Tímakistan, Girl, Óli Pétur – Undir áhrifum, Héraðið, Fugl/Blupl og matur í Flatey

Bókaklúbbur barnanna kláraði Tímakistuna fyrir helgi. Ég valdi og var alveg ógurlega ánægður með hana. Ég var einhvern veginn búinn að heyra misjafnar sögur um hana og bjóst því aldrei við því að hún væri jafn góð og hún er – kannski að hún hafi ekki haldið dampi allan tímann, kannski það hafi komið í henni smá febrúar í síðasta fjórðungi, en hún lifði það alveg af á þrususkriðþunga eftir frábæran fyrrihluta. Börnin voru líka kát en ekki kannski jafn kát og ég.

Grunnpunkturinn í sögunni er kistan í titlinum. Ef maður fer í kistuna stoppar tíminn. Þannig getur maður sleppt öllum rigningardögum lífsins. Sagan gerist fyrst og fremst í fortíðinni þegar enginn er í kistunni annar en ein prinsessa, sem er metin svo hátt að lífi hennar megi engan veginn sóa, og hún missir þannig af lífinu, ástvinum sínum og öllu hinu. En hún gerist líka í framtíðinni eftir að kisturnar verða almenningseign og allir hafa lagst í hýði til að bíða af sér kreppuástand – sem lýkur auðvitað aldrei af því enginn nennir að leggja á sig erfiðið sem fylgir því að vinna sig upp úr kreppu, allir ætla bara að bíða hana af sér einsog hvern annan rigningardag.

Það vildi til að daginn sem ég byrjaði á bókinni rakst ég á tilvitnun í Andra Snæ á vegg hjá dönskum vini mínum – úr danskri þýðingu á einhverju, man ekki hverju – þar sem Andri vitnar í einhvern rithöfund (man ekki hvern, man ekki neitt!) sem sagði að maður þyrfti að lifa þremur lífum. Einu til að lesa, einu til að skrifa og einu til að bara lifa. Andri bætir svo því fjórða við: Einu lífi til að skutla börnunum í ballett og fótbolta.

Allt kristallar þetta auðvitað upplifunarþrána sem einkennir samtímann – og sjálfsuppfyllingarþrána kannski líka. Ég ræddi það við Nödju um daginn að það væri svo sjaldan sem við gerðum ekki neitt. Þegar ég var lítill fór maður oft á rúntinn með foreldrum sínum – eða ég gerði það allavega – og var ekki á leiðinni neitt. Hér fyrir vestan þvældist maður milli fjarða, fór og keypti ís í Brúarnesti, í Reykjavík enduðum við oft á lulli um bílasölur. Ef við fjölskyldan í Tangagötunni förum upp í bíl eða bara upp á hjól eða reimum á okkur skóna erum við alltaf á leiðinni eitthvað. Meira að segja þegar við förum bara í göngutúr þá er markmiðið heilsan. Það er alltaf markmið, alltaf tilgangur – og maður er eftir því þreyttur og lúinn og burnoutaður og kvíðinn. Þetta er Tímakistan okkar – við breytum rigningardögunum í sólskinsdaga, breytum febrúar í eitthvað ævintýri, af því það þarf alltaf að vera ævintýri, má aldrei vera friður. Afleiðingarnar eru kannski ekki jafn slæmar og í Tímakistunni en ég held samt þetta sé ekki gott.

***

Héraðið eftir Grím Hákonarson, Óli Pétur – Undir áhrifum eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson og Girl eftir Lukas Dhont eru að mörgu leyti mjög ólík verk. Þau eru samt öll realísk lífsreynsluverk – raunveruleg, byggð á raunverulegum atburðum, eða trúverðug samtímaheimild – og hefðu öll getað komið aðalatriðum sínum til skila í mannlífsviðtali eða Facebookstatus. Mikilvægi þeirra getur legið í boðskapnum eða innsýninni en listfengi þeirra liggur í öðru.

