Magnús Pálsson í Hafnarhúsinu; Maómyndir Errós; Þvottadagur; Stand By Me; Yahya Hassan 2; Er það haf

Ég fór á yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar í þarna … ég er ekki viss hvort það er listasafn Reykjavíkur eða Íslands. Hafnarhúsið. Kostaði 1.800 krónur inn fyrir utanbæjarmann – sennilega heitir það túristaprís í borginni. Menning er ansi dýr ef maður ætlar ekki bara að hafa hana spari. Í sjálfu sér er þetta ekki mikið meira en í bíó en eftirspurnin er auðvitað ekki sú sama – og aðgangur að söfnum ætti bara að vera ókeypis. End of socialist rant.

Ég hef lengi haft mætur á Magnúsi án þess að sjá mikið af verkum hans. Ég á draumabókina hans, The Skinned Rabbit, og geymi í ljóðahillunni minni þótt hún eigi kannski heima annars staðar. Og svo hef ég rekið augun í eitt og annað á netinu eða í sjónvarpi – einhvers staðar hef ég séð hljóðljóðakórinn flytja verk, ekki live, bara af skjá. Það er einhver dásamleg blanda af leik og alvöru í þessum verkum – hvort sem hann er að snúa upp á rýmisskynjun manns eða hugmyndir um þjóðsagnaarfinn.

***

Í næsta sal sá ég Erró. Þar var sýning um heimsreisu Maós. Hann er alltaf jafn fínn og alltaf kemur hann jafn lítið á óvart, einhvern veginn. Sem er kannski engin nauðsyn heldur. Ég bara svona rétt ráfaði inn til að drepa tímann fram að kaffideiti sem ég átti úti í bæ.

***

Ég las Þvottadag eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Það er einhver tónn í skrifum Jónasar sem er ómögulegt annað en að láta sér líka við. Mjög afslappaður og það eru litlar sprengingar og lítið tráma – og samt er þetta ekki „spennuþrungið“ eða óþægilegt, beinlínis. Ljóðið um Michael Jordan og þrána eftir þránni hitti mig annað hvort fyrir á svipuðum tilfinningaslóðum eða verpti þeim í mig (takk, eða hittó). Óþægindin eða spennan hérna eru eitthvað annað – ekki óhugnanleg og ekki einsog hvíli neitt undir yfirborðinu, eitthvað sem maður sjái ekki, manía eða þunglyndi, heldur virkar þetta allt slétt og fellt og ljóðin koma til dyranna einsog ljóðmælandinn er klæddur. Held ég. Og samt er eitthvað þarna – eitthvað sem nuddar mann og vekur upp í manni tilvistarkrísur og hugarangur. Þetta eru auðvitað sjálfur af sjálfinu – þær er algerlega ráðandi í nær öllu útgefnu efni þessi misserin – og ekki alveg mín fagurfræði. Ég man ekki um hvern það var sagt – einhvern algeran bastarð í listum, pólarandstæðu hins indæla (ljóðmælanda) Jónasar – að hann þyrfti þá bara að vera nógu góður til að fólk gæti ekki hafnað honum. En Jónas vinnur mig yfir þrátt fyrir fagurfræði sína, frekar en hitt, að fróa fagurfræðinni sem ég hef fyrir – og það er auðvitað mjög gott.

Sidenote: Ég las bókina í flugvél og bandaríkjamaðurinn við hliðina á mér benti á bókina og sagðist hafa hitt Jónas á kaffihúsi í Reykjavík. Jónas hefði mælt með því að hann læsi Kafka, það gæti ekki klikkað. Jónas hefur síðar staðfest sögu Bandaríkjamannsins. Sem hét Jeff.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Stand By Me. Ég átti að velja og ég valdi að fjölskyldan færi saman á Frozen 2. Sem hefði þýtt að við hefðum horft á hana á ensku og það voru allir búnir að samþykkja það en beiluðu síðan á síðustu stundu – Aram þóttist of mikill töffari til að fara á hana og Aino sagði að vinkonur sínar ætluðu allar á hana saman á hana á íslensku daginn eftir (það reyndist svo bara fjölskylduferð einnar vinkonu, sem hún sneikaði sér inn í). Ég gaf frá mér valið – stungin í bakið af mínum eigin börnum, sár og vælandi – og Nadja valdi Stand By Me.

