Tvö: Átta handrit eða fimm

Þrjátíu þúsund orð er í það stysta fyrir skáldsögu. Einhvers staðar minnir mig að ég hafi lesið að skilin á milli skáldsögu og nóvellu væru við fimmtíu þúsund orða markið. Þá er Heimska sirka hálf skáldsaga. Og reyndar mjög margar svonefndar skáldsögur undir mörkunum. En svo er það ekki lengdin heldur breiddin sem skilgreinir skáldsöguna; það er víddin og grynningarnar, hvernig gripið er í flotholtið á rúmsjó, hvernig staðið er yfir pæinu í ofninum, hvernig marhnúturinn er blóðgaður á bryggjunni, í hvaða höfuðátt mjaðmirnar draga mann á dansgólfinu – og svo framvegis. Þetta þekkir allt lesandi fólk.

Ætli þetta séu 150 blaðsíður? 200? Því ræður umbrotsmaðurinn. Í öllu falli hef ég skrifað þær átta sinnum, eða svona, með ýkjum hef ég skrifað þær átta sinnum – kannski hef ég bara skrifað þær fimm sinnum – það fer allt eftir því hvernig maður telur og við hvað maður miðar. Ég hef aldrei klárað handritið áður, aldrei rakið mig til enda – nema ég telji með eitt hliðarspor, reyfara sem ég skrifaði út frá einhverjum skyldum þemum og ég ætti eiginlega að eyða áður en ég hrekk óvart upp af og einhver gefur hann út; og raunar eru að minnsta kosti þrjú handrit af þessum átta hliðarspor sem gerast ekki í framtíðinni og mörkuðu að mismiklu leyti grunninn að bókinni sem nú er Heimska. Ég hélt ekki að þetta myndi nokkurn tíma hafast – varla nema tvær vikur frá því ég hótaði því síðast að gefast upp, í einhverju dramakasti, þessi helvítis bókartuðra mætti fara til andskotans mín vegna.

Síðasta handritið skrifaði ég allt, frá byrjun til enda, í Hoi An í Víetnam, á nærbuxunum uppi í rúmi með loftkælinguna á fullu, lemjandi af mér moskítóflugur einsog Laxness á Taormínu, Duras í Saigon eða Marlon Brando í Kambódíu.

Ég er hérna enn, á Le Hong Phong númer 32, það hitnar bara og hitnar – og nú er ég sáttur, glaður, reyfur, réttlátur í samfélagi manna, geng gleiðum greiðum sporum og tek að ofan kúluhattinn þegar ég mæti nágrönnum mínum, mæti rakaranum handan götunnar, bókaranum vinstra megin eða áburðarsalanum hægra megin, tek að ofan þegar ég mæti Ho Chi Minh skiltunum og hef eftir spakmælin sem eru höfð eftir honum og rituð á skiltin án þess að vita hvað þau þýða – en það styttist líka í að ég snúi aftur til norðurlanda – þótt fósturjörðin verði væntanlega lítt* snert fyrren í haust – og þá verður aftur kalt þar til það hlýnar, og svo kólnar aftur og þá kemur bókin út.

* Það er hugsanlegt ég komi við í RVK til að taka upp hljóðbókina nú í vor. Tek á móti bókunum í kaffi í athugasemdum.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png