Lokkur úr hári Schillers


Fyrir þremur árum síðan kom ég ásamt hópi norrænna höfunda til smábæjarins Marbach í Þýskalandi, sem er meðal annars frægur fyrir að vera fæðingarstaður ljóðskáldsins Friedrichs Schiller. Þar í grenndinni er að finna mikið safn um Schiller sem og þýsku bókmenntaarkífurnar og safn sem þeim fylgir – Safn nútímabókmennta – þar sem má skoða frumritin af Réttarhöldunum eftir Kafka og Berlin Alexanderplatz eftir Döblin, auk fleiri verka. Þar eru líka dauðagrímur af frægu fólki – t.d. af nafna Schillers, Nietszche.

Arkífurnar sjálfar eru baksviðs, fyrst og fremst ætlaðar fræðimönnum. Þangað fengum við líka að fara, af því við erum sérstök, og þar fengum að handfjatla alls kyns merkilega gripi – til dæmis smásögu eftir Kafka, Der Riesenmaulwurf.

Á Schillersafninu handan við grasflötina sáum við fötin hans Schillers (hann var mjög lágvaxinn) og lokk úr hári hans – en hið vinsæla ljóðskáld sendi gjarna æstustu kvenkyns aðdáendum sínum slíkan dýrgrip að gjöf.

Sem sagt. Frumrit að skáldverkum. Dauðagrímur. Föt skálds og lokkur úr hári hans.

* * *

Mér hefur lengi þótt hugmyndin um frumritið – eða eintakið – mjög heillandi, sem og þær hefðir og venjur sem skapast í kringum það – hvað við upplifum sem orginalt eða einstakt. Íslenskan á ekkert nógu gott orð yfir autencitet – eitthvað sem er ekta, ekki tilbúið, ektleiki. Sú hugmynd er líka alveg mögnuð – í Víetnam eru allar túristaferðir auglýstar með orðinu authentic og mér sýnist svipað uppi á teningnum á Íslandi. Á meðan staðreyndin er auðvitað sú að Dunkin’ Donuts í Hafnarstræti eru ekkert minna authentic íslenskir en eitthvað lífrænt gistihúsabýli útálandi. Kannski er stærsti sannleikurinn um okkur eitthvað mjög plebbalegt og mjög fjarri því sem við myndum segja um okkur ef við fengjum bara að ráða sjálf.

En eintakið. Eintakið er gætt ektleika en tilvist þess er brigðul – eintakið getur eyðilagst. Þegar ég var barn eyðilagði bróðir minn einu sinni fyrir mér hatt – aflagaði hann. Foreldrar okkar ætluðu að bæta mér þetta upp með því að gefa mér hattinn hans, sem var næstum alveg eins. En það hefði ekki skipt neinu máli þótt hann hefði verið alveg nákvæmlega eins – hatturinn minn var ónýtur og hann kæmi aldrei aftur.

Það er hefð fyrir því í myndlist að búa til skort svo hvert verk sé einstakt eða einstakara. Þannig eru flest myndlistarverk gerð í einungis einu eintaki – skemmist það er listaverkið horfið. Önnur eru fjöldaframleidd í takmörkuðu upplagi. Víða eru lög um það hversu mikið megi fjölfalda verk áður en það hættir að vera „einstakt“ – og hættir að njóta lagalegrar verndar sem slíkt. Þannig lög eru ekki í gildi á Íslandi, það ég viti, en í Bandaríkjunum er miðað við töluna 200. Ef þú framleiðir meira en 200 ertu farinn að búa til vöru sem lýtur öðrum reglum – litið er svo á að eintakið þarfnist ekki lengur sérstakrar verndar.

* * *

Okkur hryllir við hugmyndinni um bókabrennur, þær eru tákn um ægilegustu ritskoðun og kúgun sem fyrirfinnst. Og sannarlega var sú staða eitt sinn uppi að þær gátu kostað mannkyn mikil gæði. Við gleymum ekki bókasafnsbrunanum í Alexandríu svo glatt. Hins vegar eru t.d. bókabrennur nasista og allar aðrar bókabrennur eftir að fjöldaframleiðsla bóka hófst líklega fyrst og fremst hálf kjánalegar – og á stafrænni öld beinlínis sprenghlægilegar. Maður eyðir nefnilega ekki bók svo glatt.

Dæmisaga.