***

Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem horfði á Girl. Myndin fjallar um sextán ára transstúlku og ballerínu í Belgíu. Nadja valdi. Ég man ekki hvort ég hef lesið eitthvað um að hún hafi verið umdeild, þessi mynd, en mér finnst það sennilegt. Þótt ekki væri nema bara vegna þess að leikstjóri og stjarna myndarinnar eru bæði sís-karlmenn (eða strákur og karl). Þegar við bætist að myndin er mjög brútal og nærgöngul á líkama Löru finnst mér einsog hún hljóti að hafa ýft fjaðrir. Ég nefni það ekki vegna þess að mér finnist það aðalatriði, til hnjóðs eða lofs, en það kannski segir eitthvað um hana.

Lara byrjar á hormónum í upphafi myndar og stefnir á aðgerð í framhaldinu. Hún misþyrmir hins vegar líkama sínum – borðar ekki, sefur ekki, teipar niður kynfærin á sér og fær sýkingar, tekur of stóra skammta af hormónunum sínum gegn læknisráði og þar fram eftir götunum. Þess utan gengur hún afar nærri sjálfri sér í ballettinum – er ævinlega alblóðug og marin eftir strangar æfingar. Afleiðingin er sú að læknirinn tjáir henni að hún sé ekki í neinu ástandi til að undirgangast erfiðar skurðaðgerðir. Það aftur veldur henni meiri harmi sem veldur því að hún gengur enn harðar að sjálfri sér, borðar minna, meiðir sig meira og svo framvegis.

Myndin byrjar í raun sem einföld reynslusaga en verður smám saman að einhverju meira, nær öðrum skriðþunga og öðlast táknrænni víddir. (Þetta er ekki diss á reynslusagnaformið heldur bara lýsing á því hvernig ég sá myndina). Ég ætla ekki að dæma um hvort þær víddir séu lýsandi fyrir transferlið eða kynama en ég held ég treysti mér alveg til að segja að þær séu lýsandi fyrir ákveðnar hliðar hins mannlega ástands – sársaukann sem getur falist í því að eiga líkama. Líf Löru, sem annars er útlits einsog eitthvað kvenlegt ídeal úr Jane Austen sögu – grönn, ljóshærð, glaðleg, yfirveguð (á yfirborðinu) – leysist upp í stríð við líkama sinn, sem hún getur augljóslega ekki beinlínis unnið. Hvert högg á andstæðinginn er högg á hana sjálfa. Úr verður mikil og blóðug píslarsaga.

Endirinn er bara alltílagi. Hugsanlega hefði ég frekar kosið að myndin yfirgæfi bara Löru á einhverjum hversdagslegri tímapunkti. En hún er víst byggð á sannsögulegum atburðum og þá er verið að fylgja einhverjum raunveruleika, reikna ég með. Niðurstaðan er að vísu hvorki sigur né tap – en það er eitthvað við þessa „lokabardaga“, kannski sérstaklega í svona myndum, sem virkar ótrúverðugt.

***

Ég sá Héraðið í Ísafjarðarbíó. Grímur Hákonar er gamall vinur minn – ég skrifaði í Testamentið, sem hann ritstýrði, ég var aukapersóna í Varði Goes Europe, ferðaðist með þeim til Þrándheims, Grímur var stofnmeðlimur í Nýhil og hékk svolítið í Berlín þegar ég bjó þar (og hann í Prag) og hann var einn af nokkrum kommum sem ég umgekkst mikið þegar ég fór suður. Meðal hinna var Erpur Eyvindarson – og ég hló upphátt þegar ég sá að kaupfélagið í Héraðinu hét Kaupfélag Erpsfirðinga. Þótt nafngiftin komi sennilega af búinu þar sem myndin er tekin upp frekar en að þetta sé uppgjör milli Erps og Gríms, sem ég held að hafi verið bekkjarfélagar í gamladaga.

