Sóttkvíar, Gæska og Peps

Það er búið að aflétta hömlum á bólusetta að mestu leyti – bæði á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur og ytri landamærum Íslands. Sem þýðir að Nadja og börnin komast vandræðalítið með ferjunni frá Gautaborg til Fredrikshavn og inn í Ísland. Ég aftur á móti fæ ekki bólusetningu í þessu jävla satans rassgati – aðallega af því íslenska og sænska kerfið tala ekkert saman, þetta er eins konar samstarf í því að vera ósammála og sýna enga samstöðu – og þarf að bóka (dýrt) PCR-próf í Gautaborg fyrir brottför úr landi, sem ætti svo að duga mér til að komast um borð í Norrænu í Hirtshals. Þar verð ég aftur prófaður strax og ég kem um borð – af einhverjum orsökum þarf maður að borga fyrir það próf, þótt PCR-próf séu annars ókeypis í Danmörku (skilst mér). Það er nokkur bót í máli að sóttkví hefst í raun strax og ég kem um borð – og ég er frjáls til að fara um allt og sleikja allt og alla einsog mér sýnist meðan ég er ebb í bátnum. Sem er tvær nætur. Ég þarf svo væntanlega að sitja í þrjár aukanætur á hóteli á Egilsstöðum og þá má ég ekki svo mikið sem anda á aðra. Og Nadja og krakkarnir verða þá annað hvort að bíða eftir mér eða halda áfram án mín.

Þessu fylgir nokkur existensíalískur leiði. Það eru allir svo glaðir og kátir að vera sloppnir úr þessum covid-höfuðverk. Nema ég! Mér líður svolítið einsog ég hafi verið valinn síðastur í liðið eftir að hafa eytt ári í að bíða eftir leiknum. Geggjað spenntur og er svo sagt að vegna ytri aðstæðna þurfi ég að sitja á bekknum allan tímann. En ég fái að vera í búning á meðan. Þetta er svolítið antíklímax.

Til þess að PCR-testið mitt dugi mér bæði yfir dönsku landamærin og upp í ferjuna sólarhring síðar þarf ég að taka það sennilega 31. júlí – af því við komum seint til Gautaborgar 1. ágúst (ekki tími til að taka prófið þar og bíða) og förum svo yfir til Danmerkur morguninn eftir. Morguninn 3. ágúst er ég þá á mörkunum með að PCR-testið sé enn gilt. Annar möguleiki er að keyra eldsnemma til Gautaborgar og taka rándýrt (50 þúsund vs. 25-30 þúsund) PCR-test og fá niðurstöðurnar á fjórum tímum. Nei, sennilega myndi mér duga 12 tíma opsjón.

Ég efast um að þessu verði aflétt áður en ég fer heim (3. ágúst) – þótt það gæti svo sem gerst. Það eru svo fáir sem þurfa (eða velja) að ferðast óbólusettir – og hreinlega verða sennilega mjög fáir evrópubúar óbólusettir í ágúst. Sem aftur þýðir að þrýstingurinn er enginn – óþægindin lenda á svo fáum. Og taugaveiklunin er og verður í yfirgír næstu misserin. Þess utan hefur þetta þau (að sumum finnst æskilegu) aukaverkun að hefta för þriðja heims skrílsins – mörkin milli „okkar“ og „þeirra“ verða skarpari. Ég tala nú ekki um ef bólusetningarleysið þar fer að verða til þess að önnur og verri afbrigði vírussins dúkki upp hjá „okkur“ næstu misserin.

En ég er líka nógu svartsýnn til að hluti af mér telur að það sé allt eins líklegt að það verði öllu skellt aftur í lás áður en við komumst heim. Smá Delta, smá Gamma, smá Epsilon – ruggi báturinn verður sennilega ekkert hikað. Það myndi nú varla duga til að halda okkur úti en það gæti gert heimferðina erfiðari og dýrari. En það er nú ekki líklegt. Held ég. Vona ég. Það er það áreiðanlega ekki.

Svo þarf ég náttúrulega ekki annað en að mælast jákvæður til að vera fastur í nokkrar vikur í viðbót.

En herregud hvað ég hlakka til að koma heim. Ég er alltof heimakær á fullorðinsárum fyrir svona langa útvist. Þegar ég var yngri vildi ég helst alltaf vera á ferðalagi – og svo sem kann ég ágætlega við það ennþá. En það er annar móður líka, að vera einn og ábyrgðarlaus, annar handleggur.

***

Ég er búinn að lesa inn alla Gæsku fyrir Storytel. Nú erum við að ræða næstu skref. Hugsjónadruslan er líklegust. Annars er Studio Västerås liðið komið í sumarfrí og ég verð farinn þegar þeir koma aftur. En Gæska ætti sem sagt að detta inn einhvern tíma fljótlega.

***

Peps Persson lést í gærmorgun. Ég hef fjallað um hann á blúsblogginu. Af því tilefni er Blues på Svenska plata vikunnar.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png