Fyrir mörgum árum síðan bjó ég með besta vini mínum í Berlín og hann ákvað að ljóðabókin sem hann var að skrifa væri ekki nógu góð. Þetta var honum nokkuð áfall en hann ákvað að byrja upp á nýtt með hreint borð. Hann eyddi öllum skjölum af tölvunni sinni, náði síðan í útgáfuna sem hann hafði prentað út og brenndi hana síðu fyrir síðu í stofunni okkar, sem fylltist af reyk og við vorum báðir hóstandi og rauðeygir áður en yfir lauk – líklega megum við þakka fyrir að hafa ekki brennt ofan af okkur hverfið. Þegar hann lokið sér af varð ég að tilkynna honum að ég ætti líka eintök af þessum ljóðum. Ekki væri nóg með að þau væru í tölvunni minni í Berlín, heldur væri eintak af þeim í tölvu móður minnar á Ísafirði, útprent einhvers staðar í dótinu mínu þar, og geisladiskur sem hann hafði sent mér þar sem hann hafði lesið flest ljóðin inn – mp3 af þeim upplestrum væri að finna í það minnsta þremur tölvum, kannski fleirum. Ég gæti ekki einu sinni með góðu móti eytt þeim, þótt ég vildi. Hér þyrfti engan Max Brod, þetta sæi meira og minna um sig sjálft.

Og það þarf ekki tölvuöld til. Í Sovétríkjunum var reynt að banna bækur. Það var reynt í Kína. Það hefur verið reynt úti um allt – en frá því að fjöldaframleiðslan hófst hefur það mér vitanlega aldrei tekist nema að litlu leyti. Bannaðar bækur fá oft miklu meiri dreifingu en þær sem eru leyfðar.

* * *

Nema hvað. Eintök, frumrit. Það er hægt að eyðileggja frumrit – svona einsog það er hægt að svíða lokkinn úr hári Schillers. Bókmenntaverk eru hins vegar ekki frumritin af sjálfum sér. Öxar við ána breytist ekkert þótt við syngjum upp í rassinn á Stjána.

Stundum eru gerðar breytingar á bókum í útgáfusögu þeirra – einsog t.d. þegar Íslendingasögurnar eru gefnar út með nútímastafsetningu, eða þegar biblían er endurþýdd svo hún samræmist betur ríkjandi siðferði. Stundum er líka spólað til baka því breytingarnar þykja svik við frumverkið, sérstaklega ef um er að ræða nútímabókmenntir og breytingarnar voru gerðar í trássi við vilja (lifandi) höfundar.

Breytingar af þessu tagi þurrka hins vegar sjaldnast út frumverkið, koma ekki í staðinn fyrir það – nema svo illa vilji til að frumverkið hafi aldrei komið út nema í mýflugumynd og öll eintök af því gufi upp eða gleymist. Það á í sjálfu sér auðvitað við um mörg verk. Á þann hátt „hverfa“ flestar bækur – ekki á bókabrennum heldur ofan í gleymskuhyl, svo minnir á orð Rays Bradburys, höfundar Fahrenheit 451, um að það sé verri glæpur að lesa ekki bækur en að brenna þær.

En það eru ekki þær bækur sem við leggjum okkur fram um að vernda – við erum eiginlega alveg sátt við að þær hverfi bara, þá er meira pláss fyrir nýtt efni – og við sinnum því skammarlega lítið að hjálpa lifandi rithöfundum að sleppa undan ritskoðun, þar sem raunverulega hættan liggur. Það er miklu auðveldara að koma í veg fyrir að tiltekin bók sé skrifuð en að útrýma henni þegar hún er komin út.

* * *

Fyrir nokkrum árum fengu þrír listamenn fé frá útlenskri barónessu og keyptu mikla og stóra bók eftir Eggert Pétursson sem hafði að geyma skýringamyndir af flóru Íslands – málverk sem mörgum þykja miklar gersemar. Bókin sem var nú kölluð upp á latínu Flora Islandica og seld ríku fólki og/eða forföllnum og mjög sparsömum aðdáendum – verðið var í öllu falli ekkert fyrir verkalýðsstéttina (annað en upprunalega handbókin sem myndirnar voru gerðar fyrir). Listamennirnir tóku bókina – eitt eintak af 500 sem voru gefin út – og sulluðu í hana matarleifum, í anda seyðfirska listamannsins Dieters Roth sem vann mikið með bæði bókverk og rotnandi matvæli. Þetta verk, sem listamennirnir kölluðu Fallegustu bók í heimi, sýndu þeir á sýningunni Koddu. Allt varð brjálað – Nýló fjarlægði verkið, það var sett upp aftur annars staðar og bla bla bla. Þessari narratífu er hægt að gúgla ef maður hefur búið í helli síðustu árin.

