Pípuhattur á fjallvegum


Stundum, þegar ég hef verið að keyra einn um landið, dettur mér í hug að ég hafi kannski farið út af í síðustu beygju og sé óafvitandi orðinn vofa sem liðist um eftir einhverri eftirlífsútgáfu af landinu. Síðast þegar ég fór suður var það reyndar til þess að selja einn bíl og festa kaup á öðrum sem væri ekki jafn ógnvænlegt að keyra. Súkkan litla fylgdi mér í 9 ár – ég velti henni einu sinni í þannig loftköstum að þakið snerti aldrei jörðina. Og keyrði hana svo suður í viðgerð þegar búið var að draga okkur upp á veg. Ég sat fastur í henni á heiðum. Djöflaðist á upplestra um allt land. Flutti hana svo til Svíþjóðar með Norrænu og svo heim aftur ári síðar. Hér heima var hún mest notuð til að skjótast í sund eða á skíði eða í Bónus. Af og til fór ég með hana á timburlager Húsasmiðjunnar, lagði niður öll sæti og stakk nokkrum spýtum innum skottið og alveg fram undir hanskahólf – og svo stóðu þær aftan úr opnu skottinu og dúuðu meðan ég keyrði afar varlega heim. Yfirleitt með aðra hönd á stýri og hina á spýtunum ef ske kynni að þær færu að renna eitthvað til. Súkkan var fjórhjóladrifin og þess vegna ágæt í snjó en hræðileg í slabbi og þyngslum af því hún var svo létt – þá lét hún ekkert að stjórn. Svo var hún líka voðalega kraftlaus en að sama skapi sparneytin á eldsneyti. Þegar ég keypti hana var mín helsta krafa sú að ég gæti setið uppréttur í henni með hattinn á höfðinu. Nýji bíllinn er eiginlega meira geimskip en bíll. Hann er með rafmagn sem dugar í innanbæjarsnatt. Apple Carplay og stóran skjá og cruisekontról og leiðsögukerfi og dráttarkrók og hita í stýrinu og pláss í skottinu. Og það er líka þaklúga yfir framsætunum – sem kallar eiginlega á að ég fái mér pípuhatt.

33 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png