top of page

Menningarelítan (lætur mig ekki í friði)


Menningarelítan á Ísafirði 1922.

Um daginn var ég spurður hvort ég væri ekki í elítunni. Spurningin kom upp vegna þess að ég hafði ekki innanbúðarupplýsingar um tiltekið málefni. Og var sett fram í gríni. En síðan þá er einsog hugtakið menningarelíta hafi elt mig á röndum.


Fyrst var það stutt brot sem ég fékk sent – af tik tok, af öllum stöðum – þar sem David Graeber ræðir um það hvers vegna fólk (eða allavega bandarískt fólk) hatar „the liberal elites“ en elskar herinn (eða er a.m.k. í support-the-troops stemmaranum). Í sem stystu máli og með sem fæstum útúrsnúningum rekur hann það til þess að fólk telji – að einhverju leyti réttilega, vill hann meina – að þótt það sé langsótt fyrir manneskju úr verkalýðsstétt að komast í álnir þá sé það samt ekki jafn langsótt og að verða til dæmis leikhúsrýnir hjá New York Times. Að hliðvarslan í bestu stöðurnar í bandarískri menningu sé svo kræf að þú sért líklegri til þess að verða ríkur (ef það er eina markmiðið) en að ná í gegn í menningunni. (Og að nepo-börnin gangi víðast fyrir). En auðvitað er líka hæpið að maður verði ríkur og þá stendur eftir spurningin um hvað maður geti í raun og veru gert – hvaða starf getur þessi manneskja fengið þar sem hún fær sæmileg laun, heilbrigðistryggingu og hlunnindi, og látið í leiðinni gott af sér leiða (eða a.m.k. talið sér trú um að hún láti gott af sér leiða). Hvar standa dyrnar opnar? Þar er ekkert í boði nema herinn.


Þessu er auðvitað ekki eins farið á Norðurlöndunum. Eða á Íslandi. Hins vegar held ég að við getum alveg gefið þessu gaum og unnið gegn tendensinum. Fyrir mörgu fólki eru valdastöður í menningunni oft raunverulega mjög fjarlægar – og þær ganga augljóslega að einhverju leyti í arf. Mér finnst fólk á Íslandi – það sem gegnir þessum stöðum – oftar gera lítið úr valdi sínu en gangast við því. Það er bæði fölsk hógværð og blinda – sá sem er vanur því að ráða menningarstofnun eða geta sent lagið sitt beint í spilun eða mætt „af og til“ í Gísla Martein finnst það kannski ekkert merkilegt sjálfum – það verður eins konar núllpunktur. „Þetta er svo lítið land!“ Og fólk tekur því sem mjög alvarlegri ásökun ef að því er ýjað að menningarlífið stýri sér ekki bara sjálft eftir einhverjum náttúrulegum reglum um hæfi og hæfileika.


Svo var það Louis Theroux, heimildamyndagerðarmaðurinn, sonur rithöfundarins Paul Theroux (og systkinabarn leikarans Justin Theroux, bróðir rithöfundarins Marcel Theroux, og frændi rithöfundanna Peters og Alexanders Theroux). Ég horfði á langt viðtal við hann á YouTube, þar sem hann talaði talsvert um mikilvægi þess að fá hjálp – að fólk þurfi aðstoð til þess að uppfylla drauma sína. Og að hann sjálfur – sem var alinn upp við ríkidæmi, af menntuðu fólki, sendur í dýran einkaskóla – hefði þrátt fyrir allt þetta forskot aldrei náð árangri ef það hefði ekki líka verið fyrir aðstoð fólks einsog Michael Moore, starfsfólks BBC og annarra sem hefðu séð í sér eitthvað (sem hann sá að sögn ekki sjálfur) og veitt honum ótal tækifæri. Og hvað það hlyti að vera óyfirstíganlega erfitt – eða bara ómögulegt – að ná árangri, komast í menningarelítuna, ef maður hefur ekki þetta forskot.


Síðast í morgun rakst ég svo á grein sænska rithöfundarins Ola Larsmo, í tímaritinu Vi, þar sem hann spyr sig meðal annars hverjir það séu sem tilheyri þessari svokölluðu menningarelítu? Eru það allir sem taka bækur á bókasöfnum? Allir sem fara í sinfóníuna? Allir sem kunna á hljóðfæri? Allir sem auðga líf sitt með ríkisstyrktri menningu? Bara þeir sem vinna við að búa hana til? Tilefnið er hegðun og orðfar Sophiu Jarl, sem fer fyrir Moderaterna í borgarstjórn Norrköping, og hefur stundað þar menningarlegt niðurrif af skyldu tagi og kollegar hennar í Kópavogi. Henni hefur í þessu sambandi líka orðið tíðrætt um „ofdekruðu menningarelítuna“.


Svo skrifar Ola Larsmo:


„Maður gæti [...] sagt að hin háleita menning sé staðurinn þar sem samfélagið talar við sjálft sig. Það skiptir ekki allt sem þar er sagt miklu máli. Það þurfa ekki allir að leggja við hlustir. En eftir því sem tíminn líður getum við séð að það er í þessari tjáningu, sem oft er talin útilokandi eða hreinlega skrítin af sinni samtíð, sem nýjar hugsanir um mennskuna, lífið og samfélagið hafa orðið mögulegar. Stundum hafa þær þær hæddar, stundum fagnað. En hverjir eiga þá að hafa aðgang að verkfærunum, orðunum, sjónarhornunum [sem menningin veitir]? Í að minnsta kosti sjötíu ár hefur svar menningarpólítikurinnar verið: allir. Af því það er ómögulegt að vita fyrirfram hver þarf þau eða hvenær.“


Svo bætir hann því við að í dag myndi ferðamálastofa Dyflinnar sennilega ekki vilja vera án Ulysses – sem mér finnst raunar veikja punktinn, af því réttlæting listaverks á ekki að vera í því fólgin að síðar meir verði hægt að mjólka úr því milljarða. Ekki þar fyrir að mig dreymir oft um að fara í Ulysses-ferð til Dyflinnar.

コメント


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page