Staða pundsins; Grugg í Skúrinni; Stalker; Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins; Korter í Tertíer t

Ég var að leggja Braga frá mér. Stöðu pundsins. Það brakar alveg í skynfærunum. Einhvern veginn tekst Braga alltaf að vera gersamlega óþolandi og ógeðslega skemmtilegur bæði í senn. Ég man eftir að hafa lýst því yfir í menntaskóla að þegar ég yrði stór myndi ég skrifa bók sem væri skrifuð án bila, greinarmerkja, greinarskila – ég man ekki hvort það áttu líka að vera engar persónur og enginn söguþráður – en bókin átti að vera svo góð og svo skemmtileg, þrátt fyrir þetta, að það gæti enginn látið hana frá sér og fólk myndi neyðast til að dröslast í gegnum helvítið og hata mig á eftir, fyrir að vera svona skemmtilegur en svona óþolandi. Ég segi ekki að Bragi sé alveg þarna – enda útópísk sýn – en hann er á þessari vegferð og hefur verið a.m.k. í síðustu 4-5 bókum, frá því hann hristi af sér póstmódernismann (og talsvert marga lesendur, grunar mig, hann átti stóran flokk af blóðheitum fylgjendum, sem ég er hættur að verða var við að sama marki – og gömlu bækurnar voru „skemmtilegri“ en nýju bækurnar eru „svakalegri“) og skipti honum út fyrir einhvers konar tilfyndinn normkor hámódernisma (ég segi oft normkor og meina það neikvætt en á svona mikilli keyrslu verður það að einhverju miklu áhugaverðara) . Þetta er ekki fyrir alla og stundum finnst mér þetta bara vera fyrir mig og stundum alls ekki fyrir mig – ég skipti oft um lið í miðri bók – ég gleymi því gjarnan hver er að segja hvað og hvað var að gerast og það eru alveg kaflar þar sem mig langar bara að gefast upp. En þegar á mann er ráðist á maður að taka þátt í árásinni, segir ein sögupersóna í bókinni, og það er kannski lýsandi. Fimm stjörnu bók; ég er alveg gersamlega miður mín.

***

Ég fór á grunge-tónleika fyrir nærri tveimur vikum. Gleymdi bara að skrifa um þá síðast. Jón Jósep – kenndur við svört föt – og Stefán Freyr Baldursson, þekktastur fyrir gítarleik með gruggsveitinni Urmli héldu tónleika í Skúrinni. Á dagskrá voru nokkrir af helstu slögurum gruggtímabilsins. Stefán, sem er unaðslegur gítarleikari, framúrskarandi, er Ísfirðingur og býr hér en Jón Jósep er reglulegur gestur í Húsinu (sem er við hliðina á Skúrinni og í eigu sama fólks) þar sem hann trúbadorast. Ég er ekki mikið gefinn fyrir trúbadora, svona heilt yfir, en mér hefur alltaf þótt Jón mjög heillandi – orkan er að vísu alltaf á yfirsnúningi en hann hefur líka svo augljóslega gaman af því að spila, það er bráðsmitandi. Flestir trúbadorar eru hins vegar held ég að þessu til að refsa bæði sjálfum sér og gestum – eða í besta falli í einhvers konar fiskflökunarakkorði. Enda eru þetta langar vaktir og sömu lögin síendurtekin – lái þeim hver sem vill.

