top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Strætóspítt vs spíttstrætó

Ég fer alveg að skilja við ljóðabókina mína. Ég er enn að íhuga titilinn – eiginlega er ég búinn að henda gamla titlinum, Síreglulegri ringulreið, og svona níutíuprósent viss um nýja (sem er leyndarmál) en ég þarf að gefa því nokkra daga. Titillinn Síreglulegri ringulreið er næstum því það elsta í bókinni og á ágætlega við það verk sem ég hélt ég væri að skrifa þegar ég byrjaði en ekki nándar nærri jafn vel tæplega átta árum síðar.


Þetta var þegar fólk var að tala um strætóljóð vs spíttljóð, 2017-2019 sirka. Síreglulegri ringulreið lýsir auðvitað ágætlega samgöngukerfum fólks þótt það hafi kannski ekki verið það sem ég hafði í huga. Ég hafði ekkert sérstakt í huga, bara að þetta hljómaði fallega, held ég, að það væri galdur í þessu, leikur í orðunum sem mér finnst vænt um – að tungumálið sjálft dansi og orðin rísi upp yfir einfalda merkingu sína – og hugtakið er enn í bókinni þótt það fái ekki að varpa merkingu sinni yfir allt annað í henni. Og mér finnst það vel að merkja ekki verra fyrir að það sé erfitt að segja það upphátt fimm sinnum hratt.


Strætóljóðin voru, minnir mig – samkvæmt „umræðunni“ – kyrrari myndir, meiri einlægni; spíttljóðin æstari myndir og meiri kaldhæðni. Það kannaðist samt eiginlega enginn við að skrifa a eða b – enda væri það líklega skrítið, óþarflega þröng fagurfræði, og svo eru kyrrð og æsingur og kaldhæðni og einlægni relatíf hugtök sem byggja á einhverjum persónulegum núllpunkti (það sem einum finnst vera ægilegur æsingur finnst öðrum bara kósí). En kannski sagði það mest um afstöðu fólks hvort það taldi meiri þörf á að verja einlægnina eða verja kaldhæðnina. Ég var allavega í síðarnefnda liðinu – og raunar í því liði að finnast kaldhæðni mjög einlægt viðbragð, einlæg tjáning, og alls ekki það varnarviðbragð sem hún er stundum sökuð um að vera. Og líka í því liði að finnast einlægni mjög oft leysast upp í leikaraskap – þetta verður skýrara með hverju árinu, fólk blottar sig í einlægum einkaviðtölum til þess að markaðssetja sig sem „relatable“ og „vulnerable“. Svona einsog Wicked-leikkonurnar sem mér skilst að mæti ekki í viðtal án þess að fara að gráta. Kannski er ég bara svona kaldhæðinn en ég er ekki viss um að það sé allt gert í einlægni.


Sem þýðir sem sagt ekki að ég sé ekki með einlægninni í liði líka – bara að leiðin til einlægninnar er ekki að klæða sig í hana, að performera hana, að glenna upp augun og tárast. Hún er margbrotin og kaldhæðni er ekki bara mikilvægur hluti hennar heldur er þessi einfaldasta útskýring á eðli hennar  – að segja eitt og meina annað – er líka bærileg útskýring á því hvað listaverk gera og í hvaða sambandi þau eiga við sannleikann (hver sagði þetta aftur með að skrifa skáldverk væri að ljúga til að geta sagt sannleikann?).


Nýja bókin er samt ekki spíttljóðabók. Síreglulegri ringulreið – bókin sem ég hélt ég væri að fara að skrifa árið 2017 – var líklega spíttljóðabók. En hún breyttist bara í höndunum á mér, varð samt ekki heldur strætóljóðabók – enda væri það óþarflega þröng fagurfræði, og undarlegt að sveiflast einsog ljóðrænn vindhani –ætli það verði ekki einhver annar bara að setja á hana stimpil. Hún varð bara það sem hún er og ég veit ekki einu sinni hverjum það er að kenna.


p.s. það var ekki ég sem fattaði þetta sjálfur með titilinn, það var yfirlesari, en það blasti við strax og það hafði verið sagt.

Recent Posts

See All

Lán og laun

Það er búið að úthluta listamannalaunum fyrir næsta ár og þess vegna eru allir listamenn landsins hættir að tala um stjórnarmyndun og...

Tómur bílskúr

Tvennt hef ég ætlað að nefna hérna. Annars vegar að Tom Waits tónleikarnir í Edinborgarhúsinu tókust vonum framar og jafnvel rúmlega það....

Léttlestrarbækur fyrir fullorðna

Tvisvar nýlega hef ég séð bók gagnrýnda með þeim orðum að þetta sé tilvalin bók fyrir fólk sem les lítið, les ekki nóg, finnst bækur...

תגובות


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page