Lykt af brenndum fjöðrum, Skrímsli í París og Samablóð

Þetta var fremur róleg vika í menningarneyslunni. Ég veit ekki hvað veldur – ekki einsog maður hafi ekki nægan tíma. Sennilega skrifaði ég síðast á þriðjudegi og þá er hún degi styttri. Reyndar eru alls konar hlutir mjög tímafrekir hérna. Laugardagurinn fór sem dæmi nánast allur í að versla (án þess að við værum að kaupa nein ósköp – í matinn og nokkra smáhluti sem vantaði). Mest kemur mér á óvart hvað ég las lítið – í bók að minnsta kosti. Eina skepnu – svo er ég reyndar langt kominn með aðra bók en hún býður næstu viku (og gengur furðu hægt).  Ég hef talsvert lagt mig eftir greinum um ástandið hérna í Hondúras og fundið lítið en það sem ég hef fundið er ítarlegt og gott – einsog þeir sem skrifi um stöðuna leggi meira í það vegna þess að það þarf alltaf að útskýra allan bakgrunn og kannski skiptir bara meira máli að það sé vel gert þegar það eru ekki allir að skrifa um þetta.

Nema hvað. Eina stutta bók – Lykt af brenndum fjöðrum eftir Daníil Kharms. Bókin kom út sem Sérrit Bjarts og frú Emilíu fyrir sléttum 100 árum. Nei, djók, fyrir kannski sirka 20 árum, gæti ég trúað. Þetta eru stuttir textar, ein lengri smásaga, brot/athugasemdir og nokkur ljóð í restina. Stíllinn er heillandi afslappaður og húmorinn það sem ég held að kallist „sérlundaður“ – svona Tvíhöfði síns tíma, eða Andy Kaufman ef maður vill fara lengra aftur. Maður veit ekki alltaf hvað á að vera fyndið við þetta en þetta er samt óneitanlega frekar spaugilegt. Ég hugsaði mikið til Friðriks Sólnes meðan ég las – eitthvað til Borgesar (þótt það sé kannski langsótt), Þorsteins Guðmundssonar og Barkakýlis úr tré og jafnvel einhvers einsog Aesópar.

Einfaldast er að taka bara dæmi:

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á bíómyndina Skrímsli í París. Aino valdi. Við höfðum séð þessa mynd áður – ég virðist reyndar hafa misst af byrjuninni í fyrra skiptið, man ekki hvers vegna – en horfðum á hana aftur vegna þess að það ku hollt að horfa á hluti aftur (og lesa hluti aftur) og vegna þess að við áttum góðan eftirmiðdag í París um daginn og ræddum þá talsvert um hvar við hefðum séð Eiffelturninn og allt hitt áður. Ladybug – þættir sem Aino horfir talsvert á og við stundum með henni – gerast til dæmis í París.

Skrímsli í París fjallar um tvo menn sem fara óvarlega á tilraunastofu vísindamanns (sem er fjarri góðu gamni) með þeim afleiðingum að lítil fló verður risastór og fer að skelfa Parísarbúa alls staðar þar sem hún fer. Flóin kynnist svo kabarettsöngkonu (vinkonu mannanna tveggja) sem uppgötvar að hún getur sungið einsog engill – dulbýr flóna og syngur með henni í kabarettsýningunni við miklar vinsældir. Á meðan þessu stendur er lögreglustjóri bæjarins – og vonbiðill kabarettsöngkonunnar, við lítinn fögnuð hennar – að reyna að klófesta flóna, aðallega sjálfum sér og sínum ferli til dýrðar. Allt endar þetta með ósköpum, einsog vera ber, en fer svo vel á síðustu stundu.

Þetta er skemmtileg saga og þótt ég hafi oft vel því fyrir mér hvað hún væri að reyna að segja mér – hver sögn myndarinnar væri, einsog maður segir – þá velti ég því samtímis talsvert fyrir mér hvort hún þyrfti að hafa einhverja sögn. Listaverk hljóta að mega vera „bara sögur“ – rétt einsog þau mega hafa sögn eða boðskap án þess að þeim beri skylda til þess. Maður er sennilega sérstaklega vakandi fyrir þessum víddum í barnaefni af því maður óttast alltaf að bækur og myndir muni breyta börnunum manns í Vigdísi Hauks ef maður fylgist ekki með. Það er ábyggilega misskilningur.