Í sem stystu máli eru Stefán og Jón báðir miklir fagmenn og gerðu flest sitt vel. Það var hins vegar augljóst að þeir höfðu ekki haft mikinn tíma til að æfa saman – og höfðu orð á því að æfingar hefðu meira og minna átt sér stað „í gegnum ircið“. Sum lögin smullu vel og önnur ekki jafn vel. Ég velti því svolítið fyrir mér hvort það væri betra eða verra að þeir hefðu kannski mikið spilað lögin í sitthvoru lagi  í gegnum tíðina – Stefán með Urmli og heima í stofu og Jón í trúbadorabransanum – og hvort persónuleikar þeirra hefðu mikið að segja um útkomuna. Jón er orkubolti með kassagítar sem kallar á einfaldari útsetningar – ein afleiðing þess að spila án hljómsveitar er að sum mistök, styttingar og einfaldanir á takti eða millispilum, dót sem kæmi strax í ljós þegar heil hljómsveit fylgist að, æfast kannski bara upp og maður hættir að taka eftir þeim. Það verða til litlar varíasjónir. Ég, sem spila aðallega með sjálfum mér, þekki það ágætlega að læra eitthvað lag – spila það ítrekað einn með sjálfum mér – taka það svo einu sinni að gamni með upptökunni og átta mig alltíeinu á því að ég hef ómeðvitað breytt einu og öðru smálegu. Stefán er hins vegar afar nákvæmur og teknískur og ég ímynda mér að hann hafi mest gaman af að læra og þjálfa upp díteilana – sem er alveg öfugt við virkni trúbadorsins (sem þarf auðvitað að læra miklu, miklu fleiri lög). Mér fannst allavega einsog af og til stefndu þeir hvor í sína áttina – en kannski var það frekar í lögum sem þeir höfðu minna spilað, ég veit ekkert um það, þetta var bara hugdetta.

Tónleikarnir voru hins vegar skemmtilegir, með öllum sínum agnúum og brilljans.

***

Stalker eftir Tarkovskí er nærri þriggja tíma langur rússneskur sci-fi klassíker. Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem stóð fyrir sýningunni – og þurfti svolítið að peppa meðlimi upp í svona þunga mynd eftir lýjandi mánudag í kjarnafjölskyldunni.

Hún gerist í heimi þar sem menn geta sótt inn á „svæðið“ og farið þar í ákveðið „herbergi“ og fengið sínar heitustu langanir uppfylltar. „Stalkerar“ – enska heitið er notað í rússneskunni – sjá um að smygla mönnum inn á svæðið og að herberginu. Hér fylgjum við einum vísindamanni, hvers heitasta löngun er að rannsaka herbergið og fá fyrir það nóbelsverðlaun, og skáldi sem hefur glatað innblæstri sínum og vill finna hann aftur. Svæðið er einsog yfirgefnar stríðsrústir – bæði náttúra full af skrani og sundursprengd hús.

Myndin er löng og ljóðræn hugleiðing – ofsalega, ofsalega falleg, hráslagaleg og sérstök útlits – og mikill heimspekilegur texti. Mig langar alltaf að segja pseudo-heimspekilegur þegar það eru ekki heimspekingar sem skrifa en sennilega er það fölsk aðgreining. Persónurnar þrjár, stalkerinn, skáldið og vísindamaðurinn slógu mig sem ólíkar hliðar sömu persónu – svæðið sem tilvistin og herbergið sem hjartað, hinn innsti kjarni tilvistarinnar sem við reynum stöðugt að nálgast en óttumst líka að muni afhjúpa eitthvað um okkur sem við viljum alls ekki vita (t.d. að við séum eigingjörn). Eitthvað þannig. Það er ekki beinlínis einföldun – upplegg myndarinnar er of einfalt til að það þýði nokkuð að einfalda það, en myndin sjálf, úrvinnslan, textinn, frásagnarstíllinn flóknari. Og auðvitað er x alltaf bara x en ekki y. En ég sem sagt skildi þá ekki endilega í sundur, sá ekki einn sem aðal – þann sem ég vildi vera – heldur vildi ég vera þeir allir og var þeir allir. Og auðvitað vill enginn vera þessir menn, ráðvilltir og ringlaðir, ég lýg því, en maður samsamar sig, samsamast.

