top of page

Staðleyseyri í Skutulsfirði


Fyrir eitthvað rúmlega ári síðan gerði ég skurk í því að lesa bækur sem gerast á og í kringum Ísafjörð eða voru skrifaðar hér eða af höfundum héðan. Þetta eru í sjálfu sér engin ósköp – a.m.k. ekki bækurnar sem gerast hérna – kannski 40-50 bækur, gróft talið. Ég hef litla yfirsýn yfir smásögurnar og veit bara um fáeinar ljóðabækur sem eru skrifaðar hér – eða nota þetta sögusvið –  og sennilega eru ljóðabækur gjarnan staðlausir stafir. Gerast í innra lífinu eða sjálfu tungumálinu eða á einhverju konseptsviði.


Ég bloggaði aðeins um þennan lestur í fyrra og upp úr því var ég narraður til að skrifa grein – án þess að vita raunar hvað það væri sem ég vildi segja. Ég er byrjaður á greininni en veit það ekki enn. Kannski skiptir það ekki öllu og kannski er það mjög misráðið. Það kemur væntanlega í ljós bara.


En ég átti alltaf nokkrar „ísfirskar bækur“ eftir og úr því er ég að bæta nú. Þar bar hæst síðustu tvær bækurnar í þríleik Jóns Kalman og Útlaginn eftir Jón Gnarr. Svo uppgötvaði ég nýlega að ein Ísafjarðarbók Hagalíns – Segið nú amen, séra Pétur – hafði farið framhjá mér og að Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur væri með kaupstað á svæðinu í baksýnisspeglinum. Ég veit enn ekki hvort hún gerist þar nokkuð – rakst bara á þetta brot úr (annars mjög jákvæðum) ritdómi Arngríms Vídalín á vef Tímarits Máls og menningar:

Eitt er þó minna sannfærandi og það er skerandi andstæðan milli Vestfjarða og Reykjavíkur, því svo virðist sem Birta mæti sama og engum fordómum eða háðsglósum fyrir sunnan. [...] Þannig lítur Reykjavík út eins og paradís við hliðina á heimabyggð Birtu þar sem fordómar og illt umtal grasserar. Þessar andstæður þóttu mér heldur svarthvítar.

Bærinn er ekki nefndur – en þar er a.m.k. 10. bekkur í grunnskóla svo það fækkar valkostunum. Kannski eru fleiri vísbendingar í bókinni, sem er á náttborðinu hjá mér, en ég ræði hana hér ekki að öðru leyti en út frá þessum orðum Arngríms. A.m.k. í bili.


Þetta er auðvitað klassískt þema – íhaldssami sveitalubbinn. Og kannski má það oft til sanns vegar færa – í öllu falli held ég að það blasi við að í stærra samfélagi sé auðveldara að umkringja sig sínum líkum og þá getur jaðrað fólk notið sín betur, ekki vegna þess að samfélagið sé ekki íhaldssamt eða fordómafullt, heldur vegna þess að það er auðveldara að komast hjá því að rekast á þá samfélagslegu krafta. Maður sækir aðra bari, aðra viðburði, aðra dansleiki og fer jafnvel í aðrar kirkjur. Það eru álíka mörg fífl í öllum samfélögum, en maður verður mismikið var við þau. Stærsti kostur og stærsti galli smærri samfélaga er að þar lifa allir og hrærast í einum graut – þar getur bæjarróninn rifist við kvótakónginn á barnum og skúringakellingin verið í bókaklúbb með kvenforstjóranum (samt eru bara konur í flestum bókaklúbbum, vel að merkja). Þessu fylgir ákveðin viðsýni og umburðarlyndi – innsýn í ólíkar veraldir – en líka árekstrar. Maður kemst t.d. ekki undan því að hitta líka þá sem hafa gert manni eitthvað (eða þá sem maður hefur sjálfur gert eitthvað).


Hins vegar má alveg halda því til haga líka að sumarið áður en Sterk kom út var vinkona mín Veiga Grétarsdóttir, fjallkona bæjarins, og í ræðu sinni sagði hún hvergi betra að vera trans en á Ísafirði. Svo sennilega hefur Margrét bara verið að hugsa um Bolungarvík eða Patreksfjörð!


