Nafni


Sennilega tók Jón Kalman þessa mynd. En hún er tekin heima hjá mér, líklega 2005 eða 2006.

Ég veit ekki hvaða dag það var en það gætu verið akkúrat tuttugu ár liðin í dag. Ég var allavega nýbúinn að gefa út fyrstu ljóðabókina mína – hún kom út 1. ágúst, 2002 – það var morgun og ég var í baði, heima hjá foreldrum mínum, þar sem ég bjó aftur tímabundið meðan ég undirbjó flutning til Berlínar. Þá hringdi síminn. Ég dreif mig upp úr baðinu og rétt náði að svara í símann. Maðurinn í símanum sagðist heita Eiríkur – það er alltaf svolítið ruglandi – og spurði hvort hann mætti ræða við mig um nýju ljóðabókina mína, hann væri með útvarpsþátt. Ég bað hann að hinkra meðan ég þurrkaði mér, ég hefði verið að koma úr baði. Svo lagði ég frá mér tólið og þurrkaði mér vel og vandlega og vafði svo handklæðinu um mittið á mér áður en viðtalið hófst. Ég hafði aldrei farið í viðtal áður, aldrei neinn tekið mig alvarlega, nema ég sjálfur – ég tók mig reyndar nógu alvarlega fyrir heila herdeild af fólki, heilu skotgrafirnar – og nú var ég að úthella úr sálu minni fyrir alþjóð, fyrir Eirík, nakinn og nýbaðaður. Strax og viðtalinu lauk kveikti ég á útvarpinu og hafði kveikt á því næstu klukkustundirnar, alveg þar til Víðsjá fór í loftið, svo mikið hlakkaði ég til að heyra sjálfan mig tala í útvarpið, mano á mano, Eirík við Eirík, og á um það bil klukkustundar fresti heyrðist aftur í honum, Eiríki Guðmundssyni, sem tilkynnti glaðbeittur að í Víðsjá í dag yrði meðal annars yrði hringt vestur á firði þar sem ungskáldið Eiríkur Örn Norðdahl væri nýkominn úr baði. Ekki missa af því.


Við þekktumst þannig í 20 ár, næstum því upp á daginn, og ég er áreiðanlega ekki eini maðurinn sem kynntist honum fyrst sem viðfang í viðtali, þessum manni sem hafði óþrjótandi og afar smitandi ástríðu fyrir skáldskap og tónlist. Ég hef ekki farið varhluta af því að hallað hafi undan fæti hjá honum síðustu árin þótt ég hafi lítið orðið vitni að sjálfu dauðastríðinu við fíknina, nema í gegnum sameiginlega vini sem stóðu honum nær. Minningar mínar um Eirík eru allar gleðilegar. Ég bauð honum og Jóni Kalman í mat til mín í Ölduna þegar þeir voru hér að skrifa, Eiríkur sennilega Undir himninum en Jón Himnaríki og helvíti. Þegar Eiríkur var búinn að klára sína kom hann vestur aftur og las á Opinni bók og við lékum saman tónlist í matarboði inni á Kúabúi um kvöldið – hann á flygil og ég á gítar og gott ef við rauluðum ekki eitthvað báðir – á þessum tíma spilaði ég aldrei neitt og söng enn síður en Eiríkur einhvern veginn galdraði fram í manni hugrekkið, þetta yrði alltílagi, við myndum slá í gegn, sennilega þyrftum við fljótlega bara að leggja bókmenntirnar á hilluna til þess að sinna glimrandi poppferli. Ég tók líka viðtal við hann, nýbaðaðan held ég alveg áreiðanlega, fyrir Bæjarins besta um bókina og Bolungarvík og fleira. Og kom til hans meira og minna á hverju ári upp í Efstaleiti, út af einni bók eða annarri – síðast sennilega þegar Yahya Hassan dó og það vantaði einhvern til að tjá sig um það ótímabæra andlát. Það var fyrir tveimur árum. Haukur Ingvarsson bauð okkur líka báðum í mat til sín fyrir nokkrum árum – sennilega var það í síðasta skipti sem ég hitti Eirík svona sósíal.

Við vorum svo auðvitað líka sveitungar, þótt ég muni auðvitað ekkert eftir honum héðan – hann var rétt að klára grunnskóla þegar hann flutti frá Bolungarvík og ég hef verið svona sex ára á Ísafirði og fór aldrei út í vík nema til að versla í EG, búðinni sem Eiríkur gerir svo góð skil í 1983. En við vorum samt báðir skrifandi vestfirskir Eiríkar, debúteruðum um svipað leyti þrátt fyrir aldursmun, sitthvorumegin við Óshlíð, ekkert nema göngin á milli hans heims og míns, og mér fannst alltaf að það væru sérstök tengsl. Ég hitti hann heldur aldrei – ekki í sekúndubrot á hlaupum – án þess að hann segðist þurfa að fara að drífa sig vestur. Sem var áreiðanlega misskilningur, ég held hann hafi alltaf verið hérna. Í gær fór ég inn á Facebooksíðuna hans og sá að það síðasta sem hann deildi þar var gömul sjálfsmynd tekin fyrir utan Gamla bakaríið – henni fylgdi texti um að þótt Gamla bakaríið væri horfið væri hann sjálfur ekki horfinn. En svo hvarf hann bara líka nokkrum dögum síðar – verður alltaf fyrir utan Gamla bakaríið á Facebook en mér finnst samt líka að nú þyrfti hann raunverulega að fara að drífa sig vestur. Nú er komið að því.


Mikið sakna ég hans.

70 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png