Tómur bílskúr
Tvennt hef ég ætlað að nefna hérna. Annars vegar að Tom Waits tónleikarnir í Edinborgarhúsinu tókust vonum framar og jafnvel rúmlega það. Húsið var stappfullt, stemningin einsog í draumi og grúvið í hljómsveitinni himneskt. Hins vegar að ég gladdist mikið að sjá Birgittu Björg tilnefnda til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Moldin heit – það þótti mér verðskuldað.
***
Vinur minn er að skrifa ritgerð og spurði mig á dögunum hvernig á því stæði að svo margir Íslendingar lékju tónlist, væru í kór eða spiluðu á hljóðfæri, ýmist í hljómsveit eða bara heima hjá sér. Ég hef svo sem litla innsýn inn í Ísland allt en ég hef oft velt þessu fyrir mér með Ísafjörð – því ég þykist vita að hér spili a.m.k. talsvert fleiri tónlist en þar sem ég hef búið erlendis. Ég held að tónlistarskólinn leiki þar stóra rullu og sú staðreynd að þar hefur nám jafnan verið á viðráðanlegu verði svo að tónlistarnám er ekki jafn elitískt og það er víða erlendis, í gegnum tíðina hafa flestir geta ráðið við að senda börnin sín. Þá er líka hægt að vera í tónlistarnámi án þess að það heltaki allt manns líf; ég þekki fullorðinn Svía sem spilar ekki á píanó í dag þrátt fyrir 12 ára nám vegna þess að námið var bara svo stíft, árangurs var krafist umfram spilagleði, og þótt hún geti leikið klassíkina fram og aftur gefur það henni ekkert nema upprifjun slæmra minninga. Nú held ég vissulega að maður geti komist í elitískt nám í TÍ – a.m.k. á sum hljóðfæri – en valkosturinn að vilja bara læra svolitla músík, eiga dálitla músík í lífi sínu, að njóta tónlistar sem gerandi, er held ég hornsteinn starfsins.
Tónlistarstarfið í bænum er líka eiginlega jafn gamalt og bærinn sjálfur – hér hefur verið ríkulegt tónlistarstarf síðan hér fór að vera fleira fólk en bara danski kaupmaðurinn og presturinn.
En auðvitað kemur líka fleira til en skólinn. Kórarnir tilheyra ekki allir skólanum og það eru hljómsveitir og það eru settir upp söngleikir bæði hjá MÍ og LL og Leiklistarhópi Halldóru. Þá er Tónlistarfélag sem heldur reglulega tónleika, Edinborg býður upp á heimsklassa djass 5-6 sinnum á ári, það er live tónlist á börum og tónlistarhátíðir – Við Djúpið og Aldrei fór ég suður. Já og svo er annar skóli þar sem er líka kennt á píanó og var lengi kennt á gítar – Listaskóli Rögnvaldar (þar með held ég að Ísafjörður hljóti raunar að eiga höfðatölumet í fjölda tónlistarskóla).
Og fyrst og fremst er ríkulegt tónlistarlíf eitthvað sem verður til í symbíósu, í grósku og þetta nærist allt hvert á öðru einsog ólík stig í sama lífkerfinu. Einn strákur byrjar að læra á gítar í einhverri dellu eftir Aldrei fór ég suður, eignast hljóðfæri, hættir svo, systir hans tekur hljóðfærið upp þremur árum seinna og kennir sjálfri sér í nokkur ár, stofnar svo hljómsveit með vini sínum sem kann ekkert og skráir sig á bassa í tónlistarskóla til að ná hraðari framförum, til þeirra kemur strákur sem hefur verið að læra á píanó í 100 ár, unnið keppnir og gert það gott, og hann þekkir stelpu sem var dregin nauðug í barnakór af því foreldrar hennar eru kórafólk, og getur því sungið, hún á frænda sem getur lánað þeim magnara, til þeirra kemur strákur sem langar að vera trommari en á ekki trommusett og kann ekki að tromma en hefur aðgang að því sem mestu skiptir: bílskúr – svo finnst trommusettið í geymslu hjá einhverjum (af því það er svo mikið af fólki alls staðar sem hefur lært á hljóðfæri, verið í hljómsveit, því fylgir krítískur massi af hljóðfærum), og svo haltra þau af stað, nokkrum árum seinna spilar hljómsveitin á Aldrei og hringurinn byrjar upp á nýtt. Tónlistarskólinn fær fleiri nema, það myndast fleiri hljómsveitir, fleiri byrja í kór, fleiri taka þátt í söngleikjum, fleiri byrja að semja lög, fleiri gera tónlistina að lífi sínu, verða atvinnutónlistarmenn og tónlistarkennarar sem kenna næstu kynslóð af fólki sem fær stjörnur í augun á Aldrei.
