Um yfirvegaðan ofsa („ritdómur“)
Um skamma hríð fyrir 20 árum síðan hafði ég aukatekjur af því að ritdæma ljóðabækur fyrir Morgunblaðið. Hugsanlega er það í eina skiptið á ævinni sem ég hef fengið borgað fyrir þannig vinnu – fyrir TMM skrifaði ég um 2-3 skáldsögur nokkrum árum seinna en annars hefur öll rýni sem ég hef skrifað verið í sjálfboðavinnu, mest fyrir Starafugl og Tíu þúsund tregawött (er hægt að vera í sjálfboðavinnu fyrir sjálfan sig?).
Nei, heyrðu, nú gleymi ég líka Spássíunni – það var launað, 2010, þegar ég bjó í Oulu, rassgatsblankur alla daga. Nema hvað. Þá er það áreiðanlega upptalið.
Ég var næturvörður á Hótel Ísafirði á þeim tíma sem ég skrifaði fyrir Moggann og bjó í voðalegri kjallarakytru þar sem gólfin voru veggfóðruð (gólffóðruð?) með Andrésar Andarblöðum og partíin entust gjarna langt fram á næsta dag. Þegar ég drattaðist á fætur biðu mín stundum ljóðabækur í brúnu umslagi á gólfinu við bréfalúguna sem ég las með morgunverðinum, sem var gjarnan kvöldverður, áður en ég mætti á vakt þar sem ég gætti túrista (sem á þessum tíma voru oft bara einn og einn vörubílstjóri – virkar veturnætur voru oft ekki nema þrír-fjórir á öllu hótelinu, af og til enginn), vann í fyrstu skáldsögunni minni og skrifaði eitthvað um þessar ljóðabækur úr brúnu umslögunum. Ég fékk vel að merkja engar viðvaranir eða valmöguleika frá mogganum og átti í ótrúlega litlum samskiptum við ritstjórn – það birtust bara einhverjar bækur og ég sendi inn tölvupóst með wordskjali sem var ábyggilega aldrei svarað. Ef einhver hefði tekið upp á því að senda mér bók í umslagi með Morgunblaðsstimpli hefði ég sennilega sent menningarritstjóranum dóm um þá bók nokkrum dögum síðar. En það hefði enginn gert – það var alveg óþarfi að beita einhverjum brögðum til þess að fá ritdóm árið 2004, þá fengu jafnvel sjálfsútgefnar ljóðabækur umfjöllun, mogginn einfaldlega koveraði allt sem kom út.
Ég man ekkert hvers vegna ég hætti eða hvort ég var rekinn eða hvað. Og ég ætlaði heldur aldrei að hafa svona langan formála að því sem ég er að fara að segja – allt hér að ofan hefði ég þurft að strika út úr mogganum, mig minnir að plássið hafi verið 400 orð, en ég er hrifinn af útúrdúrum. Meðal þeirra bóka sem ég skrifaði um á þessum tíma var sem sagt Þegar Árni opnaði búrið eftir mann sem heitir Þórhallur Barðason og er að mér skilst söngvari/söngstjóri/söngkennari að aðalstarfi – en um það hafði ég ekki hugmynd fyrren bara á dögunum, fyrir mér var Þórhallur bara nafn á bók sem barst í póstinum, það hefði ekkert haft upp á sig að gúgla hann árið 2004, þá var fólk annað hvort frægt eða ófrægt en í dag eru allir sitt lítið af hvoru – ef ég svo mikið sem fæ tölvupóst frá nafni sem ég kannast ekki við slæ ég þeim upp til þess að geta þó horft í augun á þeim á skjánum. Það er ljótur óvani sem ég vissi varla að ég hefði fyrren ég segi það nú. Nú er ég búinn að líta inn á heimasíðuna hans (og reyndar er líka höfundarmynd á bókinni).
Ég var bara frekar ánægður með Þegar Árni opnaði búrið. Ætli það hefðu ekki farið þrjár stjörnur á hana, ef þá hefðu verið gefnar stjörnur – fjórar í dag, af því það er verðbólga? Hnotskurnin hefði verið eitthvað á þá leið að þótt þetta væri kannski ekki frumleg bók væri hún tilgerðarlítil og skemmtilega skrítin á köflum.
Svo líða 20 ár og ég er löngu hættur að vinna fyrir moggann en er auðvitað orðinn áhrifavaldur – búinn að halda úti bloggi í einmitt 20 ár, birti þar reglulega myndir af sjálfum mér (og hattinum mínum) í alls konar stellingum og ræð fólki heilt í lífsins skini og skúrum. Og þá tekur Þórhallur Barðason upp á því að gefa út aðra ljóðabók, Um yfirvegaðan ofsa. Nema nú er enginn moggi – a.m.k. ekki sá moggi sem var – og varla einu sinni hægt að segja að neinar heimasíður eða blogg sinni ljóðlistinni. Ætli maður sé ekki líklegastur til að fá dóm fyrir sína ljóðabók í Kiljunni – sem koverar kannski 5% af útgefnum ljóðabókum, í langlangmestalagi (þessi tala er gisk út í bláinn, vel að merkja, þótt henni fylgi virðulegt og vísindalegt prósentumerki). Og Þórhallur, sem sér að mogginn er horfinn en ritdómarinn enn á lífi – kann að gúgla fólki – skrifar bara ritdómaranum og spyr hvort hann hafi áhuga á að lesa bókina, hvort hann geti fengið umfjöllun – það þurfi ekki að vera mikið.