Það eru fallegar stemningar í Héraðinu og góður húmor. Einhvern veginn vinna samt húmorinn og ljóðrænan aldrei nógu vel saman, frekar að þau dragi hvert úr öðru. Sagan um samskipti konunnar við kaupfélagið er að mestu leyti trúverðug (og reyndar sönn, skilst manni) og hefði neglt mann, hugsa ég, ef sjálfsmorð karlsins hefði verið betur undirbyggt. Myndin gerir því skóna að hann hafi drepið sig vegna þess að hann meikaði ekki lengur að vera samsekur kaupfélaginu – en við fáum aldrei að sjá hversu kúgaður hann er eða slíkar afleiðingar af klögum hans að það réttlæti sjálfsmorð. Allur skaði er ekonómískur og fjarri miðju sögunnar – við missum af harminum. Nú veit ég vel að fólk drepur sig oft alveg meira og minna að ástæðulausu, en í þessari tilteknu mynd er þetta samt nöfin sem restin á að hreyfa sig um – kannski hefði verið áhugavert að fara bara meira út í það hvort hann hafi ekki bara drepið sig af því hann var þunglyndur og í burnouti. En hitt er einhvern veginn skilið eftir hjá manni sem skýringin. 

Í myndinni er gert pláss fyrir boðskap Kaupfélagsins, einsog Grímur nefndi í einhverju viðtali, en hann er samt bara fluttur sem vondukallaboðskapur. Það er alveg sama hvaða rök Svarthöfði ber á borð – tilfinninga- eða ísköld – þau lifa ekki af þá staðreynd að hann er Svarthöfði og vill ekkert nema illt. Siggi Sigurjóns – sem er ekkert minna en stórkostlegur sem kaupfélagsstjórinn – fær að flytja sín rök en myndin sjálf tekur skýra afstöðu gegn þeim. Svar Ingu við mögulegu hruni innviða í sveitinni ef kaupfélagið ber sig ekki er bara að allt sé ódýrara annars staðar og börnin vilji ekki búa í sveitinni og panti sitt dót af Amazon. Nú held ég það sé alveg rétt að svona kaupfélög séu óttalegar mafíur og svífist oft einskis – en það á líka við um stórmarkaðina fyrir sunnan sem grafa undan kaupfélaginu og það á sannarlega við um Amazon. Þetta er einkenni á kapítalismanum frekar en bara kaupfélaginu – og lausnin er ekki endilega að það vanti samkeppni (þótt einokunarkapítalismi sé sannarlega eitt ljótasta form kapítalismans). Þessi veruleiki er flókin en einhvern veginn birtist hann manni í Héraðinu einsog hann sé einfaldur – einsog veruleikinn í sveitinni hafi frosið árið 1950.

Að því sögðu fannst mér myndin að mörgu leyti mjög góð. Það er eitthvað í stóra boganum sem klikkar og myndir treystir ekki áhorfandanum til að taka afstöðu með Ingu og undirstrikar því um of réttlátan málstað hennar – en sögupersónur eru vel skrifaðar og vel leiknar, allar senurnar í myndinni eru góðar og hún er stappfull af fegurð, ljóðrænu og húmor.

***

Óli Pétur – Undir áhrifum er stutt heimildarmynd eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson. Sá fyrrnefndi er líka æskuvinur minn en hefur ekki nema að litlu leyti lagt fyrir sig kvikmyndagerð. Myndin er gerð að ósk söguefnisins, Óla Péturs Jakobssonar, sem ég kannaðist við líka. Óli var eins illa haldinn af alkóhólisma og nokkur maður getur orðið, og alkóhólisminn dró hann til dauða áður en búið var að klippa myndina.

