Plokkfiskur fyrir meira en 100 manneskjur en minna en 40.000 krónur

Hráefni:
20 kíló af þorski úr Sjávarfangi (á ríflegum afslætti) 12 kíló af kartöflum 8-10 lítrar af Örnumjólk (gefins!) 40 gulir laukar 5 smjörstykki 6-7 bollar af hveiti Helvítis hellingur af karríi, massaman, aromat, nýmöluðum svörtum pipar, salti og bearnaise-essens

Aðferð:

1. Fyrst finnur maður stærsta pottinn í húsinu – þennan sem maður keypti í Góða hirðinum af því það var svo gott rúmmetraverðið á honum en maður hefur aldrei séð sér ástæðu til að nota. Svo leggur maður hann til hliðar og finnur einhvern annan sem er að minnsta kosti tíu sinnum stærri. 2. Í þessum ótrúlega potti a) sýður maður sturlað magn af fiski b) og eitthvað aðeins minna af kartöflum. 3. Í þessum ótrúlega potti – á jafnvel enn ótrúlegri eldavél – bræðir maður smjörið og steikir laukinn þar til hann er mjúkur. Ofan í ósköpin malar maður önnur eins ósköp af svörtum pipar áður en maður hrærir hveitinu saman við og bakar út sósuna með mjólkinni. 4. Þá skóflar maður þorskinum – með skóflu, vel að merkja, helst stórri snjóskóflu – út í þennan hyldýpispott allra eilífða og hrærir vel með skóflunni. Saltar með skóflunni. 5. Að síðustu skiptir maður matnum niður í minni potta og bragðbætir ýmist með engu (au naturel), karríi (gulur), massaman (rauður) eða bearnaise (súr).

Þetta ber maður maður fram á plastdiskum með plastgöfflum einsog rýmist innan fjárhagsáætlunar og hefur með því Örnumjólk í plastglösum og sælkerarúgbrauð úr Gamla bakaríinu á Ísafirði – á afslætti og fer með því um það bil 1.300 krónur fram úr fjárhagsáætluninni.


0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png