***

Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins (ég er alltaf að rugla með þennan titil – kalla hana alltaf ráðgátuna um leynihúsið eða eitthvað álíka) er fyrsta bók Snæbjarnar Arngrímssonar, sem áður er þekktur fyrir bloggið Kaktusinn og forlögin Bjart og Ferdinand. Þetta er barnabók og ég las hana með börnunum – ég valdi í þetta sinn (við skiptumst á). Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin. Bókin er ljómandi skemmtilegt ævintýri – kaflarnir eru oft mjög stuttir, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og það skapar svolítið brokkgengan upplestur en virkar ábyggilega betur ef lesið er í hljóði. Í seinni hluta bókarinnar er spennan keyrð í botn og þá er mjög gaman (þetta er eiginlega meira lævís hasarbók en beinlínis ráðgátubók). Einstaka tiktúrur – einsog að segja ekki frá því hvort börnin hefðu nýtt sér vitneskju um lottótölur – voru til trafala og sennilega meira til að uppfylla stríðnisþörf höfundar en skemmta lesendum.

Sennilega er Rannsóknin frekar fyrir yngri börn en eldri – Aino, sem er sex ára, beinlínis skríkti af spennu og kátínu þegar allt var í gangi, en Aram, tíu ára, var umtalsvert rólegri (enda kominn langleiðina í gegnum Harry Potter og les alls kyns fantasíur á sænsku í löngum bunum, þar sem ógnin er bæði langdregnari og ofsafengnari). En lifði sig samt inn í allt.

***

Korter í Tertíer tvö er myndlistarsýning eftir Unu Gunnarsdóttur og sýnd í Sundhöll Ísafjarðar. Þetta eru málverk sem hanga á veggjum – eitt yfir heita pottinum, annað yfir kalda pottinum og svo framvegis – og svo eru blómapottar. Kannski var ég að missa af einhverju fleiru (ég var aðallega þarna í sundi með börnunum – hef ekki farið í sund í ár og daga, sýningin hefur hangið þarna síðan við komum heim frá Hondúras). Sýningin á að vera einhvers konar hugleiðing um hlýnun jarðar og framtíðina. „Í þessum framtíðarmálverkum er árið x og flamingóinn, sem barst til landsins, er eitt af fyrstu merkjum þess að nú sé enn eitt hitaskeiðið að byrja og skrautleg fiðrildi berast yfir hafið og hafast við í kirkjugörðunum, fíflarnir verða að sólblómum, gósentíð, pálmatré og vínviður. Síðan eitt sumarið hverfur allur snjór af Snæfjallaströndinni. Æðibunugangur mannskepnunnar hefur fært plánetuna nær sólu og á snjóflóðagörðum er nú hægt að rækta hrísgrjón.“ – segir í sýningarskrá (sem hangir á veggnum). Stemningin er samt ekki apókalyptísk – það er ekki endilega mikið mannlíf en jörðin blómstrar einhvern veginn, þetta er litríkt og gleðilegt og undirfurðulegt. Og mjög gaman að hafa myndlistarsýningu í Sundhöllinni – hún harmóníserar vel við byggingu Guðjóns Samúelssonar.

***

Við horfðum á Wall-E. Kvikmyndaklúbbur unga fólksins, sem sagt. Ég hélt ég hefði séð hana en svo reyndist ég nú a.m.k. ekki hafa séð hana alla. Segja má að hún rími sæmilega við Korter í Tertíer, nema með kaldranalegri formerkjum. Mannkyn hefur skilið jörðina eftir sem gróðurlausa eyðimörk og allir búa í stórri geimstöð, svífa um spikfeitir í flugstólum með tölvur í andlitinu öllum stundum. Ég veit ekki með flugstólana en ég stari umtalsvert meira í tölvu sjálfur en árið 2008 – og var þó orðið ansi mikið þá. Á jörðinni býr ruslavélmennið Wall-E og dag einn finnur hann litla plöntu – þá síðustu á jörðinni, en það veit hann ekki, hann bara safnar áhugaverðum hlutum. Svo kemur leitarvélmennið Eva, mun fullkomnari og meira nýmóðins, til að finna plöntuna. Með þeim takast ástir, svo finnur Eva plöntuna hjá Wall-E, alls kyns prótókollar taka völdin í stýrikerfinu og hún flytur plöntuna upp í geimsstöð þar sem mannfólkið telur að nú eigi að hefja endurlandnám á jörðinni – eftir 700 ára útlegð – enda sé hún nú aftur fær um að fóstra líf.