Myndin er auðvitað byggð á sögu Stephens King, The Body, sem ég hefði getað svarið að væri Richard Bachmann bók (það var dulefni Kings um hríð). En stutt gúggl kannast allavega ekkert við það. Alger klassíker og kemur inn á alls konar kunnugleg vandræði unglingsstráka – einelti, viðkvæmni vs hörku, fátækt, dauðaþrána og kynhvötina. Söguþráðurinn er bara svona: Hópur drengja fer í gönguferð út í skóg, eftir járnbrautarteinunum, í leit að líki sem þeir hafa frétt að liggi þar. Hópur eldri stráka ætlar líka að finna líkið. Allir ætla þeir að fá dýrðarljómann sem fylgir því að birtast í blaðinu.

Ég man ekki hvenær ég sá þessa mynd síðast. Milli tvítugs og þrítugs sennilega. Og fyrst sem unglingur. Mér finnst gaman að velta því fyrir mér hvernig listaverk litu út ef þau væru gerð í dag – hvað væri óásættanlegt á Twitter – og þótt Stand By Me sé augljóslega svona fremur þroskað verk – miðað við t.d. Ace Ventura – þá myndu strákarnir sennilega ekki segja jafn marga mamma-þín-er-hóra brandara. Það eru nærri tvær vikur frá því við horfðum á myndina og ég man ekki hvort þeir sögðu einhverja hommabrandara – sem hefði sannarlega verið í samræmi við bæði sögutíma myndarinnar og tökutíma og karakter drengjanna. Sem eru indælir og viðkvæmir og brjálaðir og bara ofsalega miklir strákar af gamla skólanum. Aggressífir.

Side note: Á fyrirlestri í gær sá ég glæru með kynningarmynd fyrir heimildamyndina The Brandon Teena Story þar sem tagglínan var: „All he wanted was to be one of the guys. But he was a girl.“ Og það sló mig að þetta hefði heldur aldrei gengið í dag.

***

Yahya Hassan gaf út öllum að óvörum sína aðra bók fyrir nokkrum vikum. Einn daginn var hún ekki til og enginn vissi af henni og þann næsta var hún í öllum bókabúðum. Hún heitir Yahya Hassan 2 og lítur alveg eins út og fyrri bókin. Svört kápa, öll ljóðin skrifuð í hástöfum. Fagurfræðilega er heldur ekki neinn stórkostlegur munur á 1 og 2 – nýja bókin (sem er sjálfa af sjálfinu) fjallar hins vegar um eftirköstin af fyrri bókinni. Yahya er orðinn heimsfrægur og trylltur af maníu og rugli – þetta er svona einsog Kanye West, ef Kanye kynni sig ekki.  Það er ennþá of mikið gettó-trash í Yahya – hann er með sand af seðlum, ofsækir konur sem hann þráir og leysir vandamál sín með ofbeldi – og hann er alltaf fastur í að vera „perker“ (ég man ekki hvernig Bjarki Karlsson þýddi það í fyrri bókinni – en tyrkjaskratti, negri, þetta þýðir eitthvað í þá áttina). Hann er bara orðinn mjög markaðssettur perker, mjög ríkur perker, og öflin sem toga í hann og stýra honum eru önnur en þau voru áður.

