Manic Pixie Dream Girl og helförin

Í fyrsta skipti í rúman mánuð vaknaði ég heima hjá mér við vekjaraklukkuna mína. Nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku á ferðalagi, til þess að missa ekki af flugi, og nokkrum sinnum hef ég vaknað við vekjaraklukku Nödju og einu sinni þennan mánuð hef ég farið á fætur og borðað morgunmat með fjölskyldunni minni fyrir skóla – það var á maskadaginn. En það á þá að heita að ég sé heill heilsu. Samt hósta ég svolítið og sýg aðeins upp í nefið. Fór í ræktina og hljóp stutta 3 kílómetra og hugsaði við hvern hósta – þeir voru kannski 5-6 – að nú væru allir að hugsa hvort ég væri með kórónaveiruna. Hóstaði einu sinni á Heimabyggð í hádeginu og framkvæmdastjórinn spurði hvort þetta væri þurr eða blautur hósti og tók svo niður sjúkrasögu mína til öryggis.

Annars fór dagurinn öðruvísi en ég hélt. Í gærkvöldi var allt útlit fyrir að ég væri að fara að taka að mér stórt verkefni sem myndi krefjast fullrar einbeitingar og langra vinnudaga í rúman mánuð. Planið var þá að ryðja því af vinnuborðinu í dag sem gæti hugsanlega orðið fyrir mér, truflað þessa einbeitingu og tekið upp dýrmætan vinnutíma. Í morgun fékk ég svo tölvupóst þar sem fram kom að verkefnið – sem raunar kom upp bara á helginni, en með þannig deddlæn að ég gæti varla beðið boðanna – myndi hugsanlega annað hvort frestast eða falla niður. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort af verður. Og þá fór dagurinn í meira dól en til stóð. Fyrst fór ég í ræktina og svo þurfti ég að finna bíllyklana og það gekk illa – endaði með að fara upp í menntaskóla og fá lyklana hennar Nödju (sem vissi þá líka um mína, hafði óvart tekið þá). Þegar þeir voru fundnir renndi ég til Súðavíkur til að skila stúdíóbúnaði til Ödda – og endaði reyndar á því að kaupa af honum hljóðkortið á höfðinglegum kjörum. Þar drakk ég talsvert af kaffi og gaf popparanum kökubita sem ég bakaði með krökkunum í gær. Svo fór ég í mat á Heimabyggð og lenti á kjaftatörn um 30 ára gamal ástarmál hérna í bænum.

Þegar ég kom á skrifstofuna byrjaði ég svo eiginlega á því að sofna í hægindastólnum mínum. Bara örstutt, en samt. Nú er ég að velta því fyrir mér hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur, eiginlega. Sennilega ætti ég að ganga frá skattadóti og skrifa pistil – og svara þessu viðtali þarna sem ég nefndi í síðustu færslu. En ég er auðvitað ekki innblásinn og þegar maður er ekki innblásinn sofnar maður bara í hægindastólnum. Sorrí, skattgreiðendur.

***

Á FB-þræði hjá Hildi Knúts rakst ég á þessa mynd:

Á þræðinum er ýmislegt rætt – að þetta eigi líka við um bíómyndir, sé kannski meira almennt fyrstubókarsyndróm en eitthvað sem eigi bara við um karlmenn. Fá dæmi hafa verið tekin þegar þetta er skrifað og bara eitt sem er eftir karlmann – Illska. Og ég er búinn að vera að velta því fyrir mér, án þess að þora að spyrja, hvort það sé þá Arnór eða Ómar sem sé illa dulbúin rómantísk útgáfa af sjálfum mér. Eða hvort það sé jafnvel Agnes og Arnór þá kannski eins konar manic pixie dream girl í nasistalíki?

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png