Mega mall

Í gær fórum við Nadja út að borða. Við fórum á veitingastað sem heitir Lupita Mongie og við mælum ekki með honum, ef þið skylduð vera á ferðinni. Forrétturinn sem ég fékk mér – einhvers konar skinku lasagna sneið með parmesan – var svo vondur að ég kláraði hann ekki. Og ég borða alltaf matinn minn, allt sem fyrir mig er lagt. Parmesansneiðin ofan á honum var á bragðið einsog vikugamall kantur af MS-Tindi. Ferðin á veitingastaðinn var líka leiðinleg. Við tókum leigubíl – hann kom hálftíma of seint (hafði orðið einhver misskilningur) og við báðum hann að koma og sækja okkur, en sögðum tímann sem við höfðum ákveðið í upphafi án þess að bæta við þessari hálftíma seinkun og enduðum á að þurfa að rusla í okkur matnum og drífa okkur út á götu. Nema þar var enginn leigubíll. Við biðum aftur í hálftíma – á meðan það gerðist varð mótorhjólaslys handan götunnar og allir starfsmenn veitingastaðarins ruku af stað til að skoða þegar sjúkrabíllinn kom. Þeir voru skellihlæjandi – sem mér þótti mjög skrítið. Þegar þeir komu til baka sagði þjónninn við okkur að stúlka hefði fótbrotnað. Og átti bágt með að halda aftur af brosinu. Á endanum létum við veitingastaðinn hringja á nýjan leigubíl fyrir okkur. Ef hér væri óhætt að ganga – sem er ekki og alls ekki í myrkri – þá hefðum við getað rölt heim á 20 mínútum. Það hefði verið mjög næs.

Svo sofnaði Nadja klukkan níu og ég las fram yfir miðnætti. Í dag fór ég niður að laug að vinna. Synti svo einn kílómetra, borðaði hádegismat og við Nadja ákváðum að fá lánaðan bílinn til að sinna smá erindum. Okkur vantaði hondúrsk sim-kort og mig vantaði sundhettu (svo ég brenni ekki á skallanum, syndandi á hádegi), lítið handklæði, gítarstrengi og vatnsflösku. Bíllinn er einhver ægilega fín Kia og við vorum lent í tómum vandræðum með hana áður en við komumst út úr bílastæðahúsinu. Þurftum að fá bílastæðavörð til að hjálpa okkur að koma honum aftur í gang – okkur hafði orðið á að drepa á bílnum í drive og þá var ómögulegt að fá hann til að keyra áfram eftir að við störtuðum aftur (eða, altso, eftir að ég startaði aftur). En það var alveg hægt að bakka, vel að merkja. Þegar það var leyst komumst við af stað.

Nadja var með kortið og við tókum margar vitlausar beygjur á leiðinni og fórum inn í alls konar skrautleg hverfi og festumst á gatnamótum. Hálfa leiðina keyrðum við í fyrsta gír, sem kom minna að sök en maður gæti haldið, vegna þess að umferðin er frekar hæg. Ég skildi ekki hvers vegna bíllinn skipti aldrei upp. Svo kom í ljós að þessi sjálfsskipti bíll skiptir sem sagt ekki sjálfur um gír – maður þarf að ýta við gírstönginni. Á bílastæðinu í verslunarmiðstöðinni náðum við ekki lyklinum úr – sama hvað við gerðum, hvaða trixum við beittum. Á endanum fundum við takka sem á stóð P – þegar búið var að ýta honum inn náðist lykillinn úr. Allt tók þetta um einn og hálfan tíma – en verslunarmiðstöðin sem við fórum í er í um 20 mínútna fjarlægð. Umferðin er í sjálfu sér frekar stressandi og óþægileg – en ekkert á við þennan helvítis lúxusbíl sem við vorum að keyra og er einhver mesta tiktúrumaskína sem ég hef sest í um ævina. Ég hélt að pælingin með sjálfsskiptum bílum væri að maður settist bara upp í þá og keyrði af stað?

Við eyddum svo einum og hálfum tíma í sjálfri verslunarmiðstöðinni þar sem ömurleg tónlist var á viðstöðulausu blasti. Skemmst er frá því að segja að Nadja fór í sim-korta leiðangur og fékk bara kort fyrir sig – mátti ekki taka fyrir mig fyrst ég var ekki á staðnum – og ég fékk ekki neitt af því sem mig vantaði. Já og við vorum í vitlausu molli – alls ekki því molli sem við ætluðum í. Við vorum í Mega Mall – sem var alls ekkert svo mega, enda bara hálfbyggt.

Svo keyrðum við heim og það tókst svo til vandræðalaust, nema við fundum ekki innganginn í bílastæðahúsið fyrren seint og um síðir. Þá var klukkan orðin sex og of seint að vinna meira, of seint að gera jóga – allt einhvern veginn of seint og ég orðinn vitlaus af misbældri gremju. Ég er enn að vinna í því að ná mér niður – hugsanlega fer ég aldrei aftur út úr húsi. Enda þarf ég að skrifa bók, ég má ekki vera að þessu.

Fréttirnar eru sem sagt þær að þótt maður sé í þriðja heiminum þá þýðir það ekki að vandamál manns séu ekki fyrsta heims þegar maður er fyrsta heims gaur með fyrsta heims heimilisfang og fyrsta heims greiðslukort.

Í öðrum fréttum þá hefur Trump sem sagt ákveðið að fella niður alla neyðaraðstoð við Hondúras, El Salvador og Guatemala. Af því honum finnst yfirvöld (sem hann hefur í vasanum) ekki gera nóg til að sporna við flóttamannastrauminum. Þetta mun án nokkurs vafa valda frekari fátækt og ringulreið hér sem mun styrkja tök gengjanna (og ríkisstjórnarinnar, sem gengin hafa í vasanum) og valda enn frekari flótta úr landi. Þetta er svolítið einsog að fá sár og ákveða að sparka svo í sárið fyrir að meiða sig. Lógíkin er 100% sólítt.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png