Það er hérna sem plottið fer út og suður. Skipstölvan gerir af óútskýrðum ástæðum allt sem í sínu valdi stendur til að stöðva þessa prótókolla og koma plöntunni fyrir kattarnef. Sem meikar ekkert sens. Það var hún sem sendi leitarvélmenni, einsog Evu, um víða veröld til að finna plöntuna – það hefði verið hægur leikur fyrir tölvuna að hætta bara leitinni – og jörðin er augljóslega ekki í neinu ásigkomulagi til að taka við af skipstölvunni (og eflaust hefði enginn áhuga á því heldur). Sömuleiðis ætti litlu að skipta hvort þessi eina tiltekna planta kemst af, ef jörðin er í raun að fóstra líf að nýju þá ættu aðrar að finnast (ekki hefur þessi eina lifað af 700 ár … eða hvað? líf hlýtur að hafa kviknað að nýju .) Og tók enginn með sér svo mikið sem einn burkna út á geimstöðina? Hvaða rugl er þetta eiginlega.

Ástarsaga vélmennanna er langáhugaverðasti hluti sögunnar – en auðvitað furðu heterónormatíf, sérstaklega í ljósi þess að hvorugt vélmennið er í raun af neinu kyni (eða, það er allavega heimspekileg spurning). Svo sló mig reyndar líka að gamla ruslavélmennið og nýmóðins leitarvélmennið – hinn úreldi og æskan, Fríða og dýrið, ellibelgurinn og career-konan, ruslakarlinn og gellan – væri svona álíka líklegt og ef Lalli Johns myndi byrja með Örnu Ýr. Það væri sannarlega ástarsaga til næsta bæjar.

Internetið hefur auðvitað farið mikinn yfir því mynstri nýlega að kærustur Leonardo DiCaprios nái aldrei 26 ára aldri áður en hann hættir með þeim. Og fagnað því að Keanu Reeves sé með konu á „eigin aldri“ (hún er samt tíu árum yngri en hann – en líka ellilegri en hann, sem er einsog Leo hollywoodstjarna í eins konar formalíni, eilífðarglans þótt aldurinn sjáist eitthvað). En Wall-E er ekki Leo – ekki ríkur, ekki frægur, hann er bara noboddí, skrapatól, einbúi og ruslakarl. Algert krúttrassgat – en kærusturnar hans Leos eru ekki bara að leita að einhverjum eldri manni sem er krútt. Það er mjög ákveðin tegund af eldri karli sem höstlar ungar konur – valdamikill, settlaður, í góðu formi – og Wall-E er alger andstaða alls þess.

Áhugaverð mynd. Ég veit samt ekki hvað mér finnst um hana.

***

Við hjónin skutumst líka úr húsi til að sjá Doctor Sleep í Ísafjarðarbíói. Við höfðum hvorugt lesið bókina en bæði lesið Shining og séð myndina – ég held meira að segja að ég hafi séð a.m.k. hluta af Shining myndinni sem Stephen King stóð fyrir sjálfur og ef ég man rétt var hún alls ekki góð og sennilega ekki heldur mjög eftirminnileg. Einhver sagði á Twitter að Doctor Sleep væri æfing í því hvernig maður tæki eitt íkonískasta kvikmyndasett sögunnar og léti það líta út einsog ódýra sjónvarpsmynd. Það má til sanns vegar færa. Allra verstu hlutar Doctor Sleep eru þegar sést í Shining Stanley Kubricks – það er bara vont. Að því sögðu er þetta fín hryllingsmynd – flott laugardagskvöld í bíó, góð með poppi og kúlúsúkk (konan mín var að uppgötva kúlúsúkk og skilur ekki að ég – sem borða aldrei nammi – hafi leynt hana þessu allt okkar hjónaband, hún ætlar að taka með sér marga poka til Svíþjóðar næst þegar við förum, en finnst annars íslenskt nammi vera frekar lítið impónerandi).

Doctor Sleep er sem sagt ekki góð í samanburði við Shining en hún er bara alltílagi í samanburði við til dæmis Us.

