Ljóð fyrir hálfupprisinn draugPáskarnir búnir. Eða liðnir að minnsta kosti, ef þeir eru ekki búnir. Ég er sá eini í minni fjölskyldu sem er búinn með páskaeggið sitt að minnsta kosti. Með páskunum kom Aldrei fór ég suður, eftir þriggja ára hlé, og með páskunum fór veturinn. Nú er loks að verða snjólaust í bænum. Ég sá helling af tónleikum – hápunkturinn var áreiðanlega systkinabandið Celebs. Með eftirminnilegri atriðum frá upphafi. Trylltur kraftur og tryllt stuð. Aino var ánægðust með Bríeti – fór alveg fremst – og Aram með Sólstafi. Nadja sennilega sammála mér með Celebs en strax þar á eftir var garanterað plötusnúðurinn á Húsinu, sem fékk mikið lof hjá dansþyrstum. Þá var ég aðallega úti að reykja (af því mér finnst það gott en líka af því ég er hræddur við að skemma á mér hnéð aftur í fylleríisdansi).


Sjálfur lék ég líka á einum tónleikum – sem bassaleikari í hljómsveitinni Gosi. Það var gríðargaman. Auk þess mannaði ég barinn á Aldrei í áttamanna feðgateymi á laugardagskvöldið – við Skúli frændi, Háli og Hjölli ásamt sonum – en annars var ég mest bara að frílysta mig. Einhvern veginn tekst manni samt að verða alveg húðlúinn af öllum þessum frílystingum.


Í morgun fór ég síðan í bókabúð og ætlaði að kaupa nýja ljóðabók Sjóns – ég er svo lítið í sambandi við umheiminn að ég veit ekki einu sinni hvað hún heitir, sem kom ekki að sök af því hún var ekki til. Eða kannski kom það einmitt að sök þess vegna. Ég hefði kannski fundið hana ef ég hefði vitað hvað hún hét. Eða ég hefði getað látið lífvörðinn úr Celebs, sem selur bækur, panta hana fyrir mig. En af því ég er draugslegur eftir helgina keypti ég bara „eitthvað annað“ – og varð ekki „fyrir vonbrigðum“.


Annars vegar keypti ég Klón eftir Ingólf Eiríksson og Elínu Eddu og hins vegar Sataníu hina fögru eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. Og las þær strax upp til agna og svo aftur. Mér finnst alltaf einsog ég hafi margskrifað um bækur Steinunnar, sem ég held mjög mikið uppá, en svo finn ég það aldrei og kemst aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að sennilega hafi ég bara alls ekki skrifað neitt um neina þeirra. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég á að segja, svo kannski er það bara best – þetta eru ljóð sem myndu lýsa sér sjálf best en maður á kannski að fara varlega í að vera að pósta heilum ljóðum eftir fólk svona á bloggið sitt nema maður ætli að hafa um þau fleiri orð og greiningar. Einu sinni póstaði ég gjarnan ljósmyndum innan úr ljóðabókum – einhverjum fannst það víst ekki við hæfi en mér fannst alltaf að það væri öðruvísi vegna þess að textinn birtist sem mynd, ógúglanlegur, ókópípeistanlegur, en það var áreiðanlega fyrirsláttur og auk þess er það úrelt. Tæknin hefur breyst. Batnað, skilst mér. Allavega aukið við sig. Í dag getur hún meira, á ég við.


Steinunn allavega – eigum við að segja að hún trufli fegurðina? Í einu ljóðinu í nýju bókinni kemur fegurðin í heimsókn og ljóðmælandi fer að hengja á hana alls konar „ljóta hluti“.


Límtúpu asnalega græna. Baðmottu úr hálfhörðu gúmmíi. Málaðan stein. Vetrargrænan akur. Lampaskerm.

Og þá gleðst fegurðin og skín. Svona eru flest ljóðin einhvern veginn. Dálítið skökk en falleg. Dálítið agressíf en mjúk. Dálítið klikkuð en jarðbundin. Dálítið réttstæð og dálítið rangstæð. Dálítið falleg en alltaf svolítið af ljótu hangandi úr þeim, sem gerir þau enn ... kannski ekki fallegri en betri.


Ég las Línulega dagskrá eftir Ingólf þegar hún kom út en hún markaði svo sem engin spor í mig. Ég man að ég hryllti mig yfir þeim ófyrirgefanlega glæp að skrifa orðið „niður“ niður. Að vísu ekki

n

i

ð

u

u

r

sem hefði verið verra, heldur

niður

niður

niður

niður

En annars fór hún svolítið innum annað og útum hitt – Meðgönguljóðaformattið var líka einhvern veginn þannig að það þurfti ansi mikið til þess að skera sig úr. Bæði voru bækurnar svo stuttar og estetíkin svo samræmd; hjúpaði þær svolítið. Í svipinn man ég bara eftir örfáum bókum sem slógu mig – Herra Hjúkkett og Neindarkennd þar efst á blaði. Ég myndi nefna líka Kvöldsólarhana en ég ritstýrði henni og er bullandi hlutdrægur.


Nema hvað. Svo las ég Stóru bókina um sjálfsvorkunn sem var miklu meira verk og áhugaverðari þótt mér hafi kannski þótt hún aðeins of stillt til að sitja í mér lengi. Klón er í einhverjum skilningi ennþá stilltari og fókuseraðri og jafnvel klínískari en þar kemur líka fram mjög mikið af karakternum í bókinni – hún minnir á Gertrude Stein á köflum í heimspeki- og tungumálalegri smásmygli; veltir ekki við augljósustu steinunum, eða kannski öllu heldur: maður veit ekki að þetta voru augljósustu steinarnir fyrren þeim hefur verið velt við. Hún minnti mig líka svolítið á Jonas Gren – t.d. Alls staðar þarf ég að vera miðpunktur alheimsins – eða Gå till historian eftir Linn Hansén.


Altso, frábær bók, alveg dásamleg.


Elín Edda á heiðurinn af myndum bókarinnar sem eru líka æði, þótt ég hafi minna um þær að segja – ég þarf alltaf að setja mig í mjög miklar stellingar til að hafa eitthvað meira um myndlist að segja en „æði“ eða „meh“. Og ég er einsog ég nefndi frekar draugslegur þennan mánudagsþriðjudag eftir páska, alveg búinn með allar stellingar nema þessa þar sem ég ligg kylliflatur í sófanum.


Ég verð nú eiginlega að nefna líka dúkristuna á kápunni hjá Steinunni, sem heitir María mey og er eftir Fríðu Karlsdóttur. Líka æði.

36 views0 comments

Recent Posts

See All
Einlægur Önd_edited.png