Bókin fær frábæra dóma alls staðar, og var svo sem ekki við öðru að búast. Það er ósennilegt að Yahya slái sín eigin sölumet en að mörgu leyti er þetta kunnuglegri frásögn en í fyrri bókinni – þetta maníu-meltdown súperstjörnunnar og ofsalega hart. Þótt hið rasíska fyrirkomulag sem lýst er í fyrri bókinni (og á annan hátt í seinni bókinni) sé víða þá var fyrri bókin líklega „danskari“ – vísaði beinna inn í danskt samfélag sem slíkt og sérdönsk element hins rasíska fyrirkomulags. Og þessi heimur kunnuglegri (þótt við höfum fæst aðgengi að honum).

***

Sæbjörg Freyja Gísladóttir gaf á dögunum út bókina Er það hafið eða fjöllin? – um Flateyri og fólkið þar. Bókin byggir á mastersverkefni hennar í þjóðfræði og segir þá sömuleiðis sögu Sæbjargar, sem kom til Flateyrar sem rannsakandi gestur, en féll fyrir rannsóknarefninu og hefur varla farið aftur. Nú er leitun að fólki sem er „meiri Flateyringar“. Spurningin sem Sæbjörg leggur upp með að svara er hvers vegna nokkur búi á Flateyri – og sprettur sennilega af hugmyndum fólks um hversu erfitt það hljóti að vera, í ljósi rekstrarerfiðleika hjá útgerðinni og erfiðra veðurskilyrða og bærinn auðvitað á jaðri veraldar. Hún tekur viðtöl við Flateyringa með alls konar bakgrunn – verkafólk og bankafólk, sumarhúsafólk og fasta ábúendur, fólk sem getur rakið ættir sínar á staðnum margar kynslóðir aftur og fólk sem á bakgrunn og/eða er fætt erlendis, bæði í Evrópu og Asíu.

Bókin er fróðleg og merkileg innsýn – og ekki minna fyrir Ísfirðing heldur en einhvern frá meira framandi slóðum – og svolítið ágengur persónuleiki höfundar skín vel í gegn (sem er gott). Sjónarhornið er einhvern veginn í senn frá utanaðkomandi gesti sem spyr sig og viðmælendur krítískra spurninga og þess Flateyrings sem Sæbjörg er orðin og vill koma byggðinni til varnar; í senn sjónarhorn þess sem exótíserar byggðina og sjónarhorn þess sem vex saman við hversdag hennar. Þetta fléttast saman við sjónarhorn viðmælendanna sem eru ýmist komnir til að leita að „tóminu“ – fólk sem á sitt aktífa líf annars staðar og sækir í sumarhúsin til að fá hvíld – eða til að vinna fyrir sér, eignast pening, færast upp um þrep í lífsstritinu, eða til að fjárfesta tíma sínum og kærleika í framtíð byggðar, taka þátt í þessari fjölskyldu sem Flateyri er.

Ég man ekki hvort það kemur fram hjá einhverjum í bókinni hvað getur verið erfitt að ná kontakt við Flateyringa – ég veit um fólk sem hefur reynt að búa þar og mistekist að komast inn í samfélagið. Ég er ekki viss um að Flateyringar (eða íslenskir míkrókosmósar almennt) séu nærri jafn opnir og þeir halda stundum. Þar sem er mikil samsemd myndast líka harðar línur – þú ert annað hvort með eða ekki. Og Flateyri er klan – núorðið kannski fleiri en eitt klan, reyndar.

Sumt kom mér mjög framandlega fyrir sjónir. Oft virkaði það einsog Flateyri væri einhvern veginn miklu nær því að vera klisjan um dreifaraplássið. Sjóarar eitthvað með skæting um „menntamenn“ – og ítrekað talað um að fólk að sunnan (nánar tiltekið ónefnd hljómsveit frá RVK, sem spilar á Vagninum) þyki svo undarlega klætt. Ég veit ekki betur en Önni eða Maggi Dallas hafi lengst af bara klætt sig einsog hver annar MH-ingur. Og svo stendur reyndar líka annars staðar að á Flateyri séu „bara allir í fötum og sjá ekki klæðnaðinn á hinum nema þau séu óvenju fín eða óvenju drusluleg“. En þau tóku eftir undarlegum fötum Reykvíkinganna.

