Pizza Forno og Pizza Escopazza

Við erum búin að endurbóka ferðina á lúxushótelið við ströndina. Ætluðum að fara á síðustu helgi en þurftum að hætta við vegna mótmæla – þjóðvegirnir voru meira og minna lokaðir – en förum nú á laugardag í staðinn. Það er alls ekkert víst að það gangi upp samt. Á föstudag eru nefnilega liðin tíu ár frá því hægrimenn/kapítalistar/herinn stálu hér völdum með fulltingi bandarískra yfirvalda. Ef mótmælendur kjósa að minnast þess, t.d. með því að gera byltingu, þá er ósennilegt að við komumst á ströndina.

Einangrunin á Panorama hefur annars bara aukist. Bíllinn er á verkstæði og eina leiðin úr húsi sú að taka leigubíl. Sem er í sjálfu sér ekki stórmál en við höfum ekkert látið það eftir okkur og þar með ekki farið úr húsi síðan í innkaupaleiðangrinum langa á laugardag. Eða ekki út fyrir grindverkið – og varla að ég hafi farið úr húsi í gær heldur, bara í nokkrar mínútur, annars hef ég bara setið uppi á herbergi og skrifað. Fór í ræktina og hljóp svolítið en hún er innanhúss.

Í herberginu er stór gluggi – svo að segja einn heill veggur veit út. Fyrir augunum hef ég alltaf frumskóginn og fjallið – þetta útsýni hér (þótt myndin sé tekin af svölunum í stofunni).


Það er líka talsverður fuglasöngur – mikið af smáfuglum niðri í trjánum og eitthvað af stærri ránfuglum sem sveima yfir. Ég veit næstum jafn lítið um fugla og ég veit um plöntur en segjum bara að þetta séu kólibrífuglar þarna niðri og kondórar uppi í loftinu. Mér finnst það hljóma sennilega – hljómar mið-amerískt. Nei, djók, þetta er ábyggilega eitthvað allt annað. Þrestir og mávar.

Þetta er svo útsýnið í hina áttina – yfir borgina. Upp úr þessu landslagi stendur reykur hér og hvar þegar mótmælin klímaxa. Það eru á að giska tveir kílómetrar niður í miðbæ.


Rafmagnið fer reglulega á Panorama. Það er svo sem ekki mikið áfall fyrir Vestfirðing að rafmagnið fari annað veifið en ég velti því fyrir mér hvernig sé þá með rafmagnið í öðrum húsum í öðrum hverfum. Innviðir hérna virðast almennt í tómu rugli – umferðin og umferðarstýring þar á meðal, mikið af gatnamótum þar sem væru augljóslega umferðarljós ef það væru til peningar fyrir þeim. Ónýtar götur, skrítnir botnlangar. Annars tekur fólk líka takmarkað mark á umferðarljósunum og læðist bara yfir ef það gefst glufa. Þá er auðvitað ekki drykkjarvatn í krönunum – en það er svo sem víða þannig.

Í gær rákust krakkarnir á einhverja stráka með dólg úti við laug. Þeir voru að sögn fram úr öllu hófi frekir og dónalegir, sífellt að hrindast og með læti. Nadja var eitthvað að íhuga að fara í móttökuna og reyna að komast í samband við foreldra þeirra til að ræða þessa hegðun. Ég sagði ekkert en ofandaði svolítið með sjálfum mér yfir að foreldrar þeirra væru ábyggilega bara einhverjir gangsterar og við myndum öll vakna með hrosshöfuð í rúminu í kjölfarið. Það er slatti af hrossum þarna niðri í skóginum, að því er virðist í lausagöngu, og sveðjur eru staðalbúnaður sem fæst í öllum matvöruverslunum. En svo nennti hún ekki að standa í því og ég andaði léttar.

Einn fylgifiskur þess að vera bíllaus er sá að við eigum alltaf minni og minni matvöru. Í gær tókst mér með talsverðri fyrirhöfn að búa til Hondúrskan reikning á Appstore svo ég gæti náð í appið sem maður notar til að panta sér mat hérna. Fyrst pantaði ég pizzu af Forno en þegar hún var ekki komin eftir klukkutíma pantaði ég af Escopazza og það virkaði betur. Hjónin á heimilinu ætluðu út að borða saman og planið var að erfinginn yrði heima hjá okkur en hann strækaði svo algerlega á það – ætlaði reyndar hvorki að fara með mömmu sinni (sem hann hefur nánast aldrei skilist við) leyfa henni að fara. Hélt bara í hana dauðahaldi svo hún færi ekki út – hann ætlaði að fá pizzu, horfa á mynd með okkur en hafa mömmu sína hjá sér. Það endaði samt með því að hann elti þau út. Forno-pizzan er enn ekki komin og ég veit ekkert hvað við borðum í kvöldmat í dag. Kannski deyjum við bara úr hungri á meðan við bíðum eftir að bíllinn komi úr viðgerð. Það er annað hvort það eða hringja á leigubíl.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png