Sjónarhæð

San Pedro Sula, önnur stærsta borg Hondúras og heimili okkar næstu tvo mánuði, var fram til ársins 2016 sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu. Árið 2013 voru framin 187 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Það jafngildir því að það væru framin um 600 morð á Íslandi á ári hverju.

Hondúras tilheyrir fátækasta hluta Suður Ameríku og ójöfnuður er með því mesta sem gerist í heiminum. Um tveir þriðju landsmanna lifa við fátækt og það fer ekkert framhjá manni. Hér er síðan eiginlega engin millistétt. Maður er annað hvort fátækur eða ríkur. Ég kann ekki á ginistuðla og get ekki lesið í GDP en Hondúras er nálægt botni allra lista sem hantera slíkar tölur. Landið er líka mjög íhaldssamt – fóstureyðingar varða sex ára fangelsisvist fyrir bæði fósturbera og lækni og annað er eftir því. Mjög margir flýja land til Bandaríkjanna og Mexíkó og óhemja af þeim eru sendir aftur til baka á degi hverjum – þúsundir.

Hér ráða tvö gengi ríkjum, MS-13 (Mara Salvatrucho) og Barrio 18 (eða 18th Street Gang). Mismikið eftir hverfum en hvergi ekkert. Bæði eru alþjóðleg glæpasamtök og eiga uppruna sinn í Los Angeles. Þessi gengi sjá um bróðurpartinn af vígum og skærum og eru að sögn mest í því að drepa þá sem eru með í leiknum – frekar en bara venjulega borgara. Ekki svo að skilja að þeir drepi bara glæpamenn – þeir drepa líka ríkisstarfsmenn sem þvælast fyrir þeim, þá sem þiggja ekki mútur eða neita að taka þátt í leiknum þegar þátttöku þeirra er krafist.

Af og til kemur líka fyrir að túristar eða útlendingar séu drepnir af hinum ólíkustu ástæðum eða ástæðuleysi en þeir eru almennt fremur aftarlega í aftökuröðinni. Þetta er oft dregið fram þegar er verið að hughreysta þá sem hingað koma – það er hvorutveggja vandamál hvað hingað koma fáir túristar, enda viðheldur það fátæktinni, og hvað er fátt fólk á götunum, enda eru fáfarnar götur ótryggari en fjölfarnar. Hins vegar verður ekki horft framhjá því heldur að sennilega er aðalástæða þess að útlendingar eru sjaldnar drepnir og rændir sú að þeir búa innan múra og eru sjaldan á svæðum sem ekki eru vöktuð af vörðum með skaftlausar haglabyssur og öryggismyndavélum.

Við búum hjá mági mínum í stórri íbúð í þrjátíuogfjögurra hæða kristalsturni sem stendur svo að segja einn í mikilli breiðu einbýlishúsa af öllu mögulegu tagi – serðir himnakuntuna, einsog Eyvindur Pétur orti um Hallgrímskirkju. Húsið heitir Panorama – Sjónarhæð. Vestan við okkur er mikið frumskógi vaxið fjall sem nær hápunkti sínum í Cerro Jilinco, tæpa 20 kílómetra héðan, ríflega þúsund metra hátt. Í fjallinu eru bústaðir líka fjölbreyttir. Ég sé hvítkalkaða lúxusvillu og kannski tvö hundruð metrum frá henni – í skjóli frumskógarins, líklega sést ekki á milli húsanna þótt ég sjái þau bæði héðan af sextándi hæðinni – er kofi úr gömlum afgangsspýtum og ryðguðu bárujárni. Upp að honum liggur moldarslóði og við slóðann stendur skilti. Haldið ykkur úti. Það stendur ekki en mér er sagt að skilaboðunum sé sérstaklega beint að íbúum Panorama.

