top of page

Rithöfundar sem ég þekki



„Þekkirðu hann?“ „Þekkirðu hana?“ spyrja börnin mín oft ef það birtist einhvern rithöfundur í sjónvarpinu. Mjög oft er svarið já. Landið er lítið og stéttin fremur sósíal. Í gær var það Sjón og ég þurfti að benda þeim á að þau þekktu hann nú eiginlega líka. Þau Ása komu í kaffi á Tangagötuna þarsíðasta sumar. 20 mánuðir eru auðvitað eilífð í lífi barns.


Ég hef stundum hlustað á hljóðbækur þegar ég er að keyra suður og stundum eru þær lesnar af höfundi og stundum er það einhver sem ég þekki og þá er það næstum einsog að keyra með vini. Sem samkjaftar að vísu ekki en er að sama skapi búinn að íhuga vel hvað hann ætlar að segja. Þannig leið mér eftir Sofðu ást mín fyrir nokkrum misserum. Einsog Andri hefði verið mér samferða. Í fyrradag hlustaði ég líka á Hermann Stefánsson spjalla við Ásgeir H. og Steinunni Rögnvalds í Menningarsmyglinu. Hermann þekki ég mest, Ásgeir smá og Steinunni held ég bara ekkert – enda er hún í annarri stétt. En það var samt einsog að hitta vini á kaffihúsi. Og samt ekki. En vinalegt allavega. Þau voru að ræða Merkingu eftir Fríðu Ísberg sem var einmitt í sjónvarpinu um daginn að fá Fjöruverðlaunin. „Ég þekki hana“, sagði ég þá grobbinn.


Einu sinni var ég á bókmenntahátíð í Kaupmannahöfn og þá var einn dagskrárliður sem gekk út á að fjórum ljóðskáldum var komið fyrir í tveimur sófum sem stillt hafði verið upp gegnt hvor öðrum á miðju kaffihúsi og stólum áhorfenda raðað í kring. Ég var eitt ljóðskáldanna. Svo fengum við fyrirskipun um að vera „afslöppuð“ og ræða list okkar og lesa af og til ljóð eða ljóðbrot hvert fyrir annað, svona bara einsog við værum að hittast á kaffihúsi í alvöru og yrðum innblásin af félagsskapnum. Einsog ljóðskáld gera. Ég held að ég hafi aldrei á lífinu tekið þátt í jafn ónáttúrulegum og þvinguðum viðburði. Við vorum öll einsog fífl. Og voru þó sumir þarna ýmsu vanir, einsog vinkona mín Madame Nielsen – sem hefur leyst upp ídentítet sitt og ögrað sjálfsmyndum og samfélögum á ótal marga vegu á löngum listferli.


Nú er ég að lesa Priset på vatten i Finistère eftir vinkonu mína Bodil Malmsten og mér líður svolítið svona einsog ég hafi verið að hitta gamlan vin. Bodil er auðvitað látin (farin burt, segi ég, af því hún þoldi ekki það orðalag). En Bodil hitti ég einmitt aldrei. Við skrifuðumst bara á skamma hríð. En einmitt þess vegna er lestur þess sem hún skrifaði einsog að rifja upp gömul kynni, af því þannig voru kynnin.


Þar á undan kláraði ég Glass eftir Eyvind Pétur. Sem er vinur minn og fyrrverandi kennari. Og bókin hluti af Ísfirskum bókmenntum, þótt það sé á mörkunum (ég held það sé réttast að kenna Eyvind við Arnardal). Þetta er stórmerkileg bók. Utan á henni er mikill reiðilestur í garð forlaganna sem vildu ekki gefa hana út en fátt um innihaldið. Glass er dystópía, gefin út 2007, sem gerist í heimi þar sem flestir betri borgarar lifa undir stórum skermi sem kallast Glass. Utan Glass er náttúran menguð en innan Glass er hún kontróleruð og stýrð í krafti kapítals og hins opinbera. Maður talar við tækin – ræðir við ísskápinn um hvað eigi að vera í kvöldmat. Valdakarlar metoo-nauðga konum í hálfluktum bakherbergjum. Fötluðum er útskúfað. Fólk talar ýmist íslensku, ensku eða blöndu af þessu tvennu.


Í sjálfu sér er umfjöllunarefnið ekki byltingarkennt – svona eru allar dystópíur, dálítið ýkt útgáfa af samtíma sínum – en það er samt annað bragð af dystópíu Eyvindar. Hún er bæði nokkuð myrkari, einsog það sé meiri sótthiti í henni, meira kaos, sögupersónunum líður verr og eru sjúkari og svo gengur hann lengra í beitingu tungumálsins en flestir höfundar. Þessa enskubræðings.


Þeir segja að búast megi við einni kerfisbilun á hverjum 750 árum, í mesta lagi. Það þýðir á mannamáli: Aldrei! Sabotage? Nei, við hlæjum bara að svoleiðis nokkru. Hvernig getur nokkur komist framhjá Absolute Security? Ekki lengur. Þeir fullvissa okkur um það. En mannleg mistök verða aldrei útilokuð. Jú, það er sjálfsagt rétt. En þetta er þrautþjálfað fólk. Og responsible. Það er öruggt. Nema maður vilji breyta út af venjunni. Þá er bara að segja það. Biðja Mommy to Reprogram þetta og þetta, skipta um kaffitegund, fá nýja FishType hjá einhverjum öðrum Producer.

