top of page

Lu, Longhair og Lviv

Bókmenntahátíðin Atlantide fer fram í upprunalegu verksmiðjunni fyrir LU kexið fræga. Ég ætlaði að vera duglegri að sækja viðburði hátíðarinnar í dag en rak mig á að ekki var boðið upp á túlkun á þeim viðburðum sem mig langaði að sækja – hér tala bara allir frönsku, einsog ekkert sé, nema ég og örfáir aðrir. En ég sat sjálfur í klukkutíma löngu viðtali á sviði og talaði um allt milli himins og jarðar – sagði held ég hálfa ævisögu mína – og fór svo og sat aðra klukkustund við áritun. Ekki svo að skilja að maður sé að árita allan tímann – maður situr bara á rassinum og spjallar eða les og bíður eftir því að einhver birtist og vilji áritun, sem gerist af og til. Eini maðurinn sem ég veit um sem hefur setið og áritað sleitulaust á svona viðburðum er krimma- og fagurbókmenntahöfundurinn Luis Sepulveda heitinn, sem lést úr Covid alveg í blábyrjun faraldursins.


Við útgefandi minn, Anne-Marie Metailie, brugðum okkur síðan yfir í næsta hús við LU-verksmiðjuna, sem vill til að er kastali Önnu af Bretagne. Þar röltum við eftir löngum kastalamúrnum og ræddum meðal annars um Sepúlveda, sem var góður vinur Anne-Marie og ég hitti nokkrum sinnum hér, og æskuár hennar í Nígeríu. Það var afar indælt.


Seinnipartinn fór ég í annan vínyl-leiðangur og uppskar meðal annars eintak af Crawfish Fiesta með Professor Longhair, þar sem er meðal annars að finna hið dásamlega lag Big Chief.

Svo hékk ég á festivalsvæðinu í smátíma – reyndi að finna eitthvað að hlusta á, án árangurs, keypti nokkrar franskar bækur fyrir Nödju og hélt svo upp á hótel til að skoða fréttirnar. Það er svolítið hrottalegt að hugsa til þess að stríðið sé komið til Lviv, sem verandi svo langt frá austurlandamærunum hefur verið að mestu laust við þennan óhugnað. Það er líka bara hrottalegt að hugsa til þess að borgin eigi von á loftárásum í nótt.


Ég sé heldur ekki hvernig þessu getur lokið – það eru ofsaleg svik við lýðræðis- og mannúðarsjónarmið að láta það líðast að Pútín taki einfaldlega Úkraínu, einsog hann ætlar sér augljóslega, og það jafnt þótt hann taki ekki völdin prívat og persónulega heldur komi fyrir einhverri leppstjórn. Eina leiðin til þess að koma áreiðanlega í veg fyrir það er að senda þangað NATÓ-heri og það er mjög líklegt til þess að setja af stað þriðju heimsstyrjöldina. Ég held það væri brjálæði að treysta á að Pútín breyti henni ekki í kjarnorkustyrjöld – þá fyrstu og hugsanlega síðustu. Það er ekki gefið en það er sannarlega ekki hægt að útiloka það. Eða að treysta því að Kínverjar og Rússar myndi ekki hernaðarbandalag gegn Vesturlöndum. En það væri líka brjálæði að treysta því að taki hann Úkraínu taki hann ekki líka Eystrasaltslöndin og gangi svo á lagið. Og hvernig sem fer hlýtur þetta að kalla á nýja heimsmynd og langvinnt kalt stríð.


Ég gekk fram á fjölmenn mótmæli á flandrinu í dag og gladdist að geta gengið til stuðnings Úkraínumönnum og gegn stríði – en það reyndust þá mótmæli gegn covid-takmörkunum stjórnvalda, þá ekki síst bólusetningarpassanum sem maður þarf að sýna alls staðar hér á veitingastöðum (ef maður ætlar að setjast – það má sækja sér mat). Þótt ég skilji að hér séu einhver prinsipp brotin, sem ætti sennilega ekki að brjóta, þá dæsti ég nú bara mjög einlæglega yfir þessu fólk þegar ég mætti því.


29 views0 comments

Recent Posts

See All

Fáðu tilkynningu þegar bloggið er uppfært:

frankensleikir.jpeg
bottom of page