top of page

Postulahrossin


Fyrsti bíllinn kom seint til Ísafjarðar. Hér má sjá hann keyra inn Seljalandið áleiðis inn í Tunguskóg.

Það er hálfgerður millidagur eftir langa helgi. Ég er að fara suður á morgun og til Grikklands eldsnemma á fimmtudag. Skrifstofan er ennþá í rúst en ég nenni ekki að byrja að díla við hana. Ég er byrjaður að fá athugasemdir á bókina en ekkert byrjaður að bregðast við þeim enn. Og geri sennilega hvorugt fyrren ég kem aftur eftir tæpar tvær vikur. Ég reyni að telja mér trú um að það sé alltílagi en mér líður samt einsog hálfgerðu slytti. Svo er ég líka þreyttur eftir helgina. Á laugardeginum gekk ég til Bolungarvíkur og til baka (32 km) og fór svo í drykk hjá vinafólki – af því ég var óvænt barnlaus og stenst ekki freistingar. Á sunnudeginum var svo fertugsafmæli.


Ég er kominn með dálitla göngudellu. Einhvern tíma snemma í vor var ég að hlusta á Will Self tala um „psychogeography“ og flannerisma og hann sagði ýmislegt sem ég tengdi við – eða ýmislegt sem ég vildi tengja við. Muninn á því að ferðast á milli staða (eða um sinn heim) fyrir eigin vélarafli eða í farartæki; og þetta að horfa á alltaf á heiminn í gegnum skjá (sem rúður auðvitað eru). Svo veit ég ekki hvort það er til marks um krísu eða þroska að vera að leita eftir meiri raunveruleikatengingu. Kannski er það bara til marks um eitthvert síðkapitalískt sálarástand.


Mig langar – a.m.k. enn sem komið er – ekki neitt að ganga laugaveginn eða fara upp á mér ókunnug fjöll. Mig langar dálítið upp á fjöllin hérna í kring en mest langar mig bara að ganga til Flateyrar og Suðureyrar og Súðavíkur. Kíkja í sund eða borgara og rölta svo aftur til baka.


Ég hef oft flannerað um borgir þegar ég er á ferðalagi og held því sjálfsagt áfram – finnst mjög gott að ganga um nýja heima og jafnvel bara ráfa eitthvað út í loftið. Ég á magnaðar minningar af því að ganga einn um Istanbul, sem dæmi, frá því klukkan 7 að morgni og fram að miðnætti – og varla stoppað nema til að fá mér að borða. Einu sinni ráfaði ég um Rio í fimm daga í röð – án þess að hitta neinn eða gera neitt sérstakt eða eiga eitthvað erindi annað en að ganga um. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til New York var að ganga – með bakpoka – eftir Ocean Parkway endilangri. Hún er um átta kílómetrar. Það var fyrir misskilning, eiginlega, og í einhverri þotuþreytu – en það var líka dásamlegt.


Einu sinni gekk ég líka frá Rejmyre til Vistinge, í Svíþjóð – sú leið er eins óáhugaverð og Istanbul er áhugaverð en göngutúrinn er af einhverjum orsökum ekki síður minnisverður. Það er eitthvað sem breytist þegar maður gengur svona leið í fyrsta sinn. Hún verður önnur – líka þegar maður svo keyrir hana seinna. Óshlíðina hafði ég að vísu hlaupið áður – út að krossi og til baka – en það er skemmtilegt að sjá hvernig hún eyðist ár frá ári. Á endanum verður hún kannski hálfófær – að minnsta kosti er útlit fyrir að á einhverjum kafla verði á endanum ekkert eftir af veginum eða kantinum.


Ég hef vel að merkja óútskýrt antípat á Hopphjólum. Þau eru auðvitað annað vélarafl – þau eru aukin neysla, aukið drasl í þéttbýlislandslaginu, meira viðbót við bíla en staðgengill. Enn eitt appið. Enn ein áskriftin. En þau eru ekki skjár og þeim fylgir útivist og það eru ábyggilega ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið á bíl. En ég gæti best trúað að það séu líka margar ferðir sem fólk fer á hopphjólum sem það hefði annars farið gangandi. Og maður á að ganga. Ekki síst einmitt af því það tekur aðeins lengri tíma og manni á ekki að liggja alltaf svona mikið á.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page