Einsog önnur lífkerfi getur þessi gróska verið viðkvæm. Bregðist einn eða fleiri hlekkir dregur hratt úr henni og á einhverjum tímapunkti snýst slagurinn ekki lengur um að viðhalda gróskunni, að rækta garðinn sinn, heldur að berjast við visnun. Þannig er t.d. leiðinlegt að Aldrei hefur verið hálf lokuð fyrir heimamönnum frá því atriðum var fækkað fyrir nokkrum árum, menntaskólinn er eiginlega alveg hættur að halda tónleika (og menntstock hefur ekki verið haldið í 20 ár) – mér sagt það sé aldrei spiluð live tónlist á grunnskólaviðburðum og þannig er eiginlega enginn vettvangur fyrir unglingahljómsveitir að spila (það var þó ein sem spilaði á markaðsdeginum í Bolungarvík í fyrra og ein mun spila við tendrun jólatrésins á Silfurtorgi á morgun).
En það er alveg áreiðanlega enginn hlekkur í þessari keðju jafn mikilvægur og tónlistarskólinn, og tónlistarskólinn er í verkfalli vegna þess að kennararnir lifa við óþolandi kjör. Það hefur verið sagt að tónlistarskólaverkfall komi ekki við marga – að það hafi ekki nægan slagkraft – og það má að einu leyti til sanns vegar færa: tónlistarskólar eru ekki sams konar „geymslustaðir“ og þeir skólar þar sem nemendur eyða meiri tíma. Börn lenda ekki í langtíma reiðuleysi ef þeir loka – foreldrar lenda ekki í vandræðum með að koma börnunum fyrir, þurfa ekki að taka sér frí frá vinnu til að sinna þeim sem komast ekki í 2x30 mín gítartíma á viku. Skipulag hagkerfisins raskast ekki.
En að öðru leyti getur slagkrafturinn til lengri tíma orðið mjög mikill – á meðan það er ekki kennt visnar það ríkulega tónlistarlíf sem við njótum. Við þurfum sennilega að glenna aðeins upp augun og gaumgæfa þróunina – sjá nokkra leiki fram í tímann – til að skilja margföldunaráhrifin af tónlistarnámi barna – að tónlistin sem við njótum í lífi okkar sprettur ekki upp úr engu.
Dag einn stendur maður upp og áttar sig á því að tónlistin hefur hljóðnað. Symbíósan er hætt. Alltíeinu er enginn til að kenna byrjandanum á bassa, elítupíanóleikarinn er fluttur til að fá kennslu annars staðar, fyrir rest er enginn stuðningur, enginn gítar bakvið sófa, ekkert trommusett í bílskúrnum hjá frænda, engir kórar, engir tónleikar, engir söngleikir, engir magnarar, ekkert nema tómur bílskúr og leiðindin ein. Og það þarf raunar engin verkföll til. Léleg kjör valda sama skaða – á Ísafirði hefur ekki verið barnakór eða söngkennsla síðan í vor út af kennaraskorti. Barnakórinn var í sérstökum blóma, nýkominn heim af kóramóti í Danmörku – hópeflið og kærleikurinn alveg í botni. Það er ekki gefið að sá skriðþungi verði til staðar þegar og ef starf hans hefst að nýju. Og það er ekki heldur gefið að nemendur snúi allir aftur blússandi mótiveraðir úr löngu verkfalli – það verður áreiðanlega brött brekka fyrir marga að koma sér aftur í gírinn. En það er ekki nóg að „leysa verkfallið“ – þessu tiltekna verkfalli lýkur reyndar 20. desember, hvort sem semst eða ekki – heldur þarf að tryggja tónlistarkennurum (og öðrum kennurum) almennileg kjör. Ef kennarar koma út úr þessu með einhverja „meh“-lausn, allir þjakaðir og slitnir, tekur þetta sig bara upp aftur þegar búið er að safna nýjum verkfallssjóðum. Og svo aftur og aftur og aftur meðan námi í landinu hnignar og tónlistin hljóðnar.
Recent Posts
See AllÞað er búið að úthluta listamannalaunum fyrir næsta ár og þess vegna eru allir listamenn landsins hættir að tala um stjórnarmyndun og...
Ég fer alveg að skilja við ljóðabókina mína. Ég er enn að íhuga titilinn – eiginlega er ég búinn að henda gamla titlinum, Síreglulegri...
Tvisvar nýlega hef ég séð bók gagnrýnda með þeim orðum að þetta sé tilvalin bók fyrir fólk sem les lítið, les ekki nóg, finnst bækur...
Comments