top of page

Minningargreinar


Það eru minningargreinarnar sem halda bæði Mogganum og Facebook gangandi. Ég hélt mig fjarri samfélagsmiðlum þar til nafni minn dó og ég vildi eða þurfti að upplifa sorgina með einhverjum. Þá opnaði ég rifu. Svo kom önnur rifa nú þegar Svavar Pétur dó. Og ég læt moggann (og prentmiðla) eiginlega alveg vera nema þegar sömu ástæður kalla á lestur. Að vísu las ég svolítið dagblöðin í blábyrjun árs en það kom bara fljótt í ljós að þau mega muna sinn fífil fegurri. Ég lét mér kvöldfréttir í sjónvarpi og morgunfréttir í útvarpi nægja þar til ég fór til Svíþjóðar og það passaði ekki lengur inn í rútínuna. Þá fór ég aftur að lesa instagram vikunnar og allar hinar netfréttirnar. Maður les mjög mikinn óþarfa á fréttamiðlunum – eiginlega eru þeir að mörgu leyti verri en samfélagsmiðlarnir. Samfélagsmiðlunum er ekki alls varnað – þótt þeir bjóði, eðli málsins samkvæmt, líka upp á verstu tegund af bæði hjarðhegðun og trigger-trolli.


Nú er jólabókaflóðið að hefjast og þar sem ég er með bók – mína fyrstu barnabók, mína fyrstu jólabók og mína fyrstu horrorbók (þetta er allt sama bókin samt) – þarf ég sennilega að opna enn stærri rifu. Þótt ekki væri nema bara til að geta boðið fólki í útgáfuhóf. Ég held ég hefði gott af því að móta mér einhvers konar umgengnisreglur við þessa miðla. Það þýðir ekki bara að vera ekki með appið í símanum þegar maður eyðir bróðurpartinum af deginum við tölvu (hugsanlega væri meira vit að vera bara með öppin og láta þetta alveg vera í tölvunni).


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page