***

I stand alone by the devils and other poems on films eftir hinn mikilvirka SJ Fowler er ljóðabók með ljóðum (ha?) sem eru innblásin af hinum og þessum kvikmyndaverkum. Einsog hughrif. Ljóðin heita eftir kvikmyndunum og við enda þeirra er tiltekinn frumsýningardagur og leikstjóri. Þarna er t.d. eitt um Stalker – „A trickle from the Stalker’s ears brings attention to the plug / that blocks out the sounds you’re making / until you’re living the first day of your life offline / in the zone.“

Þetta er að mörgu leyti torf en auðvitað ekki þess lags torf sem maður á að skilja eða „greina“ – það er leiðindatendens að skipta ljóðum út fyrir „merkingu sína“, og misskilningur á virkni þeirra. Kannski kominn til af því að margir heimspekingar fóru á tímabili að skrifa einsog einhver langpo-skáld – texta sem átti ekki að skiljast (eða a.m.k. ekki „bara að skiljast“). Og þá eru ljóðin ekki lengur torf en þau krefjast samt athyglisgáfu manns á annan hátt en prósi – eða einu sinni megnið af (meinstrím) ljóðum, sem eru beinskeyttari.

Sumar línurnar í bókinni vísa einhvern veginn beint í bíómyndirnar – stundum án þess að maður sé viss um að nákvæmlega þetta hafi verið í myndunum (ég er auðvitað minnislaus, þess vegna held ég svona langar dagbækur, heilinn geymir þetta ekki) – „Eight girls / without / underwear / barking like Labradors“ (Salo)  og „A film about skinning and eating and new love“ ( Silence of the lambs) – en aðrar er erfitt að tengja við myndirnar. Ljóðin við myndirnar sem maður hefur séð eru samt alltaf best – þau eru flest mjög góð, ég fíla Steven, sem ég hef lesið í meira en áratug og gefur út ábyggilega tvær bækur á ári, alltaf betur og betur, en þau njóta sín best í „náttúrulegu samhengi sínu“ með minninguna um bíómyndina í bakgrunni.

***

Ný plata Grísalappalísu, Týnda rásin, er sennilega bara besta platan þeirra. Og hljómsveitin bara hætt! Mig langar að segja að á henni „kenni margra grasa“ – af því það er eiginlega ómögulegt að segja nákvæmlega hvers vegna hún hangir saman, poppslagarar einsog Þrjúhundruðsextíuogfimmdagablús (sjáðu hjónin) og fuzzpönk einsog Meðaljón eða ljóða- og píanógjörningar einsog Taugaáfall í bónus. Í sjálfu sér reyna hljómsveitir oft fullmikið að hafa samræmi í lagasmíðum og útsetningum – það er erfiðara en það virðist að hætta að hljóma „einsog maður sjálfur“ og „listræn sýn“ líkist alltaf sjálfri sér. Köntrílag með Elton John verður alltaf meiri Elton John en það verður köntrí – af því köntrí er bara form, Elton er hjarta og sál. Og það er hellingur af hjarta og sál í Grísalappalísu, hellingur af ofsa og gleði – hellingur af gáfnafari, getur maður sagt það? Þetta er allavega gáfumannamúsík held ég – svona sem genre, maður getur ábyggilega líka fílað þetta þótt maður sé mjög heimskur, maður þarf ekkert að hugsa á meðan. En hugtakið – gáfumannamúsík – er náttúrulega bara afsprengi þess að stór hluti tónlistar virðist stefna í hina áttina, stefna að einfaldleika, einsatkvæðarími, einföldum textum, einföldum útsetningum o.s.frv. Það er ekki slæmt – ég er nú einu sinni AC/DC haus og einfaldleikinn á stóran stað í hjarta mér – en það er annað en þetta. Og flóknar útsetningar eru ekki endilega betri en einfaldar – það er ekki meiri músík í þeim og ekki endilega meiri gáfur (þótt t.d. gáfurnar sem þurfi til þess að spila mjög flókinn disharmónískan djass séu miklar – þá eru það stærðfræðigáfur – í samhengi Grísalappalísu er ég meira að hugsa um ljóðagáfur, liggur beint við að tala um Megasargáfur, enda er hann hér stór „áhrifavaldur“ (ónýtt orð!).

