Náttúruleysið

Síðustu tvo daga hefur covid ekki sett mikið mark á líf mitt. Ef frá er þá talin grímuskylda og einu sinni þegar sessunautur á veitingastað vildi flytja sig um borð vegna hóstandi manns á næsta borði. Og sprittið úti um allt. Og allt fólkið sem hefur verið að lesa bloggið mitt og tjáði mér samúð vegna alls þessa vesens sem ég hef verið að tíunda síðustu vikurnar. Sem er auðvitað ómerkilegt og lítið vesen. Það er mest ég sem er óttalegt blóm. Kannski hef ég líka of gaman af því að vera létt gramur af hrakningum. Að segja hrakningasögur. Ég verð allavega fljótt vandræðalegur þegar fólk fer að tjá mér samúð sína. Ég er í sjálfu sér úttaugaður af og til en mest bara einsog allir eru úttaugaðir – og þótt það sé nóg að gera er sannarlega minna álag á okkar heimili en mörgum öðrum. Við höfum það bara mjög gott.

Ég skutlaði Aram á Reyki og fór svo sjálfur suður í tvær nætur til að sinna erindum og hitta fólk. Kom heim í gærkvöldi með bíl fullan af ostum og ólífum og öðru góðgæti til að borða með Nödju í tilefni dagsins, sem var 14 ára brúðkaupsafmælið okkar. Svaf út í morgun. Dúllaði mér svo um húsið, stefnulaust og án þess að koma neinu í verk (eða reyna það) til ellefu þegar Öddi hringdi í mig og bað mig að hitta sig í hádegismat. Þá rauk ég af stað út að hlaupa, fór svo í sturtu, rakaði mig og hjólaði út á Thai Tawee. Við sátum og slúðruðum og spjölluðum um sköpunargáfuna. Um hið einfalda og hið flókna í listaverkum, átakagleðina vs þetta að vera sáttur í eigin skinni, hvernig sé best að halda loganum heitum og sálarleysi hins lýtalausa. Gott spjall og fínn matur.

Ég gleymdi alveg að ræða við hann um samkomubönnin. Við tókum í sjálfu sér snúning á þeim um daginn. En nú er útlit fyrir að fleiri fái að koma saman á viðburðum og til þess verði beitt hraðprófum og jafnvel sjálfsprófum. Og að þau kosti 4000 krónur stykkið, sem verður þá smurt ofan á tónleikamiða og leikhúsmiða – sem mörgum þykja í sjálfu sér alveg nógu dýrir fyrir. Það hefur svo sem slegið mig nokkrum sinnum síðastliðin misseri að framtíðin verði enn meira fyrir þá sem hafa ráð á henni en verið hefur. Ferðalög og menning verði meiri lúxusvara.

En ætli mann langi nokkuð á kassastykki stóru leikhúsanna eða stórtónleika í Hörpu hvort eð er? Kannski verður þetta til þess að ný og öðruvísi rými fyrir listflutning fæðast. Þetta er svolítið gelt þessi misserin.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það skipti nokkru hversu margir mega koma saman á meðan sóttkvíarreglur eru enn strangar. Það er eitt að sá sem er útsettur fyrir smiti þurfi að fara í sóttkví og annað að hann setji alltaf alla fjölskylduna í sóttkví í hvert sinn – sem er til dæmis ekki raunin í Svíþjóð. Þar er viðhöfð smitgát gagnvart útsettum á heimili en hinir heimilismennirnir koma og fara, a.m.k. þar til viðkomandi hefur fengið niðurstöðu úr prófi (og þar – a.m.k. í Västmanland – taka allir prófið sjálfir). Og jafnvel þótt einhver heimilismanna reynist með covid þurfa bara óbólusettir að halda sig heima. Einkennalausir og bólusettir mega stunda sína vinnu og fara í búðir og svo framvegis. Eiga að fara varlega – einsog allir – og vinna heima ef það passar. Alveg burtséð frá því hvort manni finnst þetta skynsamlegar reglur eða ekki er augljóst að sóttkvíin sem slík hefur ekki viðlíka margföldunaráhrif og á Íslandi, þar sem kemur upp eitt smit á einum leikskóla og 150 fjölskyldur, kannski 600 manns, þurfa að loka sig inni í a.m.k. viku.

Hraðprófin munu ekki útiloka smit, þótt þau dragi úr líkum á smiti. Og á 500 manna viðburðum mun áhættan alltaf vera einhver. Ég velti því fyrir mér hvort það verði ekki fljótt bara of taugatrekkjandi að vera að fara í leikhús. Nennir maður eyða 25 þúsund kalli í miða fyrir tvo, átta þúsund kalli í viðbót í test, til þess að eiga svo á hættu að sitja í sóttkví í tvær vikur (nú er auðvitað líka hætta á að maður fái covid – en hún er hverfandi lítil við hliðina á hættunni á því að lenda í sóttkví).

Ég spyr mig líka hvort það styttist ekki í covid-partíin – að fólk útsetji sig fyrir veirunni til þess að losna út úr þessum sirkus? Það er allavega þannig að fólk sem hefur veikst og fengið bólusetningu er ekki jafn auðveldlega sett í sóttkví og aðrir. Og engin vörn er betri. Mér sýnist margir alveg vera komnir á nippið – kvíðinn murkar líka úr manni lífið. Einn vinur minn, sem hefur fengið covid, nánast mælti með því við mig („ef þú værir fullbólusettur“, sagði hann) – það væri svo mikill léttir.

6 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png