Tími konunnar: sokkabönd full af snákum

Blúskonurnar áttu sviðið fyrstu ár hljómpötublússins. Crazy Blues Mamie Smith seldist í 75 þúsund eintökum á augabragði og tónlistarbransinn hafði þá, einsog æ síðan, sterka tilhneigingu til þess að vilja endurtaka frekar en endurskapa það sem áður hafði gengið vel, og fyrirtækin tóku strax kemba samfélög svartra eftir góðum söngkonum – og fundu meðal annars snillinga einsog Bessie Smith, Lucille Bogan, Ma Rainey, Clara Smith og Victoriu Spivey (Smith, Smith og Smith voru ekkert skyldar nema andlega).

Það væri synd að segja að bara undirtónarnir í þessari tónlist hafi verið dónalegir  – það var mikið sungið um svarta snáka og þurfti ekki menntaðan túlk eða dýrafræðing til að segja hvaða skepnur voru þar á ferð. Í þessu dásamlega lagi Victoriu Spivey er fjallað um hinn litla „garter snake“ – sem ku helst þekktur fyrir meinleysi sitt – en garter er auðvitað líka heitið á sokkaböndum kvenna. Og það var klassískt að flétta svolítið diss inn í kynferðisleg tilboðin.

Með Victoriu leikur vinur hennar Lonnie Johnson, sem varð eiginlega alveg óvart blúsgítarleikari eftir að hafa unnið blúskeppni – en var í sjálfu sér djassari í grunninn og mikill frumkvöðull í gítarleik almennt. Hann var hins vegar, sem djassari, talsvert fágaðri blúsmaður en deltablúsararnir sem við þekkjum seinna – Robert Johnson, Son House, Skip James og kompaní, sem voru lítt þekktir á þessum tíma en öðluðust viðurkenningu síðar. Og það má alveg til sanns vegar færa að þeir séu áhugaverðari blúsarar en Lonnie – sem var melódískari og fagmannlegri. Fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að fella allt í Bítlarnir/Rolling Stones tvíhyggjuna, sem er stundum gagnlegt, mætti segja að Lonnie hafi verið Bítill en Robert, Son og Skip verið Stónsarar.

Sjálfum finnst mér Lonnie skemmtilegastur þegar hann er að spila með aðeins „skítugri“ tónlistarmönnum, einsog t.d. Victoriu Spivey – sem er vaudevillari af guðs náð.


Blúsinn er karnal – hann er graður – og hann er ofbeldisfullur. Einn ofsalega stór og að mörgu leyti óþægilegur þráður í honum eru öll lögin um hefndir svikinna elskhuga, og hótanir um hefndir, ekki síst vegna þess að eftir því sem á líður verður blúsinn meira og meira karllægur – þessar fyrstu færslur mínar eru kannski að mestu um konur en það á sannarlega eftir að breytast.

Ég ætla aðeins að taka betur fyrir hokum-tónlistina næsta laugardag. En áður en ég segi þetta gott í dag langar mig að „spila fyrir ykkur“ eitt lag í viðbót. Þegar líða tók á þriðja áratuginn fóru að birtast fleiri sólókarlar – svona klassískir deltablúsarar, einn karl með einn gítar – en þeir slógu í raun ekki í gegn fyrren eftir kreppu, 1929, og áttu sviðið fram undir 1935 þegar sveitirnar tóku aftur að stækka. Konurnar voru flestar hluti af einhvers konar vaudeville-sjói og voru oft með stóra hljómsveit með sér og mikinn glamúr, einsog ég nefndi í síðustu færslu – þetta var dýr rekstur og hann stóð undir sér á „the roaring twenties“, og var viðeigandi. Þegar kreppan reið síðan yfir féll plötusala í Bandaríkjunum um 80% og plötusala svartra enn meira en það. Blústónlistarmaður sem gat vænst þess að selja auðveldlega 10-20 þúsund plötur árið 1927 gat árið 1932 vænst þess að framleiddar yrðu nokkur hundruð plötur og fæstar þeirra myndu seljast. Þetta hafði tvær afar ólíkar afleiðingar.

1) Útgáfan dró saman seglin og í stað þess að taka upp stórar sveitir var lögð áhersla á ódýrari framleiðslu. Tónlistarmenn sem gátu séð um bæði söng og undirleik eignuðust sviðið. Það var jafnvel hægt að taka þá upp í litlu ferðastúdíó. Þeir sem ekki gátu sungið eða þurftu undirleikara eða að komast í stærra stúdíó af einhverjum orsökum áttu erfiðara uppdráttar.

2) Þegar hvítu blúsnördin byrjuðu að nördast í blúsnum á fimmta og sjötta áratugnum voru þessar deltablússmáskífur fágætustu plöturnar, af því upplagið var svo lítið. Það mátti finna gamla Bessie Smith plötu í hverju einasta svarta dánarbúi árið 1950 – en það var ofsalegur gimsteinn að finna plötu með Skip James. Og virðið var auðvitað metið að hluta í samræmi við það – bæði félagslega og fjárhagslega.

Þegar kreppan kom var þessi vaudeville-blús líka skyndilega jafn smekklegur og eitthvað eitís-glitz í miðju grunge-fári. Einsog Samantha Fox í Soundgarden-partíi. Og þá þurfti – ekki bara efnahagslega, heldur ekki síður fagurfræðilega – að leita í eitthvað einfaldara, eitthvað moldugra.

Einn allra síðasti hittari kvenblúsarana var Nobody Knows You When You\’re Down and Out með Bessie Smith. Lagið var ekki nýtt og alls ekki samið um kreppuna – Jimmy Cox samdi það árið 1923 og það vísar í efnahagslægðina eftir fyrri heimsstyrjöldina. Bessie hafði sungið það í einhvern tíma áður en hún tók það upp vorið 1929. Mér hefur alltaf þótt það táknrænt að þetta sé svanasöngur þessa glæsilega tímabils – því skyndilega breyttist veröldin, efnahagurinn súrnaði, og þá vildi enginn kannast við glamúrsveitirnar lengur. Lagið er svo auðvitað einn allra stærsti klassíker blússögunnar og hjartaskerandi flutningur Bessie kallar alltaf fram í mér tárin.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png