Sumarið, Gæska, maraþonið og ömmurnar

Ég er farinn að halda að sumarið sé loksins komið til Svíþjóðar. Það hefur að vísu látið sjá sig nokkrum sinnum áður, en óðar flúið aftur til heitu landanna – en nú er það áreiðanlega komið til að vera. Það eru 23 gráður og sól og blíða. Á fimmtudag voru 6 gráður og rok og rigning og alveg svívirðilega kalt á alla mælikvarða. Þann dag kláruðu krakkarnir veturinn í tónlistarskólanum og léku á mannlausum lokatónleikum – við erum enn að bíða eftir að fá að sjá upptökurnar. Þau voru bæði búin að vera mjög dugleg að æfa sig – ekki síst Aino sem kom seint inn í tónlistarskólann eftir að þau sendu út boð um að það vantaði bassaleikara. Hún þurfti auk þess – af sömu sökum – að leika í tveimur hljómsveitum, alls fjögur lög, sem við höfum æft stíft hérna heima síðustu vikur. Í tilefni af því fórum við út að borða á veitingastað að þeirra vali og þau fengu smá gjafir, sem töldust líka síðbúnar sumargjafir (Aram fékk bók um Iron Maiden og burstakjuða; Aino fékk Grease-plötu og stilli-fetil fyrir bassann).

Ég var með plön um að hlaupa maraþon í lok júlí. En síðasta sunnudag tókst mér að meiða á mér kálfann og nú veit ég ekki hvernig fer. Hef ekkert hlaupið alla vikuna en er að verða góður í kálfanum held ég. Sem er skjótari bati en ég mátti reikna með. Upprunalega planið var reyndar að hlaupa hálf-maraþon og kannski sný ég mér bara aftur til þess – en það er hálf súrt samt.

Ég lék við að taka upp hljóðbókina að Illsku um daginn og hún er komin inn á Storytel. Nú er ég að lesa Gæsku – sem ég hef ekki lesið síðan hún kom út 2009. Ég hef ekki haft ástæðu til að endurlesa bækur mínar nema þegar þær séu að koma út í þýðingu á tungumáli sem ég skil – Gæska hefur bara komið út á frönsku og það hefur lítið upp á sig að ég lesi hana á því máli. En þetta er nú samt gaman. Skemmtilega framandi einhvern veginn – ég skrifaði hana mestmegnis 2006-2008. Þegar ég byrjaði á henni var ég einhleypur blaðamaður á Ísafirði og þegar hún kom út var ég giftur, átti barn og búinn að segja upp dagvinnunni. Fékk einhver smá listamannalaun en var líka bara ofsalega blankur. Gæska fékk mjög góða dóma víðast hvar – en auðvitað situr fastast í mér neikvæði dómurinn í Kiljunni og annað sem misfórst í tengslum við útgáfuna. Dómurinn var líka alveg voðalegur, a.m.k. í minningunni – hún var dæmd í kippu með Paradísarborginni eftir Óttar Martin Norðfjörð og einsog ég man þetta sátu þau Kolbrún, Páll og Egill bara í hring og hlógu að því hvað þetta væri allt ótrúlega lélegt.

Á tímabili var bókin líka „uppseld hjá útgefanda“ – vegna þess að upplagið hafði allt verið sent á einu bretti upp í Smáralind í misgripum fyrir einhvern Arnald. Ég bjó úti í Finnlandi en kom heim yfir jólin. Aram var nýfæddur og ég hafði einhvern veginn engan tíma til að sinna þessu – man varla til þess að hafa lesið upp úr henni. Forlagið skipulagði einhvers konar útgáfuhóf í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. Ég held við höfum verið svona fjögur í því boði, að Nödju og Aram meðtöldum. Þegar ég kom vestur komu þrír ólíkir bóksalar að mér – og hafa aldrei verið fleiri bóksalar á Ísafirði – til þess að kvarta undan því að það hefði ekkert gengið að panta bókina. Ég man ekki hvort hún var þá enn „uppseld hjá útgefanda“ – minnir að það hafi verið einhverjar aðrar ástæður í það skiptið. Til að bæta gráu ofan á svart fannst sumum vinum mínum hún heldur alls ekki góð – eða allavega að það væru of mikil læti í henni (það eru mjög mikil læti í henni) og hún væri kannski svolítið sínísk (hún er svolítið sínísk).

Hún seldist ekki neitt og vakti enga sérstaka athygli þótt hún fengi margar stjörnur í öllum dagblöðunum. Hún hefur samt eitthvað mallast út í gegnum árin og fékk líka fullt af stjörnum í Frakklandi og á nokkra eldheita aðdáendur sem láta vita af sér – en hún fer líka ægilega í taugarnar á þeim sem ekki fíla hana. Sem klagar sosum ekkert upp á mig þegar það er ekki í sjónvarpinu. Mér finnst það eiginlega bara mjög skiljanlegt. En hún á samt að vera svona.

***

Plata vikunnar er Gran’ mas I’ve Never Had með þeim Precious Bryant og Algia Mae Hinton. Ég heyrði í Precious Bryant í blúsþætti Cerys Matthews á BBC og pantaði plötuna eiginlega strax – fékk Algiu Mae í kaupbæti.

Precious er fædd 1942 í Georgíu í Bandaríkjunum og leikur Piedmont blús. Hún tók upp fyrstu lögin sín 1967 en náði ekki máli að neinu marki fyrren um 20 árum seinna – og lék þá meðal annars á Newport Folk festivalinu og túraði eitthvað um Evrópu.

Algia Mae Hinton er nokkuð eldri, fædd 1929 í Norður-Karolínu. Hún lærði á gítar 9 ára gömul – Piedmont blús, af móður sinni – en tók ekki upp tónlist fyrren seint á fullorðinsaldri – sennilega ekki fyrren upp úr fimmtugu, ef mér skjátlast ekki.

Platan er gefin út af Moi J’Connais Records, sem er að ég held svissneskt plötufyrirtæki, og ég held að platan hafi verið gefin út 2012 – í öllu falli er Precious enn á lífi þegar hún kemur út, en hún dó 2013. Algia lifði til 2018. Annað eiginlega veit ég ekki um hana – nema að hún heillar mig.

Einsog venjulega set ég frekar inn tónleikaupptökur – en það ætti að vera hægt að finna þetta á Spotify (eða panta sér plötuna einhvers staðar – ég fann mína í gegnum discogs).


Ég finn enga góða tónleikaupptöku með Algiu lagi sem er á plötunni – en þetta er fyrsta lagið og ansi gott.


Hér er svo einhver random blús – úr einhverju partíi. Alan Lomax tók þetta upp 1983. Það eru líka myndbönd af Algiu Mae úr þessu partíi að dansa buck dance með gítarinn og spila á hann fyrir aftan bak og með alls konar stæla. Mjög skemmtilegt.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png