Reyndar held ég að eitt af því sem haldi plötunni saman í einni heild sé líka textaheimurinn – sem ég hef ekki greint af viti (enda á maður aldrei plötur lengur með textablöðum, bara eitthvað Spotifydæmi og gleymir svo eftir tvær vikur að þessi plata sé til og man það svo aftur eftir tvö ár, rennir henni einu sinni í gegn og hugsar: þetta er svo mikil snilld, hendir í status á facebook um að maður hafi verið að enduruppgötva eitthvað sem maður gleymir svo aftur – plötur þurfa að verða fýsískir hlutir að nýju). En mér sýnist textaheimurinn vera svolítið af Spilverksskólanum – einhver svona ljóðræn samþætting á smáborgaralífinu og bóhemlífinu.

***

Leifur Ýmir Eyjólfsson er með sýninguna e-ð fjall í Gallerí Úthverfu. Þetta eru þrjú stór verk sem standa hvert á sínum vegg – auðir panelar sem á stendur „e-ð fjall“ „e-ð annað fjall“ („annað“ er innskotið á milli e-ð og fjall) og „e-ð enn annað fjall“. Þau fyrstu tvö standa gegn hvert öðru og eru bæði á hvítum bakgrunni, svartur handskrifaður texti, en það þriðja fyrir botni herbergisins er einsog rist í brúnleitt tré.

Ég hef oft haft á orði – líka í listrýni á Starafugli – að það sé mjög algengt að listamenn sem koma hingað og vinna verk inn í rými, kannski sérstaklega þetta rými, Úthverfu – gamla Slúnkaríki – bregðist einhvern veginn við fjöllunum. Ég man eftir nokkrum myndlistarmönnum, bara síðasta árið eða svo, sem hafa málað fjöll á veggina. Það er skrítið fyrir heimamann. Þessi fjöll hafa tekið mikið rými í hugsunum mínum síðasta árið – ég er að yrkja um þau, skrifa skáldsögu um þau og reglulega pistla á Úr Vör um þau. Lengst af hef ég lifað í mótþróa gagnvart þeim – þau séu ekki spes, ekki dásamleg, ekki orkustöðvar, ekki allar klisjurnar (sem koma flestar að utan – kannski frá myndlistarmönnum sem teikna fjöll á veggi „á landsbyggðinni“). Sennilega er augljóst að þau séu það fyrsta sem orkar á mann þegar maður kemur og það sem orkar á mann sterkast, en þetta er líka svolítið einsog að fara til Finnlands og gera listaverk um hvað allir séu þunglyndar fyllibyttur.

Að því sögðu er verk Leifs Ýmis auðvitað tilraun til þess að streitast á móti þessu fjallamálverki. Hann hefur ekki málað nein fjöll á þessa veggi – en vakið þau upp engu að síður. Magritte málaði pípu og sagði að hún væri ekki pípa og Leifur málar engin fjöll en segir að þau séu fjöll. Salurinn, með sinn stóra glugga út að götunni, er auðvitað í laginu einsog fjörður – þótt Ísafjörður sé með fjögur fjöll umhverfis sig (tvö í botni fjarðarins) og Snæfjallaströndin blasi líka við handan djúpsins (sem væri þá málarablokkin, ef Úthverfa er Skutulsfjörður). Og maður raðar þeim ósjálfrátt upp – e-ð enn annað fjall er Kubbinn (frekar en Hnífar), e-ð fjall er Ernir og e-ð annað fjall er Eyrarfjall. Inni á gólfi standa svo Ísfirðingar og sötra vín.

Ég sveiflast á milli þess að finnast þetta alltof ódýrt og mjög snjallt. Kannski eru það ekki einu sinni mótsagnir. Svona einföld textaverk eru auðvitað ekki ný af nálinni – en staðsetningin, sagan, vinnur með merkingunni.

***

Gítarleikari vikunnar er poppdjassundrið Melanie Faye.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png