Skogsröjet – samantekt

Það eru allir í bleikþvottinum þessa dagana og því var ekkert öðruvísi farið á metalfestivalinu Skogsröjet í Rejmyre á síðustu helgi þar sem einn torgsalanna hafði kolefnisjafnað suðurríkjafánann (sem er klassískt þungarokkstákn ofan í allt annað) með regnbogafána samkynhneigðra.


Næstu fánar fyrir neðan á stönginni eru hefðbundinn sjóræningjafáni með hauskúpu og beinum og svo Liverpool-fáni. Ég var einmitt búinn að vera að velta því fyrir mér hvernig þetta yrði tæklað í metalheiminum. En þar er í sjálfu sér hefð fyrir að stefna saman ólíklegustu táknum og þetta því kannski viðbúið.

Og hvað gerðist svo á Skogsröjet? Ég missti af Jono og Magnum – við því var ekkert að gera – og Doro afbókaði vegna umferðarvandræða á þýskum autoböhnum (sem mig grunar að sé nýja „bassaleikarinn fingurbrotnaði“ afsökunin).

Skid Row ollu mér ólýsanlega miklum vonbrigðum. Hljómsveitin er á öðrum söngvara frá því Sebastian Bach var rekinn fyrir nærri 20 árum – fyrir að hafa bókað sveitina til upphitunar fyrir KISS – og eru svolítið einsog fimmta skolvatn af útspýttu hundskinni. Ég stóð samt stjarfur allan tímann og lét þetta yfir mig ganga. Sándið var lélegt, sérstaklega í byrjun, og nýi söngvarinn getur bara einfaldlega ekki sungið. Að vísu stendur um hann á Wikipediu að hann sé „þekktur fyrir ótrúlegt raddsvið sitt“ og að „brjóströdd“ (e. chest voice) hans ein og sér höndli „ríflega fjórar áttundir“. En ég held mér sé alveg óhætt að fullyrða af fenginni reynslu að það sé ekki satt, það er bara bull, hann heldur ekki einu sinni lagi. Hugsanlega nær hann úr hæstu tónum niður á þá dýpstu – á þessum fjögurra áttunda sviði – en það vantar þá meiripartinn af nótunum þar á milli.

Hlustið bara á þetta – byrjunina á 18 And Life:

//www.youtube.com/get_player

og svo þetta, einsog það er á plötunni:

Ég hefði alveg getað fyrirgefið Sebastian Bach að hafa misst röddina og notið þessa samt – en það er óafsakanlegt að ráða ósyngjandi söngvara þegar aðrir eru í boði. Hann hlýtur að vera alveg rosalega skemmtilegur í rútunni.

Á móti kom að Europe – með Joey Tempest enn í fararbroddi – kom bara talsvert á óvart. Bæði þekkti ég fleiri lög með þeim en ég átti von á (þ.e.a.s. a.m.k. tvö ef ekki þrjú plús Final Countdown og Carrie) og svo voru þeir bara vel spilandi og með gott sjó (mér finnst samt einsog ég sé að glata rosalega miklum trúverðugleika við að viðurkenna þetta). Sirkabát annað hvert lag virtist vera af nýrri plötu og það var bara alltílagi efni. Svo var stemningin auðvitað sturluð – að hafa séð Europe spila Final Countdown í Svíþjóð – í miðri evrópukrísu – bætir mér eiginlega upp að hafa (rétt svo) misst af Scorpions spila Wind of Change við tíu ára afmæli múrfallsins í Berlín árið 1999.

Af yngri hljómsveitum leist mér best á stelpurnar í Crucified Barbara – og þar á eftir strákana í Hardcore Superstar. Stelpurnar í Thundermother voru flottar líka en máttu gjalda fyrir lélegt sánd (það var eiginlega regla á öðru sviðinu að sándið væri slæmt í byrjun, einsog hljóðmaðurinn væri eitthvað ringlaður).


Ég var illa stemmdur á Dream Theater. Þeir eru mikið í því að vera bara fáránlegir virtúósar og eiga það alveg skuldlaust (ég veit ekki hvort nokkur hljómsveit rokksögunnar stenst þeim þar snúning) en það vantar aðeins í þá stuðbandið, það verður alveg að viðurkennast. Það er einhver leiði í þessu proggrokki, þótt maður geti í sjálfu sér staðið á öndinni líka af aðdáun yfir spilamennskunni.

Bloodbound voru góðir – en samt einhvern veginn furðu óeftirminnilegir. Ég man ekkert nema að mér fannst gaman.

Udo Dirkschneider og félagar í U.D.O. áttu stórleik. Gítarleikararnir voru báðir af þeirri tegundinni sem virðast hafa vaxið saman við hljóðfærin sín einhvern tíma í fyrndinni og eiga þar með álíka erfitt með að hrista út úr erminni epísk gítarsóló eða þéttriðin metalriff og aðrir eiga með að klóra sér í rassgatinu. Það skiptir auðvitað engu máli fyrir rödd Udos að hann skuli eldast – stíllinn er þannig að það gerir eiginlega bara gott betra, hann eldist einsog sá gamli stálraspur sem hann er – og melódíurnar eru bornar uppi af hljómsveitinni (sem syngja líka bakraddir og eru sirka hundrað árum yngri en Udo – og var væntanlega talið það til tekna í ráðningarferlinu að geta haldið lagi, annað en nýja söngvaranum í Skid Row).

Ég tók þetta myndband af sólói sem verður að Für Elise og rennur svo í lokin á Accept-slagaranum Metal Heart (sem þeir voru að spila áður en sólóið hófst – þetta er svipað á plötunni).

//www.youtube.com/get_player

Saxon, sem voru að fagna 35 ára starfsafmæli, er svo eiginlega sami pakki – nema Bill Byford gat og getur enn sungið. Hann er líka eini frontmaðurinn í svona stadiumrokki sem ég hef séð verða innilegur við salinn (ekki reyndar einsog ég sé alltaf á stórum tónleikum) – var alltaf að spjalla við einhverja krakka fremst í 5-10 þúsund manna krádi, einsog hann væri að spila á litlum pöbb. En þarna er maður auðvitað ekki síst að hneigja sig fyrir tónlistarsögunni – og tilbiðja við altari þungarokksins – og verða lítið barn á ný. Það er langt síðan ég hef skemmt mér jafn vel.

Þetta er myndband frá því í fyrra, af Crusader – þarna eru þeir með talsvert stærra set-up en í Rejmyre – en það kom ekkert að sök.

Ég sá í sjálfu sér nokkur fleiri bönd – en ekkert sem orð er á hafandi miðað við þessi.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png