Það sló mig reyndar að ólíkt mörgum bíómyndum, sem hafa jafnan svipaðan strúktúr og plottuð smásaga eða nóvella (kynning, plottdrífandi breyting sem veldur ójafnvægi í heimi sögunnar, uppgjör) þá væri margt þarna líkara skáldsagnauppbyggingu á háu tempói. Margir karakterar, mörg hliðarplott (þótt við sæjum mörg þeirra bara stuttlega) og svo framvegis. Ég spekúleraði ekkert í þessu frekar – man bara að ég hugsaði þetta á meðan myndinni stóð og kannski var þetta bara einhver dilla sem ekki stenst.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á sænsku bíómyndina Samablóð.

[HÖSKULDARVIÐVARANIR]

Í upphafi myndar hittum við fyrir fjörgamla kellingu, Elle-Marju (sem kallar sig síðar Christinu) og son hennar sem dregur hana norður til Samalands í jarðarför systur sinnar. Kellingin er full af fordómum í garð sama – þeir stela, ljúga, jojkið er bara eitthvað garg og svo framvegis – og vill alls ekki fara og líður illa í bæði jarðarför og erfidrykkju, neitar að gista hjá ættingjum sínum og nælir sér í hótelherbergi. Eftir að sonur hennar og barnabarn skilja hana eftir (hún vill ekki fara / bregst of seint við) og fara með þyrlu upp á fjall til að taka þátt í hreindýramerkingum fer hún á diskótek á hótelinu og dettur inn í fortíðina.

Þá er hún ung kona í Samalandi á fjórða áratugnum. Hún og systir hennar eru sendar í skóla þar sem eru bara samar og allir alltaf klæddir í samabúning. Hún verður fyrir margs konar fordómum – kennarinn, ung, fögur og afar sænsk kona, álítur þau of heimsk fyrir frekara nám og segir að heilarnir í þeim dugi ekki til að lifa af í borginni, samar deyi út ef þeir haldi sig ekki norðurfrá með hreindýrunum. Strákar í nágrenninu tala illa um samana og þegar hún konfronterar þá skera þeir í eyrað á henni (einsog hún merkir sjálf hreindýr nokkru fyrr). Allir horfa á þau og hafa fordóma. Höfuðlagsfræðingar koma og mæla börnin – taka myndir af þeim allsberum og grátandi á meðan nágrennisstrákarnir liggja á rúðunum.

Kvöld eitt stelur hún kjól af kennslukonunni og fer á ball – þar kynnist hún ungum manni sem heillar hana og þau eru komin afsíðis til að kela og kannski ríflega það þegar fólkið úr heimavistarskólanum mætir og dregur hana burt, en ekki áður en hún fær heimilisfang stráksins. Nokkrum dögum síðar stingur hún af til Uppsala þar sem hún bankar upp á hjá mjög svo borgaralegum foreldrum stráksins – sem er á balli þegar hún kemur – og segir að sér hafi verið boðin gisting. Þau eru fremur hvumsa og ókurteis og geta varla talað við hana af furðu og viðbjóði. Strákurinn kemur heim um nóttina – þau talast við, skemmta sér, sofa hjá – og daginn eftir láta foreldrar hans hann senda hana sinn veg (enda höfðu þau heyrt þau stunda kynlíf, vissu einhvern veginn að hún væri sami og þar með óverðug og höfðu áhyggjur af að hún yrði eða væri þegar ólétt).

Elle-Marja skráir sig í skóla undir nafninu Christina – segist vera frá Smálöndum. Vantar pening fyrir skólagjöldum – spyr ríka strákinn sem spyr hvers vegna hún spyrji ekki foreldra sína. Þá fer hún aftur norðureftir, spyr mömmu sína, sem neitar fyrst en gefur henni að endingu silfurbelti pabba síns (sem er dáinn).