Eitt af því sem gerir málið á bókinni sérstakt er líka að Eyvindur skrifar annars svo blæbrigðaríkt mál – yfirleitt þegar svona er gert er orðaforðinn takmarkaður, bæði í blandmálinu og í textanum í kring, en Eyvindur er maximalisti og sá hluti textans er augljóslega frá sama höfundi og skrifaði Landið handan fjarskans. Svo eru langir mónólógar af og til frá persónum sem tala bara ensku. Bókin er ekki bara ólæsileg ef maður er ekki sæmilegur í ensku heldur er hún full af orwellsku nýsproki – ensku nýsproki – sem er lítið útskýrt og maður þarf rýna í og túlka til að skilja hvað eigi að vera. SocGenDep, HeSInDem, EnSubChief og þess háttar orðum er stráð um alla bók. Þá má nefna að afstaðan til tungumálsins, þessa breytinga, er ekki einhlít – hér er t.d. samræða föður og sonar (sonurinn er byltingarsinni, faðirinn að vakna til):

– Hvað ertu að hugsa? Áttarðu þig ekki á því hver þú ert eða hvar þú ert staddur? – Ég? Ég er teenager, typical. Í DemReg er ég 11866880184-AZC. Hvað C er? Don't fuckin' know. Ætli secretið sé ekki þar? Þú hlýtur að vita þetta. Þú ert the real system, man! Ég ætlaði að segja að það þýddi ekkert að vera reiður við mig. Ég þagði, greip bara þétt um handlegg hans. Hann varð rólegri. – Auk þess er ég Y-11, það sá ég hjá copsunum. Ég veit ekki heldur hvað það þýðir. Þeir kýldu mig, þegar ég spurði. Svo sögðu þeir að ég væri fuckin HackerBug. Það er næstum því satt. Þeir kýldu mig líka fyrir það. – En hvers vegna ertu að þessu? – Because God has spoken to me, and God, he said: „Sonny, you must find out who's running the fuckin shit.“ – Talaðu móðurmálið þitt við mig, Sonur. – Er það tungumál þeirra fuckin pigfuckers, sem þú vinnur hjá? Við sögðum ekkert um stund. Ég var beygður, hann ekki síður, þótt hann reyndi að bera sig vel.

Ég hef lesið talsvert eftir Eyvind – eða allavega meira en flestir, sennilega er hann einn mesti utangarðshöfundur íslensks samtíma – hann á tvær skáldsögur sem nokkru máli náðu (Landið handan fjarskans vann Laxnessverðlaunin upp úr aldamótum – sem voru vel að merkja veitt dulnafnsmerktu handriti – og Þar sem blómið vex og vatnið fellur er framhaldið). Glass ber höfundarmerki hans en er samt á svo rosalega ólíkum slóðum frá hinu að ég hefði sennilega ekki borið kennsl á höfundinn ef nafn hans hefði ekki staðið utan á henni. Þetta er meira framúrstefnuverk að formi og innihaldi – ég hugsaði heilmikið um Burroughs, og jafnvel frekar um bíómyndina Naked Lunch en skáldsöguna sem hún er byggð á, og líka um Joyce og BladeRunner. Sennilega birtist hún á röngum tíma og röngum stað og náði því ekki máli – og sannarlega gerir beiskur káputextinn henni enga greiða. Hann eiginlega öskrar á lesandann að hunsa þetta einsog hverja aðra nýaldarspeki og skáldagrát misheppnaðs listamanns. Og svo er bókin augljóslega ekki mjög „2007“.


Björn Þór Vilhjálmsson, vinur minn – eða, hann bauð mér allavega einu sinni í mat, nema það hafi verið Guðrún Elsa, konan hans, sem bauð mér – skrifaði um bókina í Morgunblaðið að hún þjáðist af frásagnarlegri deyfð og þvældri persónusköpun og að söguþráðurinn yrði á köflum hálfgert moð. (Það má koma fram að á sömu síðu í sama blaði sallar Björn Þór niður tvær aðrar nýjar bækur – eina eftir Einar Kára og aðra eftir Fritz Má Jörgensen – það eru breyttir tímar). Ég veit ekki hvort ég hef beinlínis áhuga á að mótmæla þessari lýsingu þótt ég taki ekki undir neikvæðnina í henni – ég er ekki beinlínis ósammála henni. En það er kannski einmitt hluti af anda bókarinnar, stemningu þessa framtíðarheims – það er þjáning og deyfð og heilaþoka yfir öllu. Fólkið rennur að einhverju leyti saman í einhvern undarlegan manngraut. Einsog einmitt oft hjá Burroughs – þetta er innblásið æði og maður er ekki alltaf alveg viss hvað sé að gerast og þaðan af síður hvers vegna. Það er líka alveg augljóst, þótti mér, að það er ekki vegna óvæginnar gagnrýni á samfélagið og valdamenn þess sem bókin hefur ekki fengist útgefin á sínum tíma heldur vegna framúrstefnulegs formsins og málsins – sem er svo aftur að mínu mati hennar sterkasti kostur. Nóg er víst af bókum sem líkjast hver annarri í þessari veröld, að maður fari að slá hendinni mót þeim sem skera sig úr.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page