top of page

Sigur athyglinnar


Ég lauk aldrei við síðasta pistil. Ég held ég hafi ætlað að spyrja hvort maður væri hræddastur einn? Og hvort það væri þá ekki eitthvað fallegt við það – að maður sækti öryggið í aðra, í samfélagið, frekar en einmitt að maður óttaðist fólkið í kringum sig (sem maður gerir áreiðanlega ef maður hefur heimsmynd sína úr fréttatímunum, sem sýna auðvitað undantekningarmynd af samfélaginu en sem margir telja raunsanna).


***


En pistill dagsins á auðvitað ekki að fara í að ljúka þriðjudagspistlinum. Sérstaklega ekki vegna þess að ég skrifaði ekki stakt orð í gær (en það var bara vegna þess að ég var on a roll í skáldsögu – það gafst enginn tími).


Í dag var ekkert veður til að fara út að hlaupa og þá brá mér ég í líkamsræktarstöðina og hljóp á hlaupabretti í staðinn. Hlaupabretti eru góðir staðir til þess að láta hugann reika – þar er ekki umferð eða fólk með hunda eða krakkar á Hopp-hjólum eða óvænt hálka heldur líður maður bara átakalaust ... tja ekki áfram. Maður líður kyrr, einsog í lausu lofti. Og bara hugsar.


Í dag fór ég að hugsa um fólkið sem er alltaf að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Og almennt hvað maður geri til þess vekja athygli á málstað sínum.


Mér finnst í sjálfu sér ekkert skrítið að fólk sem trúir heitt á sinn málstað beiti alls konar aðferðum til þess að berjast fyrir honum. Það á alls ekki síður við um málstaði sem ég trúi alls ekkert á – mér finnst til dæmis ekkert skrítið að þeir sem álíta þungunarrof vera barnamorð gangi mjög langt. Ef ég grunaði fólk um skipulagt barnamorð myndi ég vonandi gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að stöðva það. Eiginlega þykir mér hitt skrítnara, að til sé fólk sem álítur þungunarrof vera skipulagt barnamorð og gerir ekkert. Að því sögðu er ótrúlegur fábjánaskapur að hafa þannig skoðanir á þungunarrofi – og beinlínis óhugnanlegt að níðast á þeim sem nýta sér slík úrræði. Bara svo það sé sagt.


Hvað um það. Mér finnst líka ótrúlegur bjánaskapur að skvetta málningu á málverk til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun. Ég trúi á fegurðina og listina og að hafi mannlífið einhvern tilgang þá sé hann að finna í fegurðinni og listinni – já og ástinni – án þeirra má þessi pláneta mín vegna stikna í helvíti. Sá sem gerir listina vísvitandi að óvini sínum gerir mig líka að óvini sínum.


En ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég upplifi þessa gjörninga öðruvísi en þegar Kodduhópurinn fyllti Floru Islandica – vandað risaprent af Flóru Íslands, með teikningum Eggerts Péturssonar af íslenskum blómum – af matarleifum og kallaði „Fallegustu bók Íslands“. Ég er ekki alveg viss. Kannski vegna þess að niðurstaðan var nýtt listaverk; kannski vegna þess að til voru 499 ósködduð eintök af Floru Islandica. Kannski vegna þess að verkið, Fallegasta bók Íslands, birtist á sýningu í stóru samhengi hrunkrítíkur og með því að hafa listina með voru þau í einhverjum skilningi líka að gefa í skyn að þau sjálf – listamennirnir, listin – væru ekki stikkfrí. Það var punktur með því sem mér fannst meika sens.


Gjörningur málverkamálaranna er ekki gagnlegur – ég hef enga trú á að hann afli málstað þeirra neins fylgis, þvert á móti – en það er samt ekki það sem truflar mig. Það er eitthvað annað. Og ekki er það að málverkin séu ónýt – þau eru varin gleri, þetta er árás á listina en hún er táknræn.