Ég er svo kominn hálfa leið inn í Harm englanna sem höfðar talsvert betur til mín en Himnaríki og helvíti gerði – nema ég sé bara sjálfur betur stilltur inn á þessa rómantík. Ég er auðvitað svag fyrir henni – JKS er með Tom Waits sem eitt helsta fagurfræðimódel og fáa menn hef ég tignað jafn ákaft og hann – þegar vel tekst til hittir Jón á allar þær taugar, svo manni finnst maður í senn geta öskrað niður norðanáttina (sem lemur miskunnarlítið á húsinu í dag) og rifið upp úr freðinni jörðinni hreinustu ljóð, en þegar illa tekst til er þetta einsog að fá sama TW viðlagið aftur og aftur í 9 klukkutíma streit. Sem er auðvitað þeim mun verra ef maður elskar TW heitt – þá finnst manni klæmst á fegurðinni. Þetta er líka spurning um í hvaða stemningu maður er sjálfur, hvað maður er móttækilegur. Í öllu falli tekst mér að gleyma mér í Harminum á máta sem mér tókst aldrei í H&h. Sem mig grunar reyndar að hafi eitthvað að gera með lausari strúktúr – það er einsog ég þoli frekar hið hástemmda ef strúktúrinn er „lífrænni“.


Annars er eitt af því áhugaverðasta við allar þessar bækur hversu oft er farið í kringum örnefnin – ýmist með því að búa til ný heiti á bæi og fjöll eða með því að tala bara um „þorp“ eða „bæ fyrir vestan“ eða eitthvað álíka. Maður gæti ímyndað sér að þetta væri algengara hjá einhverjum utanbæjarlúðum sem eru bara alls ekki kunnugir staðháttum – en Rúnar Helgi og Njörður P. Njarðvík gera þetta líka. Rúnar í Ekkert slor og Njörður í Í flæðarmálinu – en báðir negla sig svo vel að merkja betur á tiltekinn stað í seinni bókum sínum. Og svo Hagalín auðvitað sem kallaði Ísafjörð alltaf Tangakaupstað. Þetta á svo eðlilega ekki við um æviminningar, einsog Útlagann eða Skáldið á Þröm, eða sögulegar skáldsögur einsog Dauðamenn eftir Njarðvík eða stríðsárabækur Sindra Freyssonar.


Það er helst að erlendir höfundar einsog Satu Rämö – sem er að vísu Ísfirðingur líka – noti Ísafjörð fyrirvaralaust sem fyrirmynd, geri sér þar sitt eigið sögusvið milli fjallanna, með sínum eigin sögupersónum, sem eiga sér ekki endilega neinar fyrirmyndir í fólkinu á svæðinu, það best ég veit a.m.k. En staðurinn heitir sínu nafni, göturnar sínum nöfnum. Svona svipað og flestir gera þegar þeir skrifa sögur sem gerast í Reykjavík. Ég hef farið svipað að sjálfur og myndi líða mjög undarlega með skálda upp nýtt nafn á bæinn – nema ég væri að skrifa einhvers konar fantasíu. Við Satu eigum auðvitað bæði heima hérna – en það átti Hagalín líka, lengst af (en Njörður og Rúnar eru vel að merkja expat-höfundar á höfuðborgarsvæðinu).


Ég veit ekki hvaða merkingu þetta hefur. En væntanlega er þetta svipað og þegar maður notast við fólk sem fyrirmyndir og vill hafa fjarvistarsönnun – þetta ert ekki þú! – jafnvel þegar það blasir við. Ætli fólk upplifi þá að bæjarbúar – Ísfirðingar jafnt sem aðrir, því þetta á við um alla smábæi í íslenskum bókmenntum, og jafnvel bíómyndum líka – séu hálfgerður „einstaklingur“ sem muni hugsanlega bregðast við, móðgast, fyrtast? Eða viljum við gjarnan – við lesendur – að bækur gerist í hálfgerðum staðleysum, gætu verið hvar sem er, og bæir séu of „mikið staðir“ – það sé auðveldara að láta fólk ráfa um borgir, jafnvel litlar borgir einsog Reykjavík, í nafnleysi og staðleysu?


Í mörgum tilvikum geta höfundar alls ekkert þrætt fyrir sinn fyrirmyndarfjörð. Stundum eru jafnvel önnur örnefni „rétt“ og oft eru kynlegir kvistir af svæðinu, öllum kunnugir, auðþekkjanlegir. Einhvern veginn finnst mér sjálfsagt að það fólk fái ný nöfn af því það er verið að láta það gera alls konar hluti sem það hefur kannski aldrei gert (fátt held ég að rithöfundum sárni samt jafn mikið og þegar þeir eru sjálfir notaðir svona í skáldskap annarra – undir nafni eður ei) – það verður sögupersónur. En ég næ hinu samt ekki alveg, þessari hvöt til að skipta um eða breiða yfir nöfnin á bæjunum. Næ bara ekki taki – ekki einu sinni nóg til að mynda mér almennilega skoðun á því. Sem er sem sagt það sem ég er að reyna að gera í þessari blessuðu grein minni.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page