Þá erum við aftur á diskótekinu. Kellingin starir út um gluggann – og einhvern veginn augljóslega breytt, augljóslega ekki full af sjálfshatri og skömm. Daginn eftir fer hún gangandi á fjöll og finnur samabúðirnar. Myndin endar.

Þetta er kraftmikil mynd og hún er betri þegar maður horfir á hana en svona í endursögn. Hún er vel leikin, vel leikstýrt, falleg og sagan er trámatísk og erfið. Við Nadja vorum sammála um það þegar hún kláraðist að myndin væri góð. Og hún er góð þrátt fyrir vankanta sína – sem ég tel vera eftirfarandi:1. Einsog furðu margar sænskar myndir og bækur er veruleiki hennar að mörgu leyti svarthvítur – ég sakna þess að það séu núansar. Svíarnir voru allir ofsalega sænskir og samarnir ofsalega samískir og sjálfshatandi saminn ofsalega sjálfshatandi sami og rasisminn ofsalega rasískur. Línurnar eru svo skarpar. Þetta er eitthvað sem á rætur a.m.k. allt aftur í sænska sósíal-realismann og ég held að þetta sé heiðarleg tilraun til þess að líta ekki undan  og gefa ekki afslátt gagnvart hroða heimsins. Svíar eru sem (menningar)þjóð gjarnir á að vera með samviskubit, afar kröfuharðir um sitt réttlæti og einsog þeim finnist rangt að horfa á björtu hliðarnar. Auðvitað á þetta ekki við um alla Svía – kannski bara menningararminn – Svíar eru líka sjálfumglaðir einsog allir aðrir (og margir þeirra eru hreinlega Svíþjóðardemókratar og þeir kunna ekkert að skammast sín).2. Manni finnst einsog sagan sé rétt að byrja þegar hún er skyndilega búin. Ekkert að því að hoppa frá einu aldursskeiði til annars – en það vantaði bara að klára söguna með strákinn í Uppsala (var hann pabbi sonarins? þeir voru líkir) og skólann. Þetta er ekki stór galli og ég get vel fyrirgefið hann.3. Fjörgömul kelling gengur ekki á fjöll þangað sem frískt fólk á besta aldri fer á þyrlu. Ekki einu sinni þótt um æðar hennar renni 400 oktana samablóð.4. Það var ekki sannfærandi að hún hristi bara af sér allt sjálfshatrið með því að standa á diskóteki í nokkrar mínútur og rifja upp æsku sína meðan hún horfði út um gluggann. Við sáum þar ævi hennar í fyrsta sinn og eðlilega hrærðumst við af því – en þetta var ekkert nýtt fyrir henni. Sjálfshatur – afleiðing áratugalangs rasisma sem er alls ekki horfinn þótt hann hafi skánað (og í myndinni virkar hann a.m.k. fremur slæmur enn) – er of inngróið til þess að maður geti bara svona úpsadeisí eitthvað losað sig við það með réttum trigger. Það er búið að kynna okkur fyrir trámatíseraðri stúlku sem elst upp í mjög fjandsamlegu umhverfi og gamalli kerlingu sem getur ekki heyrt jojk í útvarpinu án þess að byrja að ragna – hún fyllist ekkert alltíeinu nostalgískri andakt yfir samalífinu. Ég bara kaupi það ekki.

***

Gítarleikari vikunnar er Robert Johnson. Lagið er Dead Shrimp Blues – Nárækjublús. Á Twitter í vikunni sá ég eitthvað fólk eiga í hinni klassísku samræðu um að gítarinn væri dauður og gítarsóló væru sjálfsfróun fyrir framan annað fólk (einsog það sé ennþá sixtís til eitís og við öll að drukkna í gítarsólóum í meinstrím tónlist). Auðvitað má það til sanns vegar færa samt með gítarleikinn – allur góður gítarleikur er „peacocking“ – einsog margt annað reyndar, t.d. hjólabrettaiðkun, frístæl-rapp og alls kyns aðrar kúnstir. En það er önnur Ella sem ég ætlaði ekki að ræða – Nárækjublúsinn er sérstök tegund af sjálfsfróun fyrir framan annað fólk af því hann fjallar um getuleysi.

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png