top of page

Piparkökur


Á dögunum sat ég til borðs með fólki þar sem í boði var ein stolin vara og ein keypt. Sammæltist fólkið við þetta borð um að stolna varan væri ívið betri en sú keypta, öfugt við það sem segir í ævintýri Torbjörns Egner um Dýrin í Hálsaskógi. Þetta voru ekki piparkökur og kemur málinu ekki við hvað þetta var, þið verðið bara að reyna að ímynda ykkur það – þetta var einhver ægilegur lúxus og þetta fólk var ævintýralegur félagsskapur. Annars umgengst ég nú ekki mikið þjófa.


Ég nefni þetta bara vegna þess að síðasta sólarhringinn hefur staðið bretti af sænskum Göteborgs piparkökum við innganginn að matvöruversluninni Nettó á Ísafirði. Þessar piparkökur eru ekki til sölu og maður getur heldur ekki stolið þeim. Þessar piparkökur eru nefnilega gefins. Sennilega hefur innkaupastjórinn gert innsláttarvillu í jólapöntunina og pantað kíló fyrir hverja teskeið af piparkökum sem til stóð að Ísfirðingar og nærsveitamenn myndu neyta yfir hátíðirnar. Og því fór sem fór.


Ísfirðingar eru ekki þekktir af öðru en samstöðu, sérílagi þegar eitthvað mikið bjátar á. Við tökum höndum saman og við vinnum bug á yfirvofandi matarsóun. Við björgum þessum verðmætum.


Heima hjá mér er til alltof mikið af (heimabökuðum) piparkökum. Ég gat hins vegar ekki látið mitt eftir liggja – þannig lýsir samstaða sér ekki – svo ég tók eitt box. Boxið geymi ég síðan bara í vinnunni, enda yrði ég sennilega kjöldreginn ef ég kæmi með það heim og bætti því við fjallið sem býður okkar að vinna á þar. Ég er búinn að borða þrjár.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page