top of page

Spriklandsdagar, Óbragð og Biskops-Arnö


Ég eyddi tveimur dögum á bókamessunni í Þessalóniku – las upp nokkur ljóð úr Óratorreki, hlustaði á þýðingar Vicky Allysandraki, sat fyrir svörum á sviði ásamt alls konar gáfumennum, át góðan mat og drakk óhemju af bjór. Svo stökk ég upp í lest til Aþenu til þess að drekka meiri bjór og éta meiri mat og á föstudaginn verður (að öllum líkindum) pop-up viðburður um Illsku í bókaverslun í miðbænum. Þangað til er ég mestmegnis að reyna að fá ekki samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt. Því það var jú planið. Í gær rölti ég um miðbæinn einn og kleif svo Akrópólishæð með góðu fólki, át góðan mat og drakk bjór, leitaði að stuttermabol með mynd af Sókratesi en gekk út úr túristabúð með Clockwork Orange bol (af því hér eru allir grísku bolirnir bara með últra-violent spartverjum sem eru mér minna að skapi). Ég þarf eiginlega líka að kaupa mér buxur – þessar einu sem ég tók með mér eru orðnar ansi blettóttar.


Ég er hálfnaður með Crossroads eftir Jonathan Franzen – nýbúinn með Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, sem ég var mjög ánægður með. Hún fjallar um kvíðasjúkling í ástarsorg sem leitar að ballans í lífinu með því að ganga í kakósöfnuð. Uppátækjasöm persónusköpun, gott tempó, æðisleg sviðsmynd og óhjákvæmileg átök milli þeirra sem eru í tengslum við náttúruna og þeirra sem eru komnir til að dýrka hana (og eigna sér hana, virkja hana í nafni kakókuklsins). Guðrún er líka ein þeirra sem komu á ungmennanámskeið í Biskops-Arnö þar sem ég var leiðbeinandi um fimm-sex ára hríð – þar til námskeiðið var lagt niður. Hún kom á fyrsta námskeiðið, 2013, og var snillingur strax þá.


Ekki það – ég er líka mjög ánægður með Jonathan Franzen. Hann er mjög fínn.


Þetta voru merkileg námskeið – Författarskolan för unga. Þar komu sem sagt saman efnileg ungmenni frá öllum norðurlöndunum til þess að eiga vikudvöl á þessari undarlegu eyju, Biskops-Arnö – sem er einhvern veginn í senn rétt hjá Stokkhólmi og á hjara veraldar – og fáránlegur kraftur í þessu oft. Mörg þeirra höfðu kannski aldrei sagt neinum að þau væru að skrifa og voru svo alltíeinu umkringd skrifandi jafningjum sínum. Við sem unnum þarna kenndum þeim áreiðanlega eitthvað smotterí, og héldum auðvitað utan um þetta, en ég held þau hafi mest kennt sér sjálf – og hvert öðru.


Það eru líka ansi margir af íslensku krökkunum sem hafa haldið áfram að vinna að bókmenntum eða öðrum listum á einn veg eða annan. Rut Guðnadóttir var þarna t.d. og Ármann Örn úr Kef Lavík, Birgitta Björg í Ólafi Kram, Tanja Rasmussen sem stofnaði Kallíópu forlag 19 ára – og sem hefur unnið Nýjar raddir keppni Forlagsins, einsog einmitt Guðrún – Jóna Gréta Hilmarsdóttir sem skrifar (frábæra) kvikmyndakrítík í Morgunblaðið, mynd- og tónskáldið Þorsteinn Eyfjörð, fornfræðingurinn Sólveig Hilmarsdóttir og fleiri og fleiri. Þetta voru sennilega á bilinu 4-7 krakkar frá Íslandi eftir ári – hver öðrum merkilegri, líka þeir sem sneru sér að öðru.


Við sem að námskeiðinu stóðum urðum öll mjög leið þegar það var lagt niður. Ef ég man rétt var 2018 síðasta árið. Norræna ráðherraráðið hefur þrengt mjög að fjármögnunarmöguleikum svona námskeiða. Það er meira að segja reglulega útlit fyrir að hið fræga Debutantseminarie, þar sem saman koma norrænir fyrstubókahöfundar og hafa gert síðan 1964, verði lagt niður. Þar hef ég bæði verið nemandi og kennari. Debútantanámskeiðið hefur samt með herkjum bjargast fyrir horn – hingað til – en það þarf líka að bjarga því árlega og alltaf með einhverjum hundakúnstum af því ráðið er eiginlega hætt að úthluta föstum verkefnastyrkjum. Allt á að vera nýtt og rekið fyrir lágmarksfé – svo dagskráin er rýrri, færri gestakennarar, styttri ferðir, ekki hægt að staðfesta neitt fyrren á síðustu stundu og svo framvegis.


En jæja. Nú ætla ég að lufsast í sturtu og fara út að flannera.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page