Menning og rétttrúnaður


Háskólaprófessor missir vinnuna fyrir að blóta í tímum, óþægilegar senur í óperum eru lagaðar að fínlegum taugum áhorfenda, ungt framfarasinnað fólk krefst þess að það verði sjálft varað við óþægilegu innihaldi bóka og að fólki sem hefur sannanlega setið af sér glæpi sína verði meinuð innganga í landið hreina og fagra (og til vara bannað að flytja verk sín), rithöfundar verða útlagar vegna ljóða sinna – hátíðum aflýst þeirra vegna og þeir reknir úr stöðum sínum – jafnvel eftir að þeir hafa afneitað verkum sínum, listamenn missa styrki og eru reknir úr fagfélögum, ritskoðun klassískra bókmenntaverka (fyrir fullorðna) nær absúrdískum hæðum, stór hópur þenkjandi rithöfunda mótmælir því að tímarit – hvers starfsfólk var sallað niður af extremistum fyrir skopteikningar – fái tjáningarfrelsisverðlaun fyrir að halda áfram útgáfu þrátt fyrir ógnina, listaverk eru fjarlægð af alþjóðlegum listamessum vegna þess að þau ógna taugum sífellt úttaugaðri almennings og/eða yfirvalda, skandalaþorsti fjölmiðla og/eða almennings er slíkur að margir hafa einfaldlega gefist upp á að tala við pressuna, teiknarar og ljóðskáld fara ekki um nema í lögreglufylgd, listamenn eru dæmdir til fangelsisvistar fyrir verk sín, myndlistarsýningum er lokað og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis.

Afsakið, nú kemur fyrsta mótsögnin. Þessi veruleiki pólitísks rétttrúnaðar – sem ég trúi því varla að nokkrum finnist ekki kúgandi ef hann gefur sig að því að hugsa um það – gefur ekki einhlíta mynd af heiminum. Það eru alls kyns góðar ástæður fyrir því að fólk er viðkvæmt fyrir (öllum mögulegum) rasisma og (allri hugsanlegri) kvenfyrirlitningu – svo tvö algeng mótíf hneykslunarsamfélagsins séu tekin sem dæmi. Þeir sem standa í þeirri baráttu eru langþreyttir, vonlitlir og slæptir með réttu – fólk deyr, það er ofsótt og kúgað – og þeim er vorkunn að grípa í öll hálmstrá, reyna að vinna á þeim vígstöðvum þar sem sigur getur unnist þegar hann vinnst ekki þar sem það skiptir máli (les: ef þú getur ekki komið í veg fyrir að löggan drepi svart fólk geturðu komið í veg fyrir að hvítt fólk skrifi ljóð um það). Sem þýðir svo aftur ekki að alla móðursýki megi réttlæta með þeim rökum að það sé eitthvað að – þú veist, ef maður lemur einhvern fyrir að vera fáviti þýðir það hvorki að hann sé ekki fáviti né að maður hafi mátt lemja hann. Það þýðir stundum bara að maður hafi gefið sig heimskunni á vald og allir séu í mínus.

* * *

Eitt af mikilvægustu hlutverkum listamanna er að standa á mörkum hins sæmilega – eða að fara langt yfir mörkin – og hugsa af einhvers konar eðlishvöt frekar en beinlínis vitrænt; listamenn eru ekki vísindamenn, ekki einu sinni félagsvísindamenn, stefna ekki að tilteknum niðurstöðum heldur pota í hluti og sjá hvort þeir hreyfist, í besta falli klikkaðir vísindamenn, leika sér með eld og allt sem er eldfimt, allt sem skapar spennu. Þetta er ekki hættulaus staður og það eiginlega segir sig sjálft að hver sá listamaður sem leyfir sér að taka minnstu áhættu – eða fjalla um pólitík af því ábyrgðar- og tillitsleysi sem listinni er náttúrulegt – er líklegur til að koma sér reglulega í vandræði.

Að því sögðu eru auðvitað fjölmargir listamenn mjög góðir í eins konar sýndaráhættu – að láta líta svo út sem þeir séu mjög hættulegir á meðan þeir synda með straumnum hæ-fævandi (eða öllu heldur <3-andi) krádið sitt.

Sá listamaður sem ekki tekur áhættu afrekar síðan aldrei neitt. Það eru bara prestar sem ögra aldrei kórnum.

Listamenn safna saman heiminum, safna hugsunum, reynslum, möguleikum og raða þeim síðan saman án þess að vita alltaf (eða nokkurn tíma?) hverjar afleiðingarnar verða. Stundum er afurðin einfaldlega rasísk, stundum full af kvenfyrirlitningu – en miklu oftar orka verk sem fjalla um rasisma eða kvenfyrirlitningu tvímælis einmitt vegna þess að þau standa á línunni, þar sem sprengikrafturinn er mestur. Verk sem fjallar um rasisma eða kvenfyrirlitningu getur ekki verið ósnert af rasisma eða kvenfyrirlitningu.

* * *

Á tímum byltingarnauðsynjar – þegar svart fólk er skotið á götu afleiðingalítið, þegar fátæklingar drukkna í miðjarðarhafinu, þegar konum er nauðgað, þegar kapítalið bryður smælingja undir tönn – myndast fljótlega krafa um skýra, einarða og miskunnarlausa stefnu, krafa um sósíal-realíska list eða sambærilega; list sem getur stappað stálinu í fólkið og varpað ljóma á byltinguna svo hún verði ekki bara nauðsynleg heldur líka fýsileg. Á meðan upplausnin þjónar enn einhverjum tilgangi – eða í þeim kreðsum þar sem hún gerir það – getur list takmarkaðs tvímælis (betur þekkt sem einföld kaldhæðni) þjónað sem skemmtiatriði en þó einvörðungu á meðan hún einskorðar sig við að beinast að valdinu sem á að leysa upp – sem er gott og blessað, þótt það sé takmarkandi. Listamaðurinn verður trúður sem framkallar lófasköll. Dæmi: þegar John Oliver úthúðar hvítu hyski fyrir að vera heimskt og ljótt. Það er oftast ekkert sérlega fyndið – en flest sæmilega vel meinandi fólk (les: við sem erum ekki hvítt hyski heldur meðvituð) er sammála honum um heimskuna (og kannski ljótuna líka). Og hlær og klappar, retweetar og lækar. Því bragðarefirnir þurfa líka viðurkenningu, það þarf að klappa róttæku listamönnunum á bakið svo þeir sigli byltingunni í rétta átt. Þeir stýra sér ekki sjálfir þótt þeir stýri öðrum.

En hefur list raunverulegra tvímælis eitthvert gildi í sjálfri sér? Er einhver sérstök réttlæting fyrir því að standa á mörkum hins segjanlega og reyna að tala án sjálfsmeðvitundar? Ég er hreinlega ekki viss – ekki í þeim skilningi að ég geti orðað það kognitíft hvers vegna mér finnst þessi staður mikilvægur (jafnvel „samfélagslega mikilvægur“). Ég gæti talið upp dæmi um listaverk sem hefðu þanið út rými hins mögulega svo lífið varð betra á eftir – nær öll barátta minnihlutahópa er óhugsandi án þeirra, í baksýnisspeglinum – ég gæti skrifað eitthvað um mikilvægi listaverka sem hópnarratífu og mikilvægi þess að sú narratífa sé breið og gefi rétta (óþægilega) mynd af samfélaginu, frekar en réttláta (þægilega) mynd af samfélaginu. En ég er ekki alveg viss um að það liggi yfir höfuð á kognitífa sviðinu. Mér bara finnst það – einsog drottinn leit heiminn og lýsti hann harla góðan af sýndinni einni. Ég get alveg leitað að réttlætingum fyrir afstöðu minni og sumar þeirra eru áreiðanlega ágætar en enginn þeirra trompar „fólk er drepið og því nauðgað, hættu að vernda rasista og ofbeldismenn, nú er komið nóg“ – enginn þeirra talar einu sinni við slíkar yrðingar því tungumál listarinnar er annað en þetta. Ég er ekki viss um að hún geti réttlætt sig. Og oft grunar mig að allar tilraunir til þess að réttlæta hana hljóti að vera skaðlegar.

* * *

Samfélagsleg menningargagnrýni er augljóslega annars konar afl með tilkomu internetsins. Þegar Bret Easton Ellis ræddi við Ezra Koenig úr Vampire Weekend um aumingjakynslóðina (unga fólkið) og viðkvæmni fyrir gagnrýni – eftir að BuzzFeed ákvað að hætta að birta neikvæða gagnrýni – benti Koenig einfaldlega á að aðstæður listamanna til að fylgjast með og bregðast við gagnrýni á verk sín væri allt önnur í dag en fyrir 30 árum. Nú væri maður taggaður á Twitter strax og gagnrýnin birtist og yrði viðstöðulaust og óumflýjanlega hluti af umræðunni um hana. Fyrir 30 árum hefði maður (sem frægur tónlistarmaður) bara fengið bunka af greinum frá umboðsmanninum sínum á nokkurra vikna eða mánaða fresti, og slíkan bunka væri einfaldara að hunsa. Maður var ekki bombarderaður með viðbragði heimsins við því sem maður gerði – gat ekki átt von á pípandi tilkynningu við allar hugsanlegar aðstæður – maður tókst á við hana í ákveðnu rými en fór svo út úr því rými og þar átti maður frið og ró.

Ef við færum þetta yfir á pólitískari menningargagnrýni (frekar en bara gæðarýni) þá þýðir það að hópur fólks getur búið til talsvert óveður í kringum tiltekinn listamann – eða þær stofnanir sem hann starfar í skjóli af, listasöfn, forlög o.s.frv. – og á endanum fer þetta að verða spurning hversu mikils vesens þetta sé virði, hvenær listamaðurinn fari að ritskoða sjálfan sig, óþægilegu agnúana, miðla málum, og „æi þetta skiptir kannski engu máli“ verður að viðstöðulausu mali sem svo blandast sífellt háværari kröfu um afþreyingargildi verka og úr verður … ekkert. Svona einsog bandaríska skáldsagan þessa dagana – grípandi, vel skrifuð, skemmtileg, sorgleg en einhvern veginn bara tóm og átakalaus.

* * *

Ég held að flestir sem hafi nokkurn tíma haft skoðun á skjön við kunningja sína – eða bara langað að segja að eitthvað væri drasl, taka djúpt í árinni – kannist við að þurrka út statusinn áður en maður birtir eða hreinlega eyða honum rétt í tæka tíð áður en skítstormurinn hefst. Eða að hafa haldið honum inni og síðan eytt tveimur dögum í að verja hann – og hugsað: af hverju í andskotanum hélt ég ekki bara kjafti?

Ég er ekki endilega að tala um eitthvað sem skiptir neinu ægilegu máli – bara svona lágmarks andstöðu út af tilfallandi tittlingaskít. Að manni finnist maður geta sagt að karlmenn fari almennt illa út úr forræðismálum eða verði líka fyrir talsverðu ofbeldi um ævina – eða biðja fólk að slaka einfaldlega aðeins á, eitthvað sem kom illa út hafi verið vel meint og það sé jafnvel í lagi að taka meiningu fólks alvarlega, að stundum segist fólk ekki vera rasistar (en) vegna þess að það sé einfaldlega ekki rasistar. Verði konu á að vera ósammála karlmanni og leyfi hann sér að svara konu fullum hálsi er ekki þar með sagt að hann sé hrútskýrandi pungur; ekki frekar en hún er þar með tæfa með kjaft (þótt auðvitað komi hvorutveggja til greina, heimurinn er fullur af hrokafullum fíflum – mörg þeirra gera meira að segja gagn, eru lífríki andans nauðsynleg, einsog býflugur og rottur).

Eitt helsta einkenni internetsins er hversu hratt það getur brugðist við áreiti – stundum nánast einsog það væri sjálfstæð lífvera. Slagsmálin um leiðarstef samræðunnar, þ.e.a.s. hvað „okkur“, sem oft á tíðum merkilega samræmdri netveru, finnst um tiltekið málefni verða þess vegna oft mjög snörp. Oft snýst þetta um að verða fyrstur til að ná skriðþunga, fyrstur til að vera með viðbragð sem vekur athygli – og lýtur þá ekki ósvipuðum lögmálum og smelludólgafréttir vefmiðlana. Eftir því sem tiltekin skoðun hefur fengið fleiri retweet eða læk er líklegra að þeir sem eru á öndverðri skoðun einfaldlega þegi – því rifrildið er sjaldnast þess virði, yfirleitt alltaf of frekt á tíma og andlega orku. Við könnumst áreiðanlega flest við að fylgjast með narratífum fæðast og slúðrinu breiða úr sér á félagsmiðlum og í fjölmiðlum og allir berjast við að búa til trúverðugustu söguna.

Eitt dæmi er þegar hasstöggum á Twitter er „rænt“ í nafni einhvers málstaðar eða skoðunar. Á dögunum var t.d. tekið viðtal við EL James – höfund 50 Shades of Grey – á Twitter. En viðtalið var varla hafið þegar það fór af sporinu og fólk um allan heim kepptist við að vera sniðugt og kvikindislegt á hennar kostnað – ýmist með því að gera því skóna að sadómasókisminn í bókum hennar væri ekki nógu saklaus (ekki samkvæmt helstu leiðarvísum) eða að hún væri einhvers konar fábjáni. Nú ætti ég kannski að taka fram að þessi hálfa fyrsta Greybók sem ég las var ekki góð – eiginlega alveg vandræðalega vond – en mér þykir líka s&m krítíkin svolítið grunn og einfeldningsleg (hún felur meðal annars í sér að s&m sé eitthvað eitt og öll s&m sambönd líti eins út; sem og að narratífa um eitthvað sé upphafning á því sama; að bækur fjalli alltaf um það sem er á yfirborðinu o.s.frv. – þetta er bara heimskulegur bókstafstrúarlestur múgs). Og ég held að um slíkt verði bókmenntagagnrýni að fjalla – þar er engin ástæða til að draga úr höggunum, enda fengist við verkið, maður á mann. Hins vegar held ég að tignun illa skrifaðra bóka og metsölubransinn með sínu ritstjórnarleysi sé ekki á ábyrgð EL James nema að mjög litlu leyti og ég sé eiginlega ekkert sniðugt eða fyndið við að 20 þúsund manna hópefli hjóli í hana með hótfyndni og útúrsnúninga að vopni; það er eiginlega skilgreiningin einelti (enda innbyggt í ferlið að hún gæti aldrei svarað fyrir sig).

* * *

Síðan er það þetta með að geyma tvær (eða fleiri) hugsanir í höfði sér, þótt þær stangist að einhverju leyti á. Mér er nefnilega líka spurn hvort marga listamenn og rithöfunda – einsog stjórnir bókmenntahátíða sem afbjóða höfundum og listasafna sem loka sýningum eftir undirskriftalista og ópera sem snyrta til verkin til að friða múginn – skorti ekki einfaldlega þann kjark sem til þarf til þess að gera verk sem nokkru skipta? Því þótt mér finnist allir þessir undirskriftalistar óþolandi og ég geri mér grein fyrir því að sjálfsritskoðun sé hættuleg þá er líka hættulegt að við látum einsog hún sé eðlileg eða ásættanleg. Kannski þarf meiri kjark nú en fyrir þrjátíu árum. Það þarf áreiðanlega meira þol, ef maður ætlar að nenna að standa í stappi við alla sem eru ósáttir við mann, eða nenna að láta þá fara í taugarnar á sér þótt maður svari engu, eða einfaldlega nenna innri mónólógnum í hvert sinn: er það áskrift að 48 tíma pirringskasti að pósta þessu? Og bíða svo milli vonar og paranoju eftir viðbrögðum. Það er átak þótt ekkert gerist.

Ég á ekki við að listin eigi öll eða þurfi að vera transgressíf – ég er hvorki að kalla á kúk né piss – ég á við að listin hljóti að verða standa vörð um tvímælið, um hið ambivalenta, að listinni beri skylda til að vera viðstöðulaust flækjandi og ögrandi. Og listamaður sem getur ekki staðið uppi í hárinu á hinum móralska meirihluta – eða listamaður sem er háður kreðsunni sem fagnar honum – ætti líklega að finna sér aðra vinnu.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png