáfu BB King og Eric Clapton, man ekki næsta (var það Why I Sing the Blues?), svo Talk to Your Daughter eftir JB Lenoir í Robben Ford útsetningunni og loks Can\’t Get Enough eftir Bad Company. 

Þá var stutt pása áður en Uncle Doghouse tók til við sitt eigið sett – sem var sennilega 50/50 þeirra eigin lög og annarra. Hljómsveitin samanstendur af söngvaranum Zoltan Todor, gítarleikaranum Conny Klintberg, trommuleikaranum Ragge Johannesen, nýjum bassaleikara sem ég náði ekki hvað hét og orgel- píanó- og munnhörpuleikaranum Håkan Falknäs. Þétt band og vel æft og greinilega mikil vinátta í hópnum – þetta er alveg áreiðanlega gert vegna þess að þetta er gaman. Það vantaði svolítið upp á sándið úti í sal – sérstaklega var óþarflega lágt í gítarnum. Það er landlægur sjúkdómur hjá gítarleikurum að yfirgnæfa annað hvort allt eða passa sig svo rækilega á að vera ekki gaurinn sem yfirgnæfir allt að þeir þora ekki að hækka almennilega í sér. Sem er eiginlega verra í tónlist sem er fyrst og fremst gítardrifin. Þá var meira gaman að heyra í honum leika þegar hann skipti um gítar – lagði frá sér stratocasterinn og tók upp einhvern eins humbucker ZZ Top gítar sem mér sýnist af heimasíðu bandsins að sé sérsmíðaður (allavega bara merktur „Klintberg“). Það var einsog hann fyndi sig betur með hann. Söngvarinn er af Commitments skólanum og fínn sem slíkur – alltaf með slappan handlegginn upp að síðunni à la Joe Cocker. Mikil tilfinning. Sennilega hreifst ég samt mest af bassaleiknum – það var mikið swing í honum – og orgelleiknum hjá Håkan. 

Hljómsveitin er frá Västerås og það voru áreiðanlega margir í salnum sem þekktu frumsömdu lögin þeirra en ég var bara búinn að renna plötunum þeirra einu sinni og dró Nödju með mér á þeirri forsendu að sennilega væri þetta betra live. Ekki að lögin séu léleg en þau eru heldur ekkert spes. Og þegar hálft settið manns er síðan grjótharðir klassíkerar er erfitt að ætlast til þess að manns eigin lög séu mjög eftirminnileg. Áherslan – bæði í frumsömdu og ábreiðum – var á hvítt, seventís blúsrokk. Eftirminnilegast var Thunderbird eftir ZZ Top, sem bassaleikarinn söng, (ég meina það ekki söngvaranum til hnjóðs – lagið er bara svo gott) en þarna voru líka Hush eftir Deep Purple og Rock n\’ Roll Hoochie Koo með Johnny Winter og álíka titlar. 

Það hafa verið talsverðar mannabreytingar í bandinu og í þessu myndbandi er nýi söngvarinn kominn, en gamli gítarleikarinn – Ecke, sem mun hafa samið megnið af lögunum – enn í bandinu, sem og gamli bassaleikarinn. 

Ég sagði frá því síðast að sennilega yrði „þrífari vikunnar“ ekki fastur liður á blogginu. Hér eru hins vegar tvífarar vikunnar – Håkan Falknäs og Palli Hauks, sem stýrir Blúshátíðinni á Patreksfirði (og er vinur minn úr Tottenhamklúbbnum). Ætli stefni þá ekki í einfara vikunnar í næstu viku. Hehe. 

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png