Við Nadja erum með eigið herbergi og klósett og börnin deila herbergi með heimadrengnum. Veggirnir eru hvítir og auðir, það er hátt til lofts, og erfitt að fá leyfi til að hengja nokkuð upp. Mágur minn á ekki íbúðina heldur leigir. Við erum sjö talsins sem búum hér en það eru bara sex stólar í íbúðinni og virðist vandkvæðum bundið að fjölga þeim líka – allt praktískt er talsvert vesen þegar maður er læstur inni í kristalsturni. Heimadrengurinn fær jafnan að sitja í fangi foreldra sinna í kvöldmatnum. Hér úti í garði eru tvær sundlaugar, rennibrautir, leikvellir, fótboltavöllur, líkamsrækt og tennisvöllur. Til að komast út í garð eða upp með lyftunni stingur maður fingrinum í fingrafaralesara. Við sundlaugina eru bara börn og konur og flestar kvennanna eru barnapíur. Ég er eini karlinn sem ég hef séð í lauginni. Ungir karlar eru svolítið á fótboltavellinum og í tennis og í ræktinni. Annars eru þeir í vinnunni – hér búa þingmenn, forstjórar og mikilvægari millistjórnendur og allir vinna þeir að lágmarki tólf tíma á dag.

Í þrjú hundruð metra göngufjarlægð er kaffihús en þangað fer enginn. Að minnsta kosti ekki gangandi. Heimilisfólkið hér hefur einu sinni farið þangað en var svo varað við því af nágrönnum sem höfðu orðið varir við ferðir þeirra að glæpamenn gætu farið að fylgjast með þeim og náð þeim þegar þau væru farin að telja sig örugg. Kannski í þriðju eða fjórðu ferð. Það er ómögulegt fyrir utanbæjarmenn – bláeyga norræna dreifara – að átta sig á því hvað er bara noja og hvað er raunverulegt efni til að óttast. Ég man að þegar Nadja kom fyrst vestur varaði ég hana við að fara að hlaupa upp á fjöll án þess að vita hvert hún væri að fara eða gera – enda lendir fólk reglulega í sjálfheldu (bara í vikunni sátu tveir ungir heimamenn fastir í langan tíma uppi í Naustahvilft og þurfti þyrlu til að ná öðrum þeirra niður). Það myndi enginn stoppa okkur í að fara á kaffihúsið – held ég – en það myndi enginn mæla með því heldur. Ég vildi gjarna geta nýtt það – ég sit læstur inni í svefnherbergi á daginn við skriftir, uppi í rúmi af því stólarnir eru allir frammi og ekki skrifborð í öllu húsinu.

Það er margt sem berst um í höfði mér og í hjartanu. Á sama tíma og lífið hérna í kristalsturninum er fullkomlega óverjandi á svo margan hátt er algerlega óhugsandi að ætla út fyrir múrinn í göngutúr með börnunum. Það er líka óþægilegt að útskýra þetta allt fyrir Aram Nóa og Aino Magneu. Ekkert af þessu kemur manni í sjálfu sér á óvart en það er annað að þurfa að takast á við hlutina en að hugsa bara um þá – að standa frammi fyrir þeim og þurfa að útskýra þá fyrir einhverjum sem tekur orðum manns alvarlega. Það er einsog tannhjólin í heilanum hreyfist hægar, einsog myllan ráði ekki við að mylja allt sem í hana er troðið – maður hefur ekki undan. Við tölum mikið um Víetnam – speglum þessa reynslu í hinni, þegar við bjuggum í Hoi An. Þetta er einsog nótt og dagur.

Það er undarlegt að segja það en kofabrjálæðið var verst fyrsta daginn. Þá var maður enn flugþreyttur og einhvern veginn svo bjargarlaus. Fyrsta tilfinningin sem greip mig þegar við komum hingað á „hótelið“ – af því þetta er alveg einsog að vera á hóteli – var að vilja fara burt. Ekki aftur heim, eða þannig, bara út í smá stund – til að anda. Síðan þá höfum við þó farið í tvo leiðangra – með bíl – annars vegar í verslunarmiðstöð og hins vegar í súpermarkað. Það er ekki merkilegt en þetta eru samt staðir utan múranna – „eðlilegir“ staðir – og léttir svolítið á spennitreyjunni. Því sá sem læsir aðra úti læsir auðvitað sjálfan sig inni líka.

Ég þarf að skrifa mikið í sumar en við ætlum samt að reyna að komast eitthvað. Það eru ekki allir staðir í landinu jafn ótryggir og San Pedro Sula og það er auk þess alveg hugsanlegt að við bregðum okkur eitthvað út úr landinu. Það er ekki langt til Guatemala og þar er ástandið víst allt annað.

2 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png