Svarið sem er gjarnan gefið um þennan gjörning er eitthvað á þá leið að þessi „ómetanlegu“ málverk megi sín lítils gagnvart framtíð alls lífs á jörðinni, sem sé það sem sé í húfi. Og hver ætlar að mótmæla því? Ef til jarðarinnar kæmu geimverur sem hótuðu að sprengja annað hvort upp allt þéttbýli á jörðinni eða Sólblómin eftir Van Gogh þá myndum við leyfa þeim að sprengja upp Sólblómin. Og sennilega myndum við hleypa þeim í Sólblómin jafnvel þótt miklu færri líf væru í húfi.


Og er þetta þá ekki bara allt í góðu? Málverkin eru heil, málstaðurinn fékk umræðu, heiminum er bja ... eða þið vitið, við höfum allavega eitthvað að tala um næstu vikuna. „Þetta vakti athygli“ einsog þau segja – sem ætti auðvitað að vera slagorð þeirra sem stunda stjórnmál í anda Donalds, þeirra sem stunda listir metsölulistanna, list hins hreina impakts. Sem þetta er – vinstri-trumpismi – og líklega er það bara það sem fer í taugarnar á mér. Þetta er árás sensasjónalísku heimskunnar – ekki bara á listaverkin heldur á vitundir okkar sem látum okkur heiminn varða. Þetta er móðgun við vitsmuni okkar.


Kannski var eina niðurstaða gjörningsins þá sú að vekja athygli á því hve einskisnýt listaverk eru – sem þau eru, þau þjóna engum tilgangi, ekki utan þess sem þau gera hverjum og einum, þau eru ekki verkfæri. Lag er bara lag. Ljóð er bara ljóð. Og þar með liggur beint við að rústa þeim bara, ef minnsti séns er á að það bjargi jörðinni.


Á hlaupabrettinu velti ég fyrir mér ýmsum öðrum aðferðum sem mætti beita til þess að vekja athygli á loftslagshlýnun, sem gætu náð svipuðum árangri, þ.e.a.s. vakið athygli og umræðu – og verið þess virði ef gengið er út frá því að framtíð alls lífs á jörðinni sé í húfi.


Hryðjuverk koma auðvitað fyrst upp í hugann – og var mikið notuð taktík í Evrópu á seinni hluta 20. aldarinnar. Baader Meinhof, ETA, IRA – Unabomber var á svipuðum slóðum. En það hlýtur að vera margt vægara hægt að gera en að sprengja fólk og hús og annað í tætlur. Til dæmis mætti fara inn á bókasöfn og safna saman bókum til að brenna? Er það ekki meira að segja eðlislíkt þessum málverkagjörningum? Langflestar þessara bóka eru til á öðrum bókasöfnum hvort eð er. Gjörningurinn væri táknrænn á sama máta. Bækur eru neysluvara, neysla er vond, og bækur eru þar með vondar og svo margar þeirra alls ekki um loftslagshlýnun – til dæmis mörg leikrit Becketts, ef ég að taka dæmi algerlega af handahófi. Það væri hægt að ryðjast upp á svið á tónleikum og skemma hljóðfærin, hrinda ljóðskáldum sem eru að selja bækur sínar á börum, pissa á glerskápinn sem geymir handritin, setja covid-hor á leikskrár leikhúsanna, fella útvarpsmöstrin og svo framvegis. Svo mætti kannski taka íþróttamenn fyrir líka – skrúfa laus dekkin á reiðhjólum þeirra, grafa felligildrur á gönguskíðabrautunum, setja kláðaduft í sundskýlurnar og skíta í sandinn sem langstökkvararnir lenda í. Kannski mætti líka koma saman og brjótast inn í handavinnustofur grunnskólanna til þess að skvetta málningu á teikningar barna? Hvað eru nokkur grenjandi börn samanborið við framtíð alls lífs á jörðinni? Frábært fréttaefni og þar með frábært fyrir málstaðinn.


En svo gæti maður sagt að nei, ekkert af þessu sé sérstaklega góð hugmynd, og það skipti máli þegar maður fremur táknrænan gjörning að maður sé sæmilega táknlæs og velji af kostgæfni hvern og hvað maður skilgreinir sem óvin baráttu sinnar. Það er enginn sigur fólgin í því einu að „vekja athygli“.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page