top of page

Nothomb


Lauk við Nafnabókina eftir Amélie Nothomb rétt í þessu. Í þýðingu Guðrúnar Vilmundar. Í sem stystu máli fjallar Nafnabókin um unga stúlku sem ætlar að verða dansmeyja hvað sem það kostar. Ég gæti rakið meira af söguþræðinum fyrir ykkur en það myndi samt ekki skýra þessa bók almennilega út. Ég gæti líka sagt eitthvað um að hún fjalli um þær kröfur sem samfélagið gerir á konur – um feðraveldið (þótt skúrkarnir hér séu reyndar oft konur eru eitruðu gildin oft þau sem eru kennd við feðraveldið – fegurð konunnar, styrkur hennar til að lama sig) en það væri líka ótrúleg einföldun. Kannski fjallar hún um mónómaníu – um það þegar einstrengingslegur sigurvilji í annars ómótaðri stúlku mætir þessum kröfum. Og kannski má túlka forsöguna – söguna af móður dansmeyjarinnar, sem birtist í upphafi og er enn einstrengingslegri og trylltari, en skortir þessar utanaðkomandi kröfur, móðirin vill bara fá frið – á einhvern annan veg. Þar virðist móðirin í aðra röndina ætla að verja dóttur sína fyrir feðraveldinu en kostar hana á sama tíma allt. Og í lokin á bókinni – er ekki óþarfi að setja spoiler alert á svona sundurlausar lýsingar á 20 ára gamalli bók? – lagast allt þegar kjarnafjölskyldan kemur aftur saman. Eða ný myndast – í stað þeirrar sem var tortímt í upphafi. Kannski er þetta miklu „íhaldssamari“ bók en manni virðist í fyrstu. En hún er víst jafn góð bók fyrir það. Ég er allavega „skekinn“. Og niðurstaðan er eftir sem áður alveg rétt: það bjargar manni ekkert nema ástin.


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page