top of page

Sáðlát í Stromboli


Það er gott að lesa úti í sólinni.

Þegar ég fór að gefa heimferð minni gaum áttaði ég mig á því að ég hefði bara 80 mínútur á CDG flugvelli á morgun – en Icelandair mælir með þremur klukkustundum, í ljósi covid. Ég benti Frökkunum á þetta og þeir stukku til og útveguðu mér miða í lest í stað flugmiðans frá Nantes til Parísar. Nú verð ég kominn fjórum tímum fyrir brottför og það ætti vel að duga. En ég þarf líka að leggja af stað nokkru fyrr en útlit var fyrir – lestin fer klukkan sex í fyrramálið. Ég er strax orðinn úrvinda og byrjaður að taka út þá andlegu bugun sem örmögnuninni fylgir óhjákvæmilega.


Í dag sat ég í mínum þriðja panel – „Ég og minn Jules Verne“ með Dany LaFerriere, Rosu Montero og yðar einlægum. Ég veit ekki hvort ég kom neinu sérlega gáfulegu að. Dany og Rosa tala bæði reiprennandi frönsku, einsog móderatorinn, og ég þurfti að hafa mig allan við bara til að fylgjast með því sem túlkurinn sagði í heyrnartólið mitt. Annars var þetta sennilega mest bara dálítið paint-by-numbers – komið inn á hvernig maður uppgötvar hann sem barn, fordómana gagnvart vísindaskáldskap, ómöguleika þessarar útópísku framfarahugsunar á 21. öldinni og svo framvegis. Ég sagði eitthvað um að fyrir Íslendingum væri Jules Verne ekki bara höfundurinn sem færði þeim sýn á framandi slóðir – tunglið og iður jarðar og höfin og löndin – heldur líka höfundurinn sem færði í augnablik fókusinn á Ísland, sem var ekki sérlega algengt um miðja 19. öldina. Þegar rætt var um kynferðismál í Verne – sem almennt skortir, þetta er allt fremur „gelt“, þannig lagað – stakk ég upp á þeim lestri á Ferðin að miðju jarðar að hún fjallaði um það hvernig mannkyn serðir jörðina og sprautar þremur sæðisfrumum svo harkalega ofan í Snæfellsjökul að þær frussast út í Stromboli. Rosa kom inn á að það væru engar konur í þessum bókmenntum, en Dany og Agnes (kynnirinn) mótmæltu þessu og einhver sagði að það væru alls 250 konur í bókum hans, það hefði verið talið. Ef ég skildi það rétt er samt engin í aðalhlutverki, nema ein í Umhverfis jörðina á 80 dögum. Ég spurði hvort þessi ofsalegu karlaævintýri væru ekki svolítið hómóerótísk – Dany sagði eitthvað sem túlkurinn sleppti því að túlka, en hljómaði einsog „vitleysa er þetta nú“, og svo var málinu eytt.


Annars hef ég rekið mig á það við útgáfu Hans Blævar í Frakklandi að tungumálið eða orðræðan virðist mjög „ómóðins“ þegar kemur að öllum hinseginmálum. Þeir eru með hán og ég treysti því nú að Jean-Christophe, þýðandinn minn, sé með þetta allt saman upp á tíu – en í umfjöllun er mikið talað um hermafródítur og karlakonur og transsexúala. Að vísu er erfitt að leggja mat á þetta þegar maður skilur ekki meira af tungumálinu en ég geri – það er hætt við því að þótt orðin hljómi áþekk og á ensku þá sé ekki einfalt samasemmerki milli þeirra. Frakkar hafa líka meiri vara á ensku málfari og kúltúr heldur en margar aðrar þjóðir (sérstaklega norðurlandaþjóðirnar). Það er líka talsvert gert úr því að bókin sé skrifuð (og þýdd) á „inklúsífu máli“.


Þeir spyrja hins vegar meira um ídentítet sem heimspekilega stærð – fljótandi og fasta, hvernig það mótast af sjálfsmynd okkar og því hvernig aðrir sjá okkur, hvernig sé hægt að streitast gegn ídentítetinu, skapa það, sprengja það o.s.frv. – frekar en að einblína á bókina sem sósíal-realíska transdæmisögu (þegar það er gert, sem er alltaf af og til, langar mig að hlaupa ítrekað á vegg).


Annars er alltaf furðu mikið álag að setja sig aftur í stellingar til þess að segja eitthvað af viti um gamla bók. Frá því Hans Blær kom út á Íslandi hef ég gefið út tvær skáldsögur og er byrjaður á þriðju, sem á auðvitað hug minn allan. Þar að auki hef ég skrifað eina barnasögu og tvær og hálfa ljóðabók, sem er allt óútkomið.

Eftir panelinn fór ég út að skokka í fyrsta sinn síðan ég sleit krossbandið. Ég tók því bara rólega en fór ríflega 5 kílómetra og var bara mjög stoltur af mér. Náði að vélasafninu þar sem má meðal annars finna þennan fallega fíl sem birtist hér að ofan. Ég náði ekki að sjá hann fara á röltið en hann gerir það víst – þetta er fúnkerandi vél sem sprautar vatni um ranann og mígur meira að segja á gangstéttina þegar honum er mál.


Ég á ekki nema 100 síður eftir af Fjallkirkjunni og er að treina mér þær. Ég er reyndar líka með Brjálsæmiskæki á fjöllum eftir Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar en annars lesefnislaus þar til ég kem til Keflavíkur – í bílnum bíða mín Svanur Guðbergs og Sjöundi sonur Árna Þórarinssonar (sem er ein af ísfirsku bókunum sem ég er að spá í).


Það er ræs eftir sex tíma. Ætli ég leyfi mér ekki samt að lesa helminginn af þessum 100 síðum fyrir háttinn. Nema ég liggi bara yfir BBC fram á nótt. Ég náði vel að merkja sambandi við kunningja mína í Lviv og þau báru sig vel miðað við aðstæður en báðu bara um stuðning og að við öll hérna utan vígvallarins héldum okkur vel upplýstum um gang mála og þrýstum á stjórnvöld að veita allan þann stuðning sem þau geta.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page