Mega Bites

Ég átti afmæli og varð 41 árs. Það er hefð að vekja afmælisbörn í rúminu í okkar fjölskyldu en það er líka hefð að ég sé mjög morgunsvæfur og ég hef átt sérstaklega erfitt með svefn hérna í Hondúras – vaknað að ástæðulausu um miðjar nætur og legið andvaka klukkustundum saman. Svo af tillitssemi við mig var ákveðið að vekja mig seint frekar en snemma. Ég hins vegar vaknaði við umgang – þótt hann hafi alls ekki verið mikill – upp úr sjö eða sirka þegar Nadja læddist fram úr til að fara í búð að kaupa morgunmat. Svo lá ég bara í rúminu og beið þess sem verða vildi. Mér fannst ég ekki geta farið fram úr – og þannig eyðilagt vakninguna fyrir vekjurunum – en það munaði nú nokkrum sinnum litlu. Það vill til að ég er mjög þolinmóður maður og stíg hvort eð er eiginlega aldrei upp úr rúminu um leið og ég vakna. Eitthvað rúmlega tíu komu þau inn til mín með kökur og kjötsamloku og kaffi og pakka. Ég fékk leikfangabyssu, stækkaða ljósmynd af ljóni sem var búið að krota einhverjum málningarklessum á (ásamt boði um að fara og velja mér alvöru málverk í galleríi), ægilegan túristabol merktan Hondúras og kaffikrús.

Eftir morgunmat fórum við í galleríið, keyptum málverk af manni með hatt og gítar, og svo í hádegismat á hinn stórgóða veitingastað Mega Bites.


Galleríið var í s.k. strip mall – þar mættum við þessum vinalega herramanni sem vísaði okkur réttan veginn. Svona menn eru bókstaflega alls staðar hérna og alltaf með þessar skemmtilegu haglabyssur undir hendinni.

Mega Bites er nördahamborgarastaður, fullur af alls konar ofurhetju- og tölvuleikjadóti, og við enduðum þar nú eiginlega bara fyrir tilviljun. Aram var dolfallinn – þótt það væri varla hægt að segja að það væri ætur biti fyrir hann að éta þarna (hann er grænmetisæta). Nadja pantaði mozzarellastangir og chili-franskar fyrir þau – án þess að átta sig á því að chili-frönskum er ekki drekkt í pipar eða kryddi heldur chili con carne. Þau fengu franskarnar okkar Ainoar og við tókum chili-franskarnar. Frændi eigandans, sem afgreiddi okkur, talaði mjög góða ensku svo okkur grunaði að hann hefði verið í Bandaríkjunum en verið vísað úr landi – það er mjög mikið af þannig fólki hérna, annar hver leigubílstjóri – en svo reyndist ekki. Hann sagðist oft hafa spáð í að fara en það væri kannski ekki til neins núna, en hver veit. Mestu skipti núna að losna við helvítis forsetann.


Um kvöldið fórum við út að borða perúskt. Ég fékk einhvern ægilegan maríneraðan svínabita sem ég torgaði engan veginn en þetta var nú samt mjög gott allt. Ég fékk líka mjög góðan Pisco Sour með snert af ástaraldinsafa og perúskan bjór sem heitir cusqueña. Leigubílstjórinn sem keyrði okkur heim hafði búið í Bandaríkjunum í mörg ár áður en honum var vísað úr landi. Hann virtist fremur ósáttur.


Og síðan eru liðin hundrað ár. Ég hef verið frekar slappur alla vikuna – hugsanlega ofgerði ég mér á hlaupabrettinu á sunnudag og er búinn að vera að gúgla alls konar um bætiefni og íþróttadrykki síðan. Ég svitna alveg hrikalega og loftræstingin í ræktinni er léleg en ég drekk líka mjög mikið vatn, bæði fyrir og eftir og á meðan. Ég hljóp mikið úti í Víetnam en þá var ég úti undir beru lofti – hér er ekkert hægt að hlaupa úti án þess að verða rændur – og stoppaði alltaf í lítilli búð í jaðri hrísgrjónaakranna, sem var eiginlega bara heimili með frysti og skilti, og keypti mér íþróttadrykk með öllum helstu steinefnum. Hér er bara svo mikið vesen að komast í búð – þarf helst að byrja á því daginn áður að biðja húsbóndann á heimilinu að skilja bílinn eftir næsta dag – að ég hef enn ekki komist til að kaupa mér bætiefni eða íþróttadrykk.

Ég sit stundum úti við laug og skrifa. Þar er stórt borð í skugga en þetta borð er hægt að taka frá fyrir veislur og þvíumlíkt – við hliðina er grill. Í gær var greinilega búið að taka það frá, raða alls konar afmælisdóti á það, svo ég settist bara í steikjandi sólina og skrifaði þar til rauk úr mér. Þá fór ég að synda. Kannski hjálpar slík hegðun ekki til við sleni en stundum hef ég áhyggjur af því að fá ekki nóg d-vítamín af því ég er svo mikið inni og svo mikið annars í skugganum.

Í dag ætlum við Aram loksins í bíó. Spiderman-myndin er frumsýnd í dag og við eigum miða í einhver voða fín hreyfisæti klukkan fjögur. Við erum mjög peppaðir – nú er bara að vona að byltingin verði eftir bíó en ekki fyrir einsog síðast.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png