Síðasta flugferðin

Jæja. Nú fer að hægjast á jólabókaflóðinu, fyrir mína parta a.m.k. Það er búið að vera mjög gaman en aðalpartíið er samt eftir. Útgáfuhófið verður haldið á Dokkunni á Ísafirði næsta föstudag. Einlægur Önd verður auðvitað þemað en ég hugsa að ég lesi ekkert upp úr henni – nema ritlistaræfinguna sem ég ætla að láta gesti þreyta. Ég er enn að raða upp tónlistaratriðum en botninn í kvöldið slær sing-a-long hljómsveitin „Bubbi Morthens“, sem leikur bara lög eftir Bubba Morthens – en í henni erum við Rúna Esradóttir, Skúli „Mennski“ Þórðarson og Örn Elías Mugison. Ég er svona næstum ákveðinn í því líka að spila sjálfur jólablúsinn hans Bobs Dylan sem ég tók upp fyrir Blús Mánaðarins síðustu jól (en verð þá að rifja upp – ég man þetta ekki).


Mig vantar enn þrjú stutt tónlistaratriði önnur en það er ekki vegna þess að ég hafi engan að spyrja.


Ég á 65 baðendur og fólki verður boðið að taka eina með sér heim – og þá munu samkvæmt sóttvarnarhámörkum a.m.k. 15 endur ganga af. Ég reikna a.m.k. með því. Núverandi takmarkanir gilda fram á miðvikudag og mér finnst sennilegt að þær haldi sér – ef það verður ekki einhver omíkron sprenging, Þórólfur er með fingurinn á gikknum. Mér finnst a.m.k. mjög ólíklegt að það verði einhverjar rýmkanir – ekki að maður þurfi þær mikið í bókabransanum.


Fyrst og fremst á þetta bara að vera veisla. Ekki auglýsing fyrir bók, ekki plögg, ekki afsökun til að herja á samfélagsmiðla, heldur veisla. En það verður samt bóksali á svæðinu!


Ég sit annars á Reykjavíkurflugvelli. Hér er krökkt af öllum helstu skemmtikröftum landsins – ég gæti best trúað því að á Ísafirði sé löng biðröð af menntaskólanemum á leiðinni í hraðpróf einhvers staðar. Ef þessi vél hrapar verður það svartur dagur fyrir íslenskt grín, íslenskt rapp og íslenskt indí.


Ég sagði við einhvern um daginn að frá því ég eignaðist börn hafi ég varla farið upp í flugvél án þess að verða hræddur um líf mitt. Þetta eru auðvitað ýkjur – ég svitna ekki og þarf ekki róandi og þetta er ekki alveg undantekningalaust – það var svo rólegt að fljúga hingað í fyrradag að ég varð aldrei hið minnsta órólegur. Annars er ég alltaf sannfærður um að sennilega sé vélin að fara að hrapa og tek því bara frekar æðrulaus – þetta hefur komist upp í vana. Hugurinn tekur við og minnir mig á að þetta hafi ég nú líka sagt síðast – það sé hreinlega ekkert að marka mig.66 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png