Nú er þetta auðvitað þegar orðið mjög mikið, einsog hver læs maður getur borið vitni um, og enn er ég ekki byrjaður að segja neitt um bókina – og ætla í sjálfu sér ekki að segja mjög margt um hana heldur, nema að koma því að að líkt og fyrri bókin er hún ágæt, dálítið köflótt, dálítið ólík mörgu öðru sem ég les um þessar mundir og þar með hressandi og alveg óhætt að mæla með því að fólk kíki í hana. Það sló mig við lesturinn að hún væri í einhverjum brag sem hefði verið algengur 2004 en væri svo gott sem útdauður – ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þann brag, hann er kæruleysislegur, persónulegur, stundum dálítið pabbabrandaralegur, það er ekki legið yfir hverju orði einsog í því búi kjarnorka sem þurfi að leysa úr læðingi, en í því býr líka sjarminn. En svo þegar ég las aftur dóminn sem ég skrifaði á sínum tíma um Þegar Árni opnaði búrið – sem er í sama brag – virðist mér ekki endilega hafa fundist hún týpísk fyrir sinn tíma þá heldur. Kannski er þetta aðeins eldra en 2004 – kannski var ég að hugsa um Nykur, fyrstu bækur Andra Snæs? Þá fannst mér aldamótin auðvitað víðs fjarri – en 2004 var nú eiginlega bara í gær.
Ég lýk þessari stuttu umfjöllun – og langa sjálfsævisögulega ranti – með tveimur dæmum úr bókinni (af því það stendur á titilsíðu að það megi vitna frjálslega í hana), fyrst ljóði sem mér finnst dæmigerð fyrir bókina – að frátöldum stíl í lengri ljóðum sem birtist undir lok hennar, sem ég var sennilega minnst hrifinn af – og svo því ljóði sem mér þótti áberandi best.
ÁST
Ást er gallaðasta smáforritið
í snjalltækinu manneskja
Óteljandi villumeldingar
fall fyrir kolröngu fólki
Endurræsing vonlaus
sitjum uppi
frosin
VERKFÆRAKISTA KÆRLEIKANS
Treð hismi í höfnunarleka
og tonnateknar gúmmíbætur yfir
jafna milli hólfa með hjólbörum
gangræð með skrúfjárni
lem lunningar opnar
festi upp á gátt með stórum nöglum
sauma fast við innanveggi og ósæð með sláturnál
skorða eftir áföll með slaghamri
verkfærakista kærleikans
hlý biturð
***
PS. Í dag hlustaði ég á feiknagott viðtal Magnusar William-Olsson við sænska útgefandann Gunnar Nirstedt, sem var nýlega valinn ljóðaforleggjari ársins í Svíþjóð fyrir sitt feykimikla framlag – hann hefur verið í útgáfu í um þrjá áratugi, þar af 24 ár hjá Bonniers, þar sem hann hætti með látum 2018 og gagnrýndi um leið þá stefnu sem hefði orðið ríkjandi hjá Bonniers og víðar að láta misgóðar metsölubækur bera uppi fjárhag forlaganna (og éta upp athygli starfsmanna, með þeim afleiðingum að 95% af katalógnum mætir afgangi), frekar en að gefa einfaldlega út góðar bækur fyrir heiminn og treysta á long-tail módel, að gefa út bækur sem halda áfram að seljast, sem er ætlað að endast og leggja kraftinn í það. Í kjölfar þess stofnaði hann sem sagt Nirstedt/litteratur sem gefur út bæði nýja höfunda og klassík, ljóð og prósa og fræði – Thomas Piketty, UKON, Cecile Pin, Benjamin Labatut, Jenny Tunedal, Mariu Stepanova og nýjar þýðingar Tovu Gerge á sonnettum Shakespeare og fleira og fleira. Sem sagt alls konar, mikið og allt geggjað. Í þessu viðtali fara þeir Magnus víða og kemur meðal annars fram að lestur á ljóðabókarýni er orðinn hærri hjá litlum menningarmiðlum einsog Örnen och kråkan en hjá Dagens Nyheter (þar sem birtist einmitt mjög lítið af ljóðabókarýni og sífellt minna af bókmenntakrítík almennt) og þar sem aurapúkarnir kvarta hástöfum yfir því að það lesi enginn – „það vill þetta enginn!“-söngurinn sem heyrist gjarnan hér líka – sem Gunnar með sína 30 ára reynslu fullyrti að væri bara þeim sjálfum að kenna, þetta hefði ekki alltaf verið svona, þeir hefðu vanrækt hana og þess vegna sneri sér enginn til þeirra lengur nema til að fá einhverja heilalausa klikkbeitu (mitt orðaval, hann sagði eitthvað kurteislegra).
Comments