Megas, Steinar, músagangur og Sonatorrek

Ég er að hlusta á Arnar Jónsson flytja Sonatorrek. Blús allra blúsa. Þetta  er voðalegt.

Í gær urðum við vör við músagang þegar við vorum að fara að sofa. Eða eitthvað krafs – við fundum aldrei músina og ekki heldur músafelluna sem við fórum á stúfana eftir. Þetta er ekki beinlínis músasíson svo ég veit ekki hvort maður á að trúa því að þetta hafi verið mús. Þær koma venjulega inn á haustin þegar kólnar. Og komu engar í haust. Eitt árið hérna voru þær svolítil plága en annars höfum við bara aðeins orðið vör við þær eða alls ekkert.

Eða, þú veist. Plága. Þær voru fyrir. En héldu sig reyndar mest í kjallaranum.

Megas er 75 ára í dag. Hann fær ábyggilega fáa gesti í ljósi ástandsins. Þegar hann varð sextugur fylgdi hann mér og fleiri íslenskum skáldum í frægðarför til Kaupmannahafnar. Ef ég man rétt þá átti hann ekkert erindi – var ekki að spila – heldur vildi bara ekki vera í sextugsafmælinu sínu. Þetta var einmitt beint í kjölfar fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðarinnar. Páskafylleríinu fylgdi þá bókmenntahátíðafyllerí með millilendingu í hitta-vini-sína-í-Reykjavík-og-fara-á-Sirkus-fyllerí. Og gott ef þetta var ekki einmitt fyrsta þannig ferðin mín. Og sennilega eina skiptið á ævi minni sem ég hef tekið almennilegan „túr“ – þetta voru sennilega alveg heilar tvær vikur – og var svo draugþunnur á eftir að ég vissi varla hvað ég hét. Í Kaupmannahöfn ráfaði ég um með Steinari Braga og át pulsur og drakk bjór á gangi – borgin var alsett sporum sem áttu að markera för HC Andersen um borgina en hann átti eitthvað stórafmæli, en á sama tíma gekk laus morðingi sem hafði skilið eftir líkamshluti fólks í ruslafötum og auðvitað minntu sporin meira bara á hann. Eða hana. Ég man ekki hvort viðkomandi náðist nokkru sinni. Um nætur svaf ég til fóta hjá Steinari og Öglu, þáverandi kærustu hans, sem var ekki með okkur Steinari á þessu vægðarlitla fylleríi. Samt var búið um mig heima hjá Auði Jóns og Tóta Leifs – það var bara eitthvað langt í burtu og óþarfi að skilja við Steinar ef við ætluðum hvort eð er að byrja aftur að drekka þegar við vöknuðum. Einn af síðustu dögunum í borginni lásum við svo loksins upp og hittum þá dönsku skáldin sem áttu að lesa með okkur og ég held okkur hafi aldrei litist jafn illa á neinn hóp af fólki – þetta var svo hreint og strokið og kurteist að okkur hreinlega ofbauð. Síðar hef ég séð til nokkurra þessara dönsku höfunda og orðið var við að á meðan íslenskir höfundar eru svolítið í ógæfunni þarna milli tvítugs og þrítugs þá blómstra danskir höfundar síðar og hefja sína óreglu nær fertugu, þegar íslenskir höfundar eru orðnir settlegt barnafólk í úthverfunum. Svona fólk sem hefði gengið í samstæðum jogginggöllum þegar ég var lítill. En dönsku höfundarnir eru allir drykkfelldir, illa lyktandi besefar.

En ekkert af þessu var Megasi að kenna – það var varla að ég sæi hann í þessari ferð. En hann átti sem sagt líka afmæli þá, hann var bara yngri.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png