Nú verða sagðar fréttir

Jæja. Hvað er að frétta?!1. Ég er byrjaður að smíða nýjan gítar. Telecaster 72 Custom týpu. Sennilega fer það allt úrskeiðis!2. Ég fór suður og sótti Aram. Hann hefur verið í Ameríku í tvær vikur og tvo daga.3. Brúin yfir Tangagötuna ætti að koma með skipinu (brú með skipi?) nú um mánaðamótin. Eitthvað smávegis hefur verið rætt að taka upp hljóðbók fljótlega.4. En ég er upptekinn við ljóðaþýðingar flesta daga.5. Það er föstudagur. Það þýðir að það verður sennilega pizza í matinn.6. En ég er í aðhaldi. Reyni að éta ekkert óhollt, hreyfa mig daglega og snerti ekki brennivín eða tóbak.7. Aðfararnótt mánudags er ég boðinn í Superbowl sunday veislu. Þar mun bjórinn flæða og majonesið og allt milli himins og jarðar verða djúpsteikt. Sjá: 6. liður.8. Ég er með svo mikinn eyrnamerg í öðru eyranu að ég heyri ekkert frá vinstri. Ég hef prófað eyrnapinna og heitt vatn en það gerir lítið gagn.9. Ég er ekki stressaður yfir bókinni en ég er svolítið áhyggjufullur yfir ýmsu öðru í lífinu. Væntanlegum flutningum til Svíþjóðar ekki síst. Þar verðum við í ár frá september. Ég er orðinn svo hrikalega heimakær að ég ræð varla við tilhugsunina.10. Það eru almenn blankheit í lífinu líka. Bíllinn tók upp á að þurfa nýja kúplingu. Það setti mig svolítið á hliðina.11. Annars er voða fallegt veður. Sennilega verður gott að skíða næstu daga. Ég er reyndar ekki búinn að skoða spána. Kannski er þetta allt á leiðinni til andskotans.12. Hugsanlega eru áhyggjur minnar af „öðru“ bara tilfærsla á áhyggjum mínum vegna bókarinnar. Það hvarflar að mér. En það fer þó ekki á milli mála að mér hentar betur andlega að gefa út utan jólabókaflóðsins. Fjárhagslega er það sennilega óráð – hún verður ódýr kilja og seld á afslætti (undir þrjú þúsund, skilst mér) sem þýðir að ég fæ minna per selt eintak. Og svo seljast miklu færri bækur utan jólabókaflóðsins. En ég er samt vel að merkja hæstánægður með verðlagninguna – ég vil alls ekki að bækur séu munaðarvara.13. Í næstu viku fer ég til Svíþjóðar á bókmenntahátíð.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png