En sjónarhornið er heiðarlegt og bókin er vönduð og það er það sem mestu skiptir – í því er gildi bókar sem þessar fólgið (frekar en t.d. hvort að ég deili þeirri sýn í einu og öllu). Og í landi þar sem byggðapólitík þykir almennt bara einhver hallærisleg bitlingaþvæla sem sé rædd á fundum framsóknarmanna, milli þess sem þeir þukla hrúta og grípa í píkur, er þetta óvenju töff innlegg.

***

„Tunglið er ekki eins og nögl / tunglið er eins og þanið segl“ skrifar Brynjólfur Þorsteinsson í ljóðabókina Þetta er ekki bílastæði. Og ég hugsa fyrst hvað þetta sé fín lína – og hún bergmálar með mér – og svo hugsa ég hvað þetta sé nú samt rangt. Tunglið er ekki einsog þanið segl, tunglið er miklu meira einsog nögl. Skömmu síðar skjóta svo fingurnir upp kollinum – fyrstur allra í fingravikunni er mánufingur (svo þriðjufingur, miðhandarfingur, fimmtufingur og föstufingur) og þá veit ég að ég hef rétt fyrir mér. Tunglið er nögl á mánufingri.

Bókin er léttur og lýrískur súrrealismi. Þetta flýtur vel og er átakalítið en vandað og fallegt og áhugaverðar myndir víða. Ég held ég þurfi samt að lesa hana aftur til að ná betri tökum á henni. Kannski er ég of upptekinn af að leita að heildarmynd í verki sem er meira singlar í svipuðum rómi. Og kannski er ég bara ekki búinn að finna þræðina. Reyndar hef ég mjög gaman af singlum – það eru bara allir alltaf eitthvað að skrifa heildarmyndir og maður skilyrðist sem lesandi. Líka þegar maður skrifar svona um einhverjar heildir – tekur fyrir bækur sem eitt lokað fyrirbæri og hefur ekki tíma eða rými til að rýna í þær einsog 30 ólík verk (þess vegna sagði ég líka svona fátt um sýningu Magnúsar Pálssonar hér að ofan – hvar á maður eiginlega að byrja???).

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á The Blair Witch Project. Aðallega af því ég hafði aldrei séð hana og hvað sem gæðum hennar líður þá er þetta stór póstur í kvikmyndasögu síðustu áratuga. Fyrsta „found footage“ myndin og eitt af fyrstu „viral“ listaverkunum. Sú saga komst fljótt á skrið að margir hefðu talið að þetta væri í alvöru fundnar upptökur og þetta hefði allt gerst. Mig grunar reyndar að það hafi verið meira á hinn veginn – sá orðrómur að margir hefðu talið að þetta væru alvöru fundnar upptökur barst mér að minnsta kosti áður en myndin kom í bíó á sínum tíma. Ég man reyndar til þess að hafa farið á Grizzly Man eftir Herzog á sínum tíma og gengið út af henni handviss um að þessu væri öllu leikstýrt – en svo reyndist hún auðvitað vera alvöru „found footage“. Ekki að í samsetningunni og ýmsum öðrum þáttum felist ekki líka leikstjórn.

Nadja hafði séð BWP áður og var ánægð að sjá hana aftur, fannst hún jafn góð og í denn. Mér fannst hún áhugaverð og jafnvel listrænt góð – og eitthvað frábært við að svona mynd slái í gegn – en ég varð sjálfur aldrei hræddur. Sem hlýtur að þýða falleinkunn fyrir hryllingsmynd.

