top of page

Stormviðri í Skutulsfirði


Hafnarstræti í óveðri fyrir tæpri öld. Nú er líka byggt sunnan megin götunnar og enn sunnar liggur Pollgatan – sem hafið gengur einmitt stundum upp á þegar veður eru vond.

Það hefur mikið verið rætt um landfyllingu neðan við Fjarðarstræti á Ísafirði síðasta misserið. Sonur minn og fleiri fóru meira að segja og söfnuðu undirskriftum gegn landfyllingunni, sem tekur yfir stóra fjöru, þar sem börn leika sér á góðviðrisdögum. Þessi fjara myndaðist reyndar við aðra landfyllingu – var miklu nær landi áður en það var fyllt upp í og ný fjara birtist á um áratug. En það er sama, þau þekkja enga aðra fjöru (það var samt svolítið skrítið að sjá sumt fullorðnara fólk tala um að það hefði „alist upp í þessari fjöru“ – sem var alls ekki til fyrren þau voru vel stálpuð).


Þegar ég var unglingur átti einn af mínum bestu vinum heima við Fjarðarstræti. Hann var með sérinngang í herbergið sitt í kjallara aftantil og þar var fjaran nokkurn veginn beint við dyrnar. Þegar það var stormasamt var ófært inn til hans einkaleiðina.


Um það leyti sem fyrri landfyllingin kom var talað um að færa veginn þarna niðurfyrir – Fjarðarstræti er þröng og asnaleg gata. Ég veit ekki hversu alvarlegar þær hugleiðingar voru en ég man eftir að hafa frétt af þeim þannig að það „bara stæði til“. Þá bjó ég sjálfur við götuna og hugnaðist lítið að skipta út sjávargjálfrinu við svefnherbergisgluggann minn fyrir umferðargný. Svo kom ekkert nema bersvæði og göngustígur, sem er nú sennilega meira nýttur en fjaran – sjálfur skokka ég hann oft í viku þá mánuði sem veðrið hrekur mig ekki inn.


Mér skilst að það sé fólk innan kerfisins – bæjarstjórn og bjúrókratar – sem klæjar mjög að fá þarna nýtt byggingarland „á besta stað“. En að sama skapi eru íbúar sem nú búa við útsýni beint út á Snæfjallaströndina ekki par ánægðir – enda búa þeir nú á besta stað og þann stað á að taka af þeim og planta þeim við götu inni í miðjum bæ. Sérstaklega er þetta einmitt ágætur staður frá því síðustu grjótgarðar og landfyllingar komu því það gengur ekki lengur jafn mikið af sjó á land eða inn í kjallara – en útsýnið er enn til staðar og nálægðin við náttúruundrin næstum söm.


Eyri í Skutulsfirði er í dag eiginlega ekkert nema landfyllingar og það hefur staðið styr um þær flestar. Enda var Eyrin gjarnan kölluð Tangi fremur en Eyri – Hagalín kallaði Ísafjörð alltaf Tangakaupstað. Mér skilst það sé einhver smá spotti eftir af orginalfjöru niðri í Neðstakaupstað en annars sé allt uppfyllingar – stór hluti af ætluðu „byggingarlandi“ á Eyrinni stendur síðan á gömlu ruslahaugunum, sem þarf sennilega að rudda upp við tækifæri, en guð veit hvað finnst þar undir. Það, ásamt skólpmenguninni sem safnast fyrir ár frá ári á pollinum, er sennilega nærtækasta lókal umhverfiskatastrófan á 21. öldinni. Ef ekkert verður að gert (sem er nú mjög sennilegt, ef reynslan segir manni eitthvað, ekkert er uppáhaldsiðja mannsins). Ég ætti kannski líka að telja með díoxínhörmungina úr Funa hér í upphafi aldar auðvitað. Jú og svo líst mér nú lítið á samþjöppun í laxeldinu – það er ekki ávísun á neitt nema þjösnagang þegar auðvaldið byrjar að þétta raðirnar.

Eyrin í dag og Eyrin á þriðja áratug síðustu aldar. Fjarðarstræti er nyrsta þvergatan, gengur innan úr króki að gamla Norðurtanganum (þar sem nú er Kerecis).

Sjálfur veit ég ekki með frekari landfyllingar neðan við Fjarðarstræti. Ég er svona frekar á móti þessu en þegar æsingur vissra bæjarbúa mætti mótþróaröskuninni minni var ég á tímabili farinn að verja hana miklu meira en ég kærði mig um – ég þurfti að beita mig handafli til að bakka. En það var erfitt að heyra rökin með henni, fyrir hávaðanum í þeim sem fluttu rökin gegn henni (og hreinlega ýkjum). En ég er nú samt á móti henni – kannski ekki brennandi heitur, en myndi greiða gegn. Ég held að landfyllingin sé óþarfi og mér sýnist að hún kosti miklu meira en lagt var upp með (fyrst átti hún að vera svo gott sem ókeypis, vegna nýtingar á jarðvegi annars staðar að). Og þótt fjaran komi aftur hverfur hún samt heilli kynslóð. Síðan sé ég ekki betur en það sé í raun hægt að byggja helling á þeirri landfyllingu sem nú þegar stendur – útsýnisþegum Fjarðarstrætis til gremju, vissulega. Svo mætti líka rífa skítakofana gegnt Faktorshúsinu og byggja eitthvað fallegt þar. Mestar áhyggjur hef ég samt af því að það verði byggt eitthvað ljótt. Það komi landfylling og röð af bensínstöðvum og kannski ein ljót blokk með dýrum íbúðum. En vandamálið er varla – enn sem komið er – að það sé hvergi hægt að byggja. Og þá er bara óþarfi að vera að eyða almannafé í það eitt að skaprauna íbúum.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page