Þegar ég gaf út ljóðabálkinn Súblímatvatn árið 2007 – sem er rímix á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, mikið til út frá aðferðum Oulipista – grunaði mig ekki að hann hefði farið í taugarnar á neinum. Það var sannarlega heldur ekki ætlunin – það hvarflaði ekki einu sinni að mér að það væri hægt að pirra fólk með þessu, og kom ekki á daginn fyrren mörgum árum síðar að nokkrum hefði sárnað. Þá var ég með stuttu millibili bæði konfronteraður fyrir að hafa unnið þessi „helgispjöll“ og fékk veður af almennari hneykslun í gegnum þriðja aðila (hún hefur samt varla verið mjög almenn, þá hefði ég nú orðið var við hana á sínum tíma – og þetta er þrátt fyrir allt úr ljóðabók, sem seldist reyndar ágætlega en ekkert í líkingu við neinar skáldsögur, Ich habe nie ein Schiller gewesen).

* * *

En hvað þá – hvaðan kemur reiðin? Fólk tengist stundum listaverki djúpum persónulegum böndum og þar með hættir verkið að vera jarðneskt fyrir þeim og verður þess í stað heilagur gripur. Fólki finnst það hafa komist í tæri við guðdóminn – finnst listaverkið beinlínis fullkomið og að allar „breytingar“ á því séu eins konar árás, kannski á það sjálft, tilfinningar þeirra, kannski á listina sem slíka, kannski á guðdóminn og fullkomleikann. Eitthvað sem var hreint og fagurt er ekki hreint og fagurt lengur – svona einsog maður sé neyddur til að hlusta á einhvern spila Led Zeppelin falskt og illa og klappa fyrir því á eftir. Eða einhver helli meinlausum matarlit í Strokk. Hinar raunverulegu afleiðingar skipta þá engu máli – skaðinn skeður í hugarheimum eða hjartanu.

Því auðvitað stendur bálkurinn Tíminn og vatnið ósnertur eftir Súblimatvatn – rétt einsog málverk Eggerts Péturssonar af flóru Íslands eru ósnert eftir Fallegustu bók í heimi. Meira að segja Stairway to Heaven er enn til – og hefur þó engu listaverki verið eins ægilega misþyrmt í gegnum tíðina. Flora Islandica er til í 499 eintökum og einhvers staðar eru meira að segja til af málverkunum frumritin og afrit í Flóru Íslands, sem er til á öðru hverju heimili í landinu. Flora Islandica lifir þetta allt af.

* * *


Einhverjum árum eftir að hann varð frægur fyrir myndir sínar kom annar maður á sjónarsviðið, Gustav Hellmann. Hann reyndi hvað hann gat að ná svipuðum myndum og Bentley en tókst aldrei – snjókornin hans voru alltaf brotin og aflaga, aldrei fullkomin. Hann konfronteraði Bentley með þetta og komst að því að Bentley hafði ekki bara manipúlerað myndirnar sem hann tók heldur líka sjálf snjókornin – lagað þau til, potað í þau með verkfærum. Fullkomin snjókorn eru afar sjaldséð.

Bentley leit hins vegar á sig sem natúralista og svaraði þannig fyrir sig að fullkomnunin væri hin eina rétta mynd snjókornanna, brotin og aflögunin væru afbrigðileg, og nær öll snjókorn væru þannig undantekning frá reglunni (sem væri fegurðin). Þótt vísindin hafi á endanum tekið undir með Hellmann – því einsog annars staðar í lífinu er það hið afbrigðilega sem er satt, mergðin, en ekki platónska frummyndin, lífið er skítugt og marið – þá má segja að Bentley hafi unnið fagurfræðilega slaginn. Snjókorn eru fullkomin – tákn fyrir margbreytileika hins fullkomna, symmetrísk og skammær, en alltaf heil, aldrei brotin.

* * *

Og Schiller. Hárið af Schiller. Friedrich. Dauðagríma Nietzsches.

Réttarhöldin eru aldrei gefin út einsog Kafka gekk frá þeim. Hann gekk náttúrulega heldur ekki frá þeim – ekki til útgáfu, bara gekk í burtu frá þeim. Og það var brot á sæmdarrétti hans að gefa verk hans út. Hann vildi þetta aldrei. Gott fyrir mig en glæpur gegn Franz.

En Schiller. Friedrich. Hárið af Schiller. Sem gerði einhvern tíma einhverja stelpu vitlausa af þrá. Gerði ótal stelpur vitlausar af þrá. Lokkurinn var tákn um eitthvað – að hún væri sérstök. En hvað ef hún var ekki sérstök, hvað ef önnur hver fjósakelling í Þýskalandi fékk líka lokk.

Hvað ef hárið af Schiller var sjálft ekkert sérstakt?

0 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png