top of page

Orrahríð um áramót


Einu sinni var það standard að skrifa áramótaannál á bloggið sitt. Ég hef gert það af og til og stundum voru þeir ægilega langir. Ég nenni því nú ekki núna. Þarf fljótlega að fara að drífa mig heim af skrifstofunni og hita einhverja afganga ofan í lýðinn.


Var þetta ekki bara ágætt ár? Mér finnst ég í það minnsta ekki hafa undan miklu að kvarta. Ýmislegt hefði getað gengið betur en það hefði allt getað gengið miklu verr líka. Við vorum í Svíþjóð meira en hálft árið. Ég fór fljótlega eftir áramót til Visby og dvaldist þar í tvær eða þrjár vikur í ótrúlega mikilli ró og kláraði Einlægan Önd – svona mestmegnis. Kom allavega með handrit heim til Västerås og leyfði Nödju að lesa hana – og raunar fékk hún líka eins konar neitunarvald á hana. Bókin er afskræming á mínu lífi og þótt ég hafi skrifað Nödju alveg út úr henni þá er það líka í sjálfu sér afskræming á hennar lífi. En það kom aldrei til þess að því neitunarvaldi væri beitt.


Ég tók upp tvær hljóðbækur í stúdíói í Svíþjóð, Illsku og Gæsku – og svo tvær í viðbót eftir að ég kom heim. Fyrst Einlægan Önd, sem ég tók upp heima í stofu, og svo Hugsjónadrusluna sem ég tók upp í stúdíói Forlagsins í Reykjavík. Ég held þetta sé allt nema Öndin komið inn á Storytel. Hans Blær líka, sem ég tók upp 2018 í stúdíóinu hjá Mugison, og Brúin yfir Tangagötuna sem ég tók upp heima í stofu í byrjun covid. Það er þá bara Eitur fyrir byrjendur af skáldsögunum sem ég hef ekki lesið inn.


Við ferðuðumst aðeins um Svíþjóð í sumar. Fórum í bústað og til Visingsö, húktum og höngsuðum hér og þar. Spiluðum músík. Vorum dugleg að fara út að borða en hittum sjaldan annað fólk en nánustu ættingja Nödju. Annars leið þessi tími bara einhvern veginn. Ég var orðinn óþreyjufullur að komast heim fyrir rest. Er alltaf svolítið lost í Svíþjóð. Á marga sænska vini en „sænska mentalítetið“ – lagom – á illa við mig. Ég er ofgnóttarmaður. Eina hófið sem ég viðurkenni er veisla.


Ferðalagið heim og flutningur á dóti og frágangur á íbúð var líka frekar tíma- og orkufrekt dæmi. Við sendum allt dótið með Eimskip en fórum sjálf í litla bílinn okkar og keyrðum – fyrst til Gautaborgar í PCR próf, svo til Hanstholm í Danmörku í antigen-próf og loks með Norrænu heim. Ég sat í sóttkví í nokkra daga í Reykjavík. Svo vorum við varla komin heim þegar Aram fékk covid og mátti dúsa einn í herberginu sínu í tíu daga – áður en við rukum af stað og ég keyrði hann í skólabúðir á Reykjum.


Þetta var svolítið dramatísk heimkoma – það fylgdi líka covidinu alveg svakalegt vetrarveður strax í september.


Svo fór ég fljótlega í heilsuátak með haustinu – sem lauk þegar ég asnaðist til þess að slíta krossband í körfuboltaleik. Þeim fyrsta í 25 ár – körfubolti var enginn hluti af þessu átaki, sem snerist mest um hlaup og mataræði. Í sjálfsvorkunn minni vildi ég ekkert nema bjór og hamborgara. Ég er nú farinn að mæta aftur í ræktina og svona og hef meira að segja sleppt stafnum dag og dag en þetta hefur sett svip á jólabókaflóðsþátttöku mína og lífið almennt í haust. Ég átti góða daga á vertíðarflakki annars – það var feykigaman á Höfn í Hornafirði og á þeytingi með Diddu um Vestfirðina. Og mjög gaman að fá vini hingað á Opna bók. Ég fór líka í eina ferð til Slóvakíu sem var mikið stuð. Hélt tryllt útgáfuhóf og fékk að spila tónlist þar með vinum mínum – sem er sennilega hápunktur ársins, svona í samþjöppuðu stuði. Svo spilaði ég líka á tónleikum með börnunum mínum í Sjökvist sem var eiginlega ekki minna stuð. Ég held ég hafi tekið upp blús í hverjum mánuði hingað til en ég á enn eftir að taka upp lag fyrir desember og óvíst hvort það næst.


Ég veit ekki hvaða væntingar ég hef til nýja ársins. Ég er með eitt og annað á prjónunum en það er allt frekar óljóst enn. Er mest að spá í vinnuaðferðum og strúktúr og leyfa einhverjum hugmyndum að gerjast svolítið á meðan. Mig langar í senn að taka því rólega og finna nýja ástríðu fyrir nýju verki – verða ástfanginn af hugmynd. Þetta tvennt fer yfirleitt ekki mjög vel saman – maður er oft kominn á alltof mikið skrið strax og hugmyndin nær tökum á manni. En ég er líka í einhverjum langtímapælingum núna – ef hugmyndin sem er í smíðum verður eitthvað lík því sem ég held að hún verði þá verður hún ekkert nærri kláruð í ár og kannski ekki heldur á næsta ári. Það er reyndar alveg pínu hætt við því að ritlaunasjóður hefni manni fyrir þannig tempó, þótt það verði auðvitað að koma í ljós.


Ég er allavega búinn að taka til á skrifstofunni, hreinsa stóran vegg fyrir glósur og panta nýjan iMac til að koma í stað þessa sem ég skrifa á nú – sem er jafn gamall syni mínum (en ég hef átt í um ár). Ef ég fæ ekki ritlaun sel ég bara tölvuna og skrifa helvítis bókina með tússpenna á klósettpappírsrúllur.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page