Myndin samanstendur fyrst og fremst af viðtölum við tvo æskuvini Óla og svo myndböndum af Óla á götunni í Reykjavík með vinum sínum þar, sem eru allir rónar einsog hann. Hún segir manni sosum ekkert nýtt hvorki um sjúkdóminn eða götulífið í Reykjavík eða reiðina sem býr í því fólki, vonbrigðin og kærleikann og samstöðuna sem einkennir líf þeirra. Hún sýnir manni Óla einsog hann var á lokametrunum og eins einkennilega og það nú kannski hljómar þá sér maður hvað hann átti mikla fegurð til í sér, mikla mýkt og gæsku, meira að segja þegar hann var á botninum. Baldri og Fjölni tekst í þessari mynd að ná af honum snappsjotti – birta mannlýsingu, portrett – og á sama tíma fær maður líka brot úr samfélögum, annars vegar litlu horni Ísafjarðar á níunda áratugnum og hins vegar litlu horni Reykjavíkur samtímans. Mér fannst myndin mjög falleg, þótt það spili kannski rullu að þetta sé fólk sem maður þekkir.

Myndin er öll á YouTube.

***

Ljóðabókin Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur er önnur ljóðabók hennar. Sú fyrri hét Uss. Sæmundur gefur báðar út. Ég mundi ekki nema óljóst eftir Uss og fór og náði í hana upp í skáp þegar ég var búinn að lesa Fugl/Blupl. Hún var góð en átakalausari en Fugl/Blupl, þar sem flakkið milli einhvers sem er einsog naíft normkor – rosalega tilþrifalaus en indæll texti:

Á þessu hjóli er ég eins og drottning í hásæti mínu

og þess sem er ákafari listræna:

Sniglaslefið tindrar í dagsbirtunni. Töfraskjaldbakan er ekki farin.

er miklu meira. Það er einsog Steinunn sé að þreifa sér leið í átt að einhverjum svona William Carlos Williams fílingum. Annars vegar í hjólböru- og ísskápastemningum og hins vegar í meiri Paterson. Ég fíla þetta mjög vel og ekki síst að það sé ósamræmi og spenna, rödd bókarinnar sé stundum einsog hana dreymi og stundum einsog hún sé glaðvakandi.

***

Ég skrifa nú ekki alltaf um matinn sem ég ét á veitingastöðum. En við fórum í Flatey á síðustu helgi og átum þar sælkeramatseðil. Ég fékk matseðil 2 minnir mig – krækling í forrétt, tacos með reyktum silungi (minnir mig) í sörpræs, lamb í aðalrétt og súkkulaðiköku á eftir. Þetta var ein allra besta máltíð lífs míns og sérstaklega var kræklingurinn engu lagi líkur. Nadja var sammála mér og við eyddum máltíðinni mest megnis í að ræða bestu máltíðir sem við hefðum fengið áður (margar þeirra voru í Víetnam – mín besta var mexíkósk paella í New York og eftirlætis Nödju á einhverjum svínslega dýrum veitingastað í Frakklandi áður en við kynntumst).

Ég kann annars lítið að rýna í mat. Hann var góður. Kræklingurinn var mjög stór og bráðnaði bókstaflega í munni – og auðvitað úr firðinum. Það var svolítið kikk í soðinu/sósunni.

***

Gítarleikari vikunnar er Geeshie Wiley. Það er til slatti af gömlum blússöngkonum – og fyrstu vinsælu blústónlistarmennirnir voru konur með stórar hljómsveitir á bakvið sig, Ma Rainey, Bessie Smith og þær allar. Deltablúsgítarleikararnir, sem eru kannski samt aðeins eldri og upprunalegri, slógu ekki í gegn fyrren seinna. Í þeim hópi eru afar fáar konur og þær sem eru þar eru flestar annað hvort bara söngkonur eða píanóleikarar og söngkonur, einsog til dæmis Louise Johnson. En Geeshie Wiley er sem sagt undantekning hérna – líkt og Memphis Minne og Elvie Thomas, vinkona Geeshiar og ferðafélagi. Geeshie tók upp sex lög fyrir Paramount og Elvie tók upp tvo – og svo hurfu þær bara, eða þannig. Það veit enginn hvað þær hétu í raun eða hvar þær fæddust eða dóu, þótt það séu alls konar kenningar, og það eru engar myndir til af þeim heldur. Mér finnst Geeshie algerlega geggjuð og þetta er besta lagið hennar, eða allavega það frægasta.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png