Nokkrar ísfirskar bækur og nokkrar útfirskar


Gangvegurinn til og frá Bókasafni Ísafjarðar.

Ég er heldur lufsulegur í dag. Annað hvort svaf ég illa eða mótefnin í þriðju sprautunni, sem ég fékk í gær, eru að berja í pípurnar. Eða ég er með covid. Eða krabbamein. Þegar ég hugsa út í það er ég með öll einkenni einhvers banvæns á byrjunarstigi. Slappleiki, treg einbeiting, lágur hiti. Farvel, grimma veröld.


Síðustu daga hef ég lesið Ísafjarðarbækur Njarðar P. Njarðvík – Í flæðarmálinu og Hafborg – Tomorrow I'll be Twenty eftir Alain Mabanckou, Nautnastuld eftir Rúnar Helga, Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, Hómó Sapínu eftir Niviaq Korneliussen, Veður öll válynd eftir Hagalín og Þunga eyjunnar eftir Virgilio Piñera.


Njörður var hugljúfur – „rithöndin“ stöðug og traustvekjandi. Hann lýsir hverju handtaki um borð í Hafborginni og maður treystir því fullkomlega að hann viti hvað hann er að tala um. Þó er ég ekki viss um að Njörður hafi verið meira til sjós en 2-3 sumur í mesta lagi. Bókin gengur ekki fyrir neinu brjálæðislegu drama eða slarki þótt eitt og annað gangi á – og það sé jafnvel fyllerí á sumum sjómannanna, framhjáhald á konunum þeirra, og meira að segja eitt frekar alvarlegt vinnuslys (sem minnir á svipað slys sem pabbi minn varð fyrir – skipið fær á sig brot og maðurinn kastast, þessi brýtur lærið en pabbi fór með hnéð). Þetta er fyrst og fremst lýsing á tilvistinni á tilteknum stað og tilteknum tíma – og glímu fólks við þessar aðstæður, þennan tíma, og sjálft sig.


Einkunnin hugljúfur á frekar við um Í flæðarmálinu en Hafborgina. Og er hún þó líka sár – sérstaklega fyrsta sagan, sem er minning átta ára drengs af því að vera vakinn til þess að fylgja fullum föður sínum í rúmið, enda geti enginn annar gert það, hann hlustar ekki á aðra. Það gerist ekkert meira en þetta, strákurinn fer á fætur og leiðir pabba sinn inn í svefnherbergi. Og maður hágrætur bara ofan í bókina.


Það sló mig að Njörður lýsir Ísafirði aðallega út frá hafinu og fjörunni, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og nefnir sjaldnar fjöllin – ekki fyrren þau rumska. Sjálfur hugsa ég alltaf fyrst til fjallanna en tek nú betur eftir hafinu og fjörunni. Það er frískandi að hann sjái sér ekki ástæðu til þess að breyta bænum í exótíska staðleysu – hér er ekkert Pláss, engin Tangakaupstaður, eða Sandfjörður. Ég held reyndar að kráin Litlibar, sem virðist standa við Silfurtorg, sé tilbúningur – a.m.k. finn ég engar heimildir um hana. Annars er Ísafjörður bara Ísafjörður. (Ef einhver er með ábendingu um skáldsögur sem gerast í svona tilbúinni Reykjavík – einhverri Gufuvík eða Þokubæ eða álíka þá er kommentakerfið opið ellegar hægt að senda mér tölvupóst: eon@norddahl.org).


Stærsti galli Njarðar sem rithöfundar er sennilega sá sami og stærsti kostur hans – hann skrifar aldrei neitt óvart. Það útilokar (næstum) mistök – líka þau sem svo reynast himnesk.


Tomorrow I'll be Twenty er byggð á æskuminningum kongóska rithöfundarins Alain Mabanckou – sem er frægastur fyrir bókina African Psycho. Drengurinn „Michel“, sem á samnefnda foreldra og Alain, mátar sig við fullorðinslífið og fylgist með samfélaginu í kringum sig – og fréttum umheimsins í gegnum útvarpið (hann hefur miklar áhyggjur af Íranskeisara og hatar Idi Amin af krafti). Hversdagurinn snýst í kringum stelpuna sem hann er skotinn í og fjölskyldurnar tvær sem hann tilheyrir – faðir hans á tvær konur: með annarri á hann fjölda barna, en með hinni bara Michel. Michel fer sjálfur til hinnar fjölskyldunnar alltaf ef móðir hans er vant við látin og hangir þar með systkinum sínum. Frábær bók.