***

Ég fór á nokkra „viðburði“ í vikunni. Ég veit ekki hvað ég vil hafa um þá mörg orð. Ég kom sjálfur fram á Nordisk Karisma Salon í Kaupmannahöfn ásamt Jessie Kleeman, Ciu Rinne, Amine Mesnaoui, Pär Thörn og Lars Skinnebach. Flestir voru í gjörningagírnum – Jessie saumaði áhorfendur saman, Lars lagðist í gólfið og gargaði, Pär kyrjaði (á arabísku, held ég) og spilaði noise þess á milli, Cia söng ljóðin sín á meðan Amine spilaði á píanó. Þau voru öll frábær. Ég las bara – eins slétt og fellt og það verður á mínum bæ – upp úr Óratorrek, Ljóð um hold og frjósemi þess. Mjög fínt kvöld; en ég hef verið betri.

Svo fór ég á upplestur ótal skálda á Stofunni í Reykjavík. Sennilega hátt í þrjátíu manns að lesa upp. Hver las bara eitt ljóð og með fáum undantekningum voru flestir nýgræðingar – a.m.k. á sviði (það þurfti stöðugt að ýta þeim að míkrafóninum). Sumir voru góðir og aðrir voru minna góðir, einsog gengur. Þetta var lokahóf fyrir kúrs sem Steinunn Sigurðardóttir kenndi – og hún las líka. Ég þekkti bara örfáa sem lásu upp fyrir – mjög gaman að geta bara farið og fengið smakkprufu af þrjátíu óþekktum skáldum. Það sló mig að sérstaklega í fyrri hlutanum væri mikið af ljóðum sem gengu út á pör – ég og hann, hún og hann, þú og ég, þú og hún, o.s.frv. Mér datt í hug að kannski hefði það verið verkefni úr einhverjum tíma en kannski er þetta líka bara algengt og kannski tók ég svona mikið eftir þessu af því ég er sjálfur að vinna í texta sem gerir þetta.

Loks fór ég á umræðufund hjá Félagi íslenskra fræða um sjónvarpsþættina Svona fólk. Ég er einstaklega illa til þess fallinn að kommenta mikið á þá umræðu af því að ég sá ekki þættina (þótt ég hafi séð nokkuð af debattinum í kringum síðasta þáttinn). Í panel voru Björn Þór Vilhjálmsson, Jónína Leósdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Björn tók fyrir heimildarmyndina sem fyrirbæri – hvað hún væri og hvernig hún virkaði – og tæpti svo á því hvernig Svona fólk passaði inn í módelið. Hafdís Erla var fulltrúi „ungu kynslóðarinnar“ og „menntafólksins“ – úr kynja- og kvennafræði – og byrjaði á að þakka fyrir það þrekvirki sem myndin væri og fara í gegnum hvers vegna hún væri mikilvæg, áður en hún svo hjólaði í hinar umdeildu lokamínútur (sem snúast um inngöngu BDSM-félagsins í Samtökin 78). Rök hennar voru sannfærandi og sennilega myndi ég alltaf enda hennar megin í þessari rökræðu (um Samtökin og BDSM – um lokamínútur myndarinnar get ég ekkert sagt) en hún var augljóslega komin í svolítið knosaðar stellingar – ekki agressíf en búin undir að láta ráðast á sig – og tvinnaði fullmikið saman buzzorðum úr fræðunum. Jónína var alveg á hinum pólnum, frá bæði Birni og Hafdísi – persónuleg og sjarmerandi og leiftrandi klár án þess að brynja sig gáfunum. Hún leyfði sér, einsog Björn, að hafa enga sérstaka skoðun á umdeilda hlutanum. Mér hafði heyrst á fólki að það væri hætta á því að fundurinn færi úr böndunum í umræðum en eiginlega gerðist fátt eftir að framsögum lauk. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, leikstjóri, var í salnum – breiddi úr sér óhrædd og skæsleg á öðrum bekk, líkt og Hafdís ekki agressíf en við öllu búin. Hún tók aðeins til máls aðspurð í lokin en blandaði sér annars ekki í neitt.

***

Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Muddy Waters.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png