top of page

Hýði mannsins


Í dag fylgir bókakálfur með Stundinni. Þar skilst mér að sé jákvæður dómur um Frankensleiki, sem ég hef samt ekki séð. Ég fékk bréf um þetta rétt í þessu. „Til hamingju með góðan dóm“ stóð í bréfinu. „Fjórar stjörnur.“ En áður en bréfið barst – það var bankað hér á skrifstofunni og glaðlegur bréfberi í bláum stuttbuxum færði mér bréfið, sem var eiginlega meira skeyti eða kort – hafði ég ákveðið að skrifa hér eitthvað um tilvist þessa bókakálfs. Eða í raun til þess að segja annars vegar eitthvað um að metnaðurinn gleðji mig og hins vegar að stundum – þegar jólabókaflóðið er að hrökkva í gírinn og allir mótorar að fara á yfirsnúning – sakni ég þess að bókmenntaumfjöllun sé ekki átaksverkefni. Það er ekkert svo langt síðan að maður tók varla upp dagblað þar sem ekki var að finna a.m.k. einn bókadóm. Og auðvitað verður fjarvera þeirra meira áberandi þegar dómarnir fara svo loks að birtast.


En auðvitað er þetta gleðiefni á meðan á því stendur. Maður ætti kannski ekki að leita sér að einhverju til að nöldra yfir. Gylfi, nágranni minn, stríddi mér á þessu um daginn. Ég kom gangandi niður Tangagötuna og gat varla horft út úr augum fyrir sólskini – Gylfi hafði verið úti að sporta og stóð sveittur við grindverkið hjá sér – og ég sagði eitthvað um að veðrið væri frábært núna og hefði verið það í allt haust, en ég gæti ekki annað en haft áhyggjur af að þetta myndi alltaf jafnast út í janúarlægðunum. Þær yrðu ábyggilega hálfu verri út af öllu þessu góðviðri. Þetta fannst Gylfa ekki til fyrirmyndar – að bölva því þegar það er óveður að það verði ábyggilega alltaf óveður og bölva því svo í blíðviðrinu að það sé ábyggilega alveg að fara að bresta á með óveðri.


Það er reyndar ekki lengur sama blíðan. Sem sannar auðvitað bara að ég hafði rétt fyrir mér.


Annars upplifi ég mig voða mikið í lausu lofti í þessu barnajólahryllingsbókaflóði. Ég veit ekkert hvað ég á að vera að gera eða hvort ég á að vera að gera eitthvað. Ég veit ekki einu sinni hvort mig langar að vera að gera neitt. Mig langar hálfpartinn bara að leggjast í hýði. Í híði, meina ég.

natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page