Rango, Kvika, Aftur & aftur, Eitur fyrir byrjendur og Monument Valley II

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Rango. Vestra um samnefnt gælukameljón sem villist í villta vestrinu og lendir í smábæ sem er undir hælnum á illmennum. Einsog gefur að skilja er Rango reyndar nafnlaus einsog allar alvöru vestrahetjur – hann velur sér nafnið Rango af skilti. Rango er hugleysingi en góður leikari og tekst að sannfæra alla um að hann sé mikill byssufantur – klaufast svo til þess að drepa hauk sem ofsækir bæjarbúa og er gerður að skerfara. En bæjarstjórinn hefur sölsað undir sig allt vatn bæjarins og bæjarbúar eru bókstaflega að drepast úr þorsta. Nú þarf Rango að taka á honum stóra sínum – en auðvitað ekki fyrren hann verður fyrst vonlaus um eigin getu, rekst á „anda vestursins“ og fær sjálfstraustið aftur og klaufast enn á ný til þess að bjarga öllu.

Það er áhugavert hvernig það er aldrei sá hæfasti í barnabókum sem bjargar málunum, heldur sá hugprúði, klaufalegi, indæli sem sveiflast milli góðlegs mikilmennskubrjálæðis og eyðileggjandi minnimáttarkenndar. Og hann bjargar yfirleitt ekki málunum með hæfni sinni – sem er ekki til staðar – heldur hugrekki sínu. Að láta bara vaða, reyna, gera sitt besta. Og aldrei aðstoðarlaust, vel að merkja, heldur með því að blása hinum í brjóst sams konar fífldirfsku.

Í myndinni er líka einhvers konar umhverfisádeila og kapítalísk ádeila. Hvorugt er óalgengt í barnaefni – og stórmerkilegt raunar hversu mikil kapítalísk ádeila kemur úr Hollywood almennt. Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni. Ekki ætla ég að verja kaupsýslumenn eða kapítalismann en það segir manni eitthvað að kapítalisminn skuli framleiða áróður gegn sjálfum sér – og maður verður alveg svolítið nojaður af því.

***

Ég las Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þetta er mjög stutt bók og skrifuð í stuttum einföldum mónólógum. Hún fjallar um stelpu sem byrjar með strák. Strákurinn er manipúlerandi kúgari og stelpan svona týpa sem vill að öllum líki vel við sig og setur því engum mörk í samskiptum. Eða í það minnsta ekki honum. Hann notar þetta til að ganga sífellt lengra og lengra – heldur framhjá og kennir henni um það, pissar á hana, tekur hana óviljuga í rassinn og svo framvegis og svo framvegis.

Söguröddin er rosalega ung – eða naív. Það skapar ákveðinn ugg. Manni finnst einsog stelpan muni aldrei segja stopp. Ég man ekki hvort það kemur fram hvað þau eiga að vera gömul í bókinni en mér finnst oft einsog þau séu 15 ára – þótt þau séu líklegri til að vera 25. Ég man eftir svona tilfinningum sem unglingur – bæði þessari ofsalegu löngun til að þóknast og þessari fórngjörnu ást en líka þessari rosalegu löngun til þess að stýra og láta elska sig (ég held að svona skíthælahegðun sé oft það – fólk að láta reyna á ást hins, láta hinn aðilann sanna ást sína með að þola viðbjóðinn).

Bókin er svolítið „ritlistarleg“ – einsog margar bækur síðustu árin. Ég kann ekki að greina það betur, eða hef ekki lagt mig í það, en það er einhver svona tónn – og tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið „hugsaðir til enda“. Að jafnaði er það talið gott en ég er alls ekki sérstaklega hrifinn af því. Það vantar tilraunina og óvissuna. Ég er nánast að kalla eftir því að bækur séu verr skrifaðar, eins undarlega og það nú hljómar, það sé meiri tensjón í sjálfri hugsuninni.

Ég hugsaði svolítið um feminískt raunsæi vs. sósíal raunsæi. Það er hættulegt að greina þannig eigin tíma í bókmenntum en mér finnst einsog við lifum á tímum feminísks raunsæis. Efnistök og boðskapur femínismans eru mikilvæg og stíllinn á ekki að vera fullyrðandi eða debaterandi heldur presenterandi – reynslan er í forgrunni, reynsluheimar. Eitthvað sem hefur raunverulega gerst eða gæti raunverulega gerst eða er raunverulega að gerast – og presentasjón af tilteknum pólitískum veruleika þar sem X er undirokaður og Y undirokar. Ekki beinlínis greining á valdi – og raunar alls ekki – heldur sýning á valdi.

Þannig er Aftur & aftur eftir Halldór Armand, sem er önnur bók sem ég las í vikunni, alveg úti á túni. Hún er af Bret Easton Ellis / Douglas Coupland / David Foster Wallace skólanum. Mikil samtímagreining, miklar tíðarandaveiðar, langlokur um tækni og framtíð. Samt er hún reyndar ekkert úti á túni og rekst raunar alls ekkert á Kvikuheiminn – það er meira einsog þessar strákabókmenntir eigi sér stað á annarri tímalínu. Bergur Ebbi er þarna líka. Dagur Hjartar og Jónas Reynir eiga snertipunkta þarna inn en ekki jafn afgerandi.

Aftur og aftur fjallar um ungan strák sem lendir í því að verða forstjóri startöppfyrirtækis, nánast bara af því eigandanum finnst hann eitthvað svo töff. Og hún fjallar líka um eigandann – fyrrum trommuleikara í sveitaballabandi sem svo fer að smygla dópi en verður loks farsæll kaupsýslumaður. Báðir eru forréttindamenn – sá ungi er ráðherrasonur og sá eldri sonur útrásarvíkings sem lendir í fangelsi.

Ég las Kviku í striklotu á ströndinni í Útila meðan krakkarnir voru að snorkla og byrjaði svo á Aftur & aftur strax og ég kom heim og ég man að mér fannst fyrst einsog ég væri núna kominn inn í hausinn á stráknum í Kviku. Strákahaus sem er fyrst og fremst nógu upptekinn af sjálfum sér og því nýjasta sem ber fyrir augu til þess að eiga gríðarstóra blinda bletti (ég er að tala um söguhetjuna, vel að merkja, ekki höfundinn). Einsog hann hafi raunverulega engan áhuga á líðan einstaklinganna í kringum sig (en þeim mun meiri á stóru sögunni, samfélagslíðaninni). Enda lendir söguhetjan í því í tvígang að vera sagt upp af kærustum sem hann virkar annars frekar áhugalaus um – og það kemur honum gersamlega í opna skjöldu og hann verður mjög leiður. Þessi hugdetta entist ekki mjög langt inn í bókina – til þess eru þeir of ólíkir karakterar – en samt eitthvað. Reyndar eru karakterarnir tveir í Aftur & aftur nógu líkir í hugsun til að vera næstum sami maðurinn á ólíkum lífsskeiðum. Það vantaði talsvert upp á að aðskilja raddir þeirra – ef það var á annað borð ætlunin.

Báðar þessar bækur eru reyndar brjálæðislega áhugaverðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar. Ég veit ekki hvort það var bara einhver gremja í mér, þreyta eða annað, en þær náðu mér samt ekki og ég var sífellt að þræta eitthvað við þær og höfunda þeirra í huganum á meðan á lestrinum stóð. „Nei, kommon!“ sagði ég kannski við sjálfan mig inn á milli. Eitthvað þannig. Ég náttúrulega henti frá mér A Tale of Two Cities í pirringi í síðustu viku svo ég er kannski bara ekki í fíling þessa dagana.

En svo er það kannski líka einkenni á bókum sem eitthvað er varið í að maður hugsar talsvert um þær eftirá. Ég er enn að melta þessar báðar. Við sjáum bara hvað setur.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins gleymdi sér í gær. Aðra vikuna í röð. Horfum kannski á eitthvað á morgun (erum að gera annað í kvöld).

***

Þriðja bókin sem ég las þessa vikuna var Eitur fyrir byrjendur. Sem ég skrifaði sem sagt sjálfur og kom út fyrir 13 árum. Bókin sem ég var að klára og guð veit hvenær kemur út er (mjög sjálfstætt) framhald af henni og ég hafði ekki lesið hana síðan árið 2010. Þá kom hún út á sænsku og ég las hana í rútu á leiðinni á Littfest í Umeå svo ég væri fær um að svara spurningum upp úr henni. Þetta er eina bókin mín sem ég hef lesið í heild sinni eftir að hún hefur komið út og nú hef ég lesið hana tvisvar.

Reynslan af að lesa hana í rútunni 2010 var mjög spes. Mér fannst þetta mjög langur tími – fjögur ár – og hún rifjaði upp alls konar. Það eru senur í henni sem áttu sér stað í raunveruleikanum – áreksturinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar til dæmis, og strákurinn sem rífst dauðadrukkinn við hjásvæfu sína á Lækjartorgi var ég sjálfur og svo framvegis. En það var ýmislegt fleira smálegt sem var skrítið að lesa. Díteilar. Omeletta me tiri – til dæmis – einföld fetaostomeletta sem ég var vanur að gera en hafði gleymt. Siggi Gunnars vinur minn, sagnfræðingur og ljósmyndari frá Ísafirði, sagði mér einu sinni að hann hefði haldið dagbók sem barn og í hana hefði hann skráð mjög hversdagslega hluti. Til dæmis að hann hefði borðað seríos í morgunmat og farið í skólann og svo ekkert meira. En hann sagði að það væri ótrúlegt hvað þessir hversdagslegu hlutir gætu framkallað miklar og sérstakar minningar – það var einsog dagarnir lifnuðu við og skyndilega mundi hann þá einsog þeir hefðu gerst í gær. Það var svipað að lesa Eitrið þarna 2010 – omeletturnar og árekstrarnir tendruðu öll ljós í minninginum mínum frá sirka 2003-2006, sem eru sirka skemmtilegustu í nýhilfélagsskapnum, óreglu og ást og kaosi og kærleika.

Það var minna af svoleiðis núna og miklu minni nautn í lestrinum. Ég er búinn að vera á leiðinni að byrja á henni lengi en hef verið viðkvæmur fyrir textanum – vandræðalegur yfir honum og vildi að hún væri öll einhvern veginn öðruvísi. Það rann af mér á meðan ég las hana en kaflarnir eru sannarlega misgóðir og ég hafði augljóslega ekki nægan tíma til að skrifa hana – þetta er allt skrifað á kvöldin eftir vinnu á Bæjarins besta eða þegar ég var næturvörður á Hótel Ísafirði. Hins vegar kveikti ég á alls konar hlutum sem ég gerði ekki 2010. Til dæmis því að það eru allir með heimasíma og það er enginn með snjallsíma – fólk er að sms-a hvert annað til að láta vita hvar megi finna Noah Wyle og söngvarann í Darkness. Þá er alls staðar reykt inni – t.d. á Mokka. Fólki er fundið til foráttu að nenna aldrei að mynda sér skoðanir á neinu (ha ha ha!), það þykir skrítið að strákur sé að læra kynjafræði og svo framvegis. Alltíeinu er bókin orðin bók um fortíðina.

Og þá kannski ekki seinna vænna að gera framhald.

***

Við Aino lékum Monument Valley II á iPhoninum mínum. Fyrir fjórum árum lékum við Aram einmitt fyrri leikinn þegar við bjuggum í Víetnam. Ég er ekki mikill tölvuleikjakall lengur – þótt ég hafi mikið leikið alls konar leiki á unglingsárunum. Monument Valley er völundarhúsaleikur sem reynir á rýmisskynjunina og er afskaplega fallegur. Það er varla hægt að segja að það sé mikill munur á I og II. En þeir eru skemmtilegir og gaman að leika þá saman og síðast en ekki síst eru þeir voða fallegir.

***

Gítarleikarar vikunnar eru tveir. Keb Mo’ og Taj Mahal. Þetta lag er líka alveg frábært.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png