top of page

Menningin nærir börnin sín


Halló? Er einhver þarna?


Ég slökkti á samfélagsmiðlum og fréttum – að frátöldum útvarpsfréttum þegar ég man eftir að kveikja. Nú ríkir þögnin ein. Samt er ég með höfuðverk, hvernig sem á því stendur.


Nadja fór með börnin suður í dag. Þau halda svo áfram til Svíþjóðar og ég næ þeim í næstu viku, í tæka tíð fyrir jólahátíðina. Ég er eitthvað að vesenast – þreif ofninn og ísskápinn og byrjaði að vinna í gólfhitanum og parkettinu. Ætlaði að halda áfram fram á kvöld en nennti því svo ekki. Fór og keypti mér tælenskt teikavei og byrjaði að horfa á Andor.


***


Berglind Ósk skrifar í dag um það sem Svíar kalla kúltúrbörn – það er að segja það fólk sem fæðist með tengsl inn í menningarheiminn, við rithöfunda, útgefendur, gallerista, myndlistarmenn og forstöðumenn helstu menningarstofnana (þess má þá geta hér að kærasti Berglindar, Steinar Bragi, er afabarn fv. forstöðumanns stofnunar Sigurðar Nordal – bara svo það sé allt uppi á borðum hér!). Og raunar fleira – hvað það getur verið erfitt að komast inn í þennan heim og njóta þar sannmælis. Berglind tekur dæmi af því hverjir virðast fá mest pláss í bókablaði Stundarinnar – sem er ritstýrt af afabarni nóbelsskáldsins með dóttur djöflaeyjuskáldsins sér til halds og trausts.


Þetta er auðvitað satt og rétt og kunnuglegt. Í þessum heimi þrífst fólk á góðu tengslaneti og visnar án þess. Það fylgja því augljós forréttindi í menningunni að vera af menningarætt – til dæmis bara þau að líklega var því besta í menningunni haldið að manni frá unga aldri, manni fannst sjálfsagt að fólk starfaði við listræna sköpun og hinu að sennilega mætti Halldór Guðmundsson, don Corleone menningarheimsins (eða einhver áþekkur) í fermingarveisluna manns og var hugsanlega byrjaður að spyrja mann um „handrit“ áður en maður var einu sinni búinn að læra alla stafina í stafrófinu.


Ekki að ég þekki til af eigin reynslu – ég er að ímynda mér líf sem ég öfundaðist einhvern tíma út í – það næsta sem ég kemst því að kúltúrrisa í fjölskyldunni er að móðurbróðir minn er heiðursfélagi í hinu íslenska blúsfélagi. Hann er að vísu langbesti blúsgítarleikari landsins, en það er önnur saga.


Fyrir tuttugu árum, þegar ég var að byrja að gefa út, var ég með mikla minnimáttarkennd gagnvart menningarbörnunum – mér fannst einsog öll ungskáldin sem ég kynntist ættu þjóðskáld að foreldri. Eða í það minnsta bjúrókrat í menntamálaráðuneytinu með árskort í sinfó. Allir höfðu leikið í Skaupinu þegar þeir voru börn, eða barnasýningu í Þjóðleikhúsinu, eða verið í Rokklingunum. Fólk vitnaði í Njálu einsog aðrir sögðu skrítlurnar aftan af Andrésblöðum. Ekki þar fyrir að ég hlaut menningarlegt atlæti yfir meðallagi hjá grunnskólakennaranum og sjómanninum sem ólu mig upp – og voru bæði mikið bókafólk – en þetta var mér samt allt svo fjarri. Þegar ég flutti suður fannst mér alveg nógu ótrúlegt að mæta Ladda á laugaveginum. Að hann væri bara til. Af holdi og blóði. Og ég veit að mörgum menningarbörnunum fannst tengslin við foreldra sína meira vera dragbítur en hitt – einu slagsmálin sem ég hef lent í hófust þegar ég líkti vini mínum við pabba sinn (stórskáld) og hann kýldi mig. Mér finnst það alveg skiljanlegt líka.


Ég held að þetta snúist ekki um að neinn vilji halda manni úti – þótt plássið sé sannarlega af skornum skammti. Það er bara einfaldara að taka viðtal við vini sína, fá þá til að skrifa um bækur, vera með pistla og svo framvegis – manni finnst vinir sínir skemmtilegir og gáfaðir og maður veður blint í sjóinn með það hvort eitthvað fólk sem maður þekkir ekki neitt er það líka. Og þar með þurfa utanaðkomandi að hafa tvöfalt fyrir því að skapa sér pláss – og bera hégóma sinn, athyglisþörf sína, á máta sem þeir sem fæðast í kastljósinu þurfa aldrei.


Það er líka talsvert aukaálag að teygja sig út fyrir tengslanetið sitt og fyrir slíkt aukaálag fær enginn á þessu landi greitt. Ég lagði talsvert upp úr því á Starafugli að hóa í fólk sem ég þekkti ekki neitt – en samt voru þau sem ég þekkti miklu líklegri til þess að gefa mér jákvætt svar. Og þegar ég var í tímahraki voru það þau sem redduðu mér. Eitt af því sem ég er stoltastur af við Starafugl er samt höfundalistinn – sem má sjá vinstra megin á forsíðunni. Þar eru næstum því 300 nöfn. En það breytir því ekki að þau sem hjálpuðu mér við ritstjórn og voru fastapennar voru flest rækilega í „tengslanetinu“ mínu.


Ég er heldur ekki viss um að þetta einskorðist við menninguna – mér sýnist alltaf sama fólkið vera í öllum sjónvarpsþáttum, alltaf sama fólkið hafa skoðanirnar sem skipta þjóðina máli, alltaf sama fólkið vera með einu sönnu greiningarnar á þjóðfélagsástandinu. Það sem er kannski mest áberandi við þá kreðsu er að hún er öll með lögheimili í akstursfjarlægð frá Efstaleitinu.


Í raun og veru held ég að menningarliðið sé frekar opið fyrir fólki sem á ekki þjóðleikhússtjóra fyrir föður eða tónskáld fyrir móður – svona heilt yfir að minnsta kosti. En þetta er samt kreðsa með sinn eigin innri kúltúr og maður finnur oft – ég m.a.s. ennþá, þótt ég hafi mitt eigið kapítal og sé byrjaður að kenna börnunum mínum hvernig maður heilsar forsetanum þegar maður tekur á móti íslensku bókmenntaverðlaununum – að maður kann ekki alveg að tala tungumálið. Og þá verður fólk oft dálítið undarlegt á svipinn þegar maður lætur sig samt hafa það að taka til máls.

3 comments
natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page