Meginlandsmálin

Ég þýddi tvö ljóð. Tilraunakennt stöff. Stutt í sjálfu sér. En þetta eru ágætis afköst. Ekki síst í ljósi þess að ég svaf til klukkan að verða níu og byrjaði á að því að fara út í bílskúr og spreyja eina umferð á gítarinn. Ég veit ekkert hvernig þetta kemur út lengur og er smám saman að íhuga að sætta mig bara við niðurstöðuna, hver sem hún nú verður. Ég klúðra alltaf einhverju – blandast saman málning og lakk áður en það er almennilega þornað (hvernig sem það nú annars gerist eftir langa bið) eða ég festi hár í einhverju og þrýsti puttanum á vitlausan stað og það koma för og svo framvegis og svo framvegis. Ég virðist geta fundið út úr þessum smíðum með því að fara varlega og laga til það sem misferst – svona mestmegnis – en málningarvinnan er allt annars eðlis. Þar þarf maður líka alltaf að bíða lengi áður en maður getur byrjað að laga – best væri að bíða í mánuð meðan spreyið er að harðna almennilega. Alltaf þegar eitthvað misferst.

Eftir þýðingarnar lognaðist ég út af í skrifstofustólnum. Kannski var ég bara svona lúinn af ljóðaþýðingunum. Ég „las“ líka instagram vikunnar – það tók svolítið á. Og vírusfréttirnar auðvitað. Kom síðan á Heimabyggð. Hér er allt fullt af strönduðum túristum. Ég tek því sem gefnu að allir sem tala útlensk tungumál – sérstaklega meginlandsmálin – séu sýktir.

Svo skrifaði ég eitt og annað hérna sem ég tók bara út. Það hafði ekki að gera með kórónavírusinn og ég er ekki að halda frá ykkur neinum mikilvægum upplýsingum.

Nú þarf ég að fara að drífa mig í búðina.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png