Nautnastuldur er bók um ofsa og þráhyggju – aðallega klofþráhyggjur manns sem virðist engu að síður þrá að komast upp í andlegri hæðir. Og hata sjálfan sig – eða í það minnsta líta niður á sig fyrir aumingjaskap. Þetta er „amerískari“ bók en Ekkert slor – eða í það minnsta meiri Roth og minni Faulkner. (Nú gúglaði ég og sá að á útgáfutíma bókarinnar hefur RHV bæði þýtt og skrifað um Roth – go figure). Bók um greddu og getuleysi og vanmáttar- og ofmáttarkennd. Fínt stöff – sérstaklega fyrri hlutinn, stíllinn á sirka fyrstu fimmtíu síðunum er massífur.


Fugl/Blupl – ég var að endurlesa hana. Steinunn Arnbjörg er í miklu uppáhaldi hjá mér. Skrítnasta og skemmtilegasta röddin í íslenskri ljóðlist.


Hómó Sapína eftir Niviaq Korneliussen. Ég hef verið á leiðinni að lesa þessa bók lengi. Hún fjallar um hóp af einstaklingum sem eru allir að finna sig og eiga það sameiginlegt að finna sig í einhvers konar hinseginleika.


Gerist í Grænlandi og er tíðrætt um Grænland – en einhvern veginn fannst mér það ekkert aðalatriði – og eiginlega því miður, þótt ég hefði nú síður viljað að þau færu í sleðaferð eða eitthvað álíka. Og sennilega er þetta ungmennalíf bara ansi áþekkt á milli norðurlandanna. En andinn í bókinni var einhvern veginn danskur – og minnti að mörgu leyti á ljóð Maju Lee Langvad (sem ég held mikið upp á og hef þýtt). Sennilega er Hómó Sapína þýdd úr dönsku – höfundurinn frumskrifaði á grænlensku en þýddi sjálf á dönsku og væntanlega telst sú þýðing þar með jafn rétthá, en hugsanlega smitast eitthvað þar á leiðinni inn í stílinn.


Maður fær ekki nema væga tilfinningu fyrir lífinu handan þessa fólks sem sagan einblínir á – gott ef allir sem eru nefndir á nafn fá ekki fókusinn alveg á sig einhvern tíma, eða tilheyra a.m.k. hinseginsamfélaginu á einn eða annan veg. Þar með vantar einhvern spegil eða kontrast. Bókin er samt betri en aðfinnslur mínar hér gefa til kynna.


Veður öll válynd eftir Hagalín. Þetta eru nokkrir þættir af Vestfirðingum. Þær eru svolítið misjafnar að efni og gæðum – veigamest er Þáttur af Neshólabræðrum, þar sem segir af tveimur afar þrjóskum og erfiðum bræðrum og samskiptum þeirra við heimasætu á næsta bæ, sem enda með ósköpum. Aðallega vegna þess að allir eru svo fáorðir og þunglyndir og lífið er svo mikill djöfuls barningur alltaf hreint. Hún situr sennilega í mér lengi.


Þungi eyjunnar eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera í þýðingu Kristínar Svövu. Kraftmikil bók – maximalísk í orðfæri og myndmáli og sennilega þyrfti maður að lesa hana tíu sinnum til að ná almennilega utan um hana. Og kannski er manni alls ekkert ætlað að ná utan um hana, heldur fljóta bara um, ölvaður og örvaður – það er allavega hægur leikur. Fyrirtaks þýðing, það best ég get borið vitni um, og fróðlegur eftirmáli. Ég les hana áreiðanlega fljótlega aftur.

38 views0 comments

Recent Posts

See All

Heima

Einlægur Önd_edited.png