Umhverfisráðherrann (chairman of the bored)


Mánudagur, sjöundi mars, tvöþúsundtuttuguogtvö.


Á Jules-Verne-málþinginu í Nantes var því meðal annars velt upp hvort það þætti enn tilkomumikið að fara í umhverfis jörðina á 80 dögum. Sem það þótti vitaskuld ekki. Einhver stakk upp á því að kannski væri tilkomumeira – eða æskilegra, í ljósi nútímalegra lifnaðarhátta, óslökkvandi upplifunarþorstans – að fara umhverfis jörðina á 80 árum og skoða allt gaumgæfilega. Að mér hvarflaði þá hvort tilkomumest væri kannski að vera bara mjög intensíft heima hjá sér í 80 ár. Fara ekkert en gaumgæfa allt innan mjög lítils radíuss af mikilli nákvæmni. Upplifa nærrými sitt ástríðufullt.


Ég hugsaði líka talsvert um þetta á heimferðinni. Auðvitað kæmist maður auðveldlega umhverfis jörðina á 80 dögum ef það væri það eina sem vekti fyrir manni og peningar væru engin fyrirstaða. En hvar gæti maður lent og hvar ekki – maður lendir ekki í Úkraínu þessa dagana eða flýgur einu sinni yfir landið. Síðustu tvö árin hefur heldur ekki verið sjálfsagt að maður fari frá borði, jafnvel í löndum sem tilheyra sama sambandsríkinu, og annars staðar hefur það auðvitað ekki verið sjálfsagt frá því við fórum að nota blessuð vegabréfin til að hamla heimsförum reisur sínar. Ég hefði ekki komist óbólusettur til Nantes.


Þá eru ótaldar viðjar veðurfars – ég þurfti að keyra suður á mánudegi til þess að vera viss um að komast í Parísarflug á fimmtudagsmorgni (og hefði ekki komist ef ég hefði ekki gert það). Og þótt lítið mál sé að stökkva á milli helstu alþjóðaflugvalla heims þá þýðir það ekki að jafn greiðfært sé milli allra ólíkra útnára. Veröldin er ekki endilega neitt miklu minni þótt það séu góðir tengipunktar hér og þar. Það segir sína sögu að maður er alla jafna talsvert lengur á leiðinni frá Seyðisfirði til Tórshavnar, eða Ísafirði til Nuuk, en maður er frá Stokkhólmi til Barcelona. Ég flaug til Tromsø fyrir ekki svo löngu síðan og mig minnir að það hafi kostað mig tvo heila daga og fjögur flug (Ísafjörður-Reykjavík; Keflavík-Osló; Osló-Þrándheimur; Þrándheimur-Tromsø).


Loks verður að nefna líka að ferðalög eru orðin alveg hryllilega leiðinleg. Og þar er við ekkert að sakast nema átákanlegan vilja mannsins til þess að gera allt sem ætti að vera skemmtilegt og spennandi fullkomlega óbærilega leiðinlegt.


Í stað þess að standa í stafni gufuskips andaktugur yfir sístækkandi sjóndeildarhring, eða sitja yfir ostrum og kampavíni (og morðgátum) í Síberíuhraðlestinni, mætir maður þremur tímum fyrir brottför í yfirfulla flugstöð til að standa í löngum biðröðum, grímuklæddur með vegabréfið og bólusetningarvottorðin sín og útfyllt EPF og erindisbréf og farmiða í síma sem má þar með alls ekki verða batteríislaus, tekur af sér skó og belti og yfirhafnir og hatt, tæmir vasa og setur fartölvuna í sérstakan kassa og úrið og símann og leyfir flugvallarstarfsmönnum að henda 110 ml svitalyktareyðinum í ruslið svo maður sprengi ekki flugvélina í loft upp með honum. Lætur svo kalla sig upp þegar í ljós kemur að vegabréfið varð eftir í einum plastkassanum. Ráfar um í auglýsingahelvíti sálarlausrar fríhafnar, alltaf sveittur og illa lyktandi þótt maður hafi byrjað daginn á sturtu og nýjum fötum, leitar sér að vondum hamborgara og bjórglasi til að setja á Insta og starir ósofinn (af því flugið er alltaf klukkan 6 að morgni) á fjöll af áfengisbirgðum og nammi og veltir því fyrir sér hvort maður þurfi ekki að gefa einhverjum eitthvað eða hvort það sé kominn tími til að endurnýja einhvern lífsnauðsynlegan tækjabúnað og þrammar síðan í 25 mínútur eftir flugstöðvargöngum á sjálfvirkum göngubrautum til að komast að F-hliðunum, sem eru í öðru póstnúmeri. Svo er maður reyrður niður í alltof lítið sæti við hliðina á einhverjum sem virðist vera í enn þrengra sæti, en annars umkringdur ungbörnum á tanntökuskeiði, til þess að átta sig síðan á því að maður er ekki með heyrnartól með eðlilegri snúru og getur því ekki loksins látið af því verða að horfa á Kallakaffi í sætisbakinu. Í staðinn drekkur maður súrt kaffi og gerir síendurteknar en alltaf jafn aumkunarverðar tilraunir til þess að sofna, því þótt svona ferðalög séu í sjálfu sér ævintýraleg þá eru þau fyrst og fremst ævintýralega leiðinleg.


Þegar maður lendir má maður svo heita góður að fá töskuna sína aftur (ég beið við bandið í tvo tíma á heimleiðinni) – og allt sem gleymist í vélinni er víst jafn örugglega týnt og tröllum gefið og hefði því verið hent frá borði yfir miðju Atlantshafinu.


Þá hvarflar að manni að kannski sé þröskuldur 80 daga ferðalags alls ekki tæknilegs eðlis heldur spurning um líkamlegt og andlegt atgervi. Ég er svo tæpur að ég myndi sennilega skjóta mig á þriðja degi (eða ryðjast æpandi í gegnum öryggisskoðunina og láta tollheimtumennina með hríðskotabyssurnar skjóta mig).


Það gæti kannski verið skemmtilegt plott í bók